Tímarit Máls og menningar - 01.11.1950, Síða 131
SYNDAFLÓÐ OG ÍSALDIR
289
Að svo stöddu verðum við að bíða átekta og reyna að sefa kvíða okkar íyrir
væntanlegri tortímingu með þeirri hugsun, að dómsdagsspá Browns sé tilgáta ein,
er ekki styðjist við gildar sannanir. En skyldi það nú koma á daginn, að við yrð-
um að taka mr. Brown í tölu hinna stóru spámanna, þá er það þó allténd liuggun
í neyð að mega treysta því, að dollaramilljónirnar — að viðbættri pínulítilli ögn
af mannviti — séu þess megnugar að afstýra voðanum. Dýr er dollarinn og mátt-
ugur í eðli, á það skulu ekki bomar brigður, en samt yrði nú þetta að teljast frek-
ar lágt tryggingargjald gegn því líkri veraldarógn, sem hér er á dagskrá. Og síð-
ast en ekki sízt: í þess konar beitingu kjarnorkunnar væri þó einhver vitglóra.
(Fyrir nokkru las ég grein um þetta efni eftir rithöfundinn Gunnar
Leistikow, en grein sú var byggð á viðtali við Hugh A. Brown hinn
ameríska. Mér þótti greinin nýstárleg og fannst skaðlaust, að efni
hennar kæmi íslenzkum lesendum fyrir augu. Nýjar hugmyndir eru
ávallt forvitnilegar, þótt orka kunni tvímælis á ýmsa lund. Þessa grein
Leistikows hef eg hér að framan endursagt — fremur en þýtt. -— Um
fræðilegt gildi hennar get eg að sjálfsögðu ekki dæmt, hvorki til né
frá. Vísindamennsku þeirra félaga, Browns og Leistikows, sel eg ekki
dýrara verði en eg keypti. Má vel vera, að vísindamönnum okkar finn-
ist fátt um, og skal það vitanlega þykkjulaust af minni hálfu. En
kannski gæti þetta orðið þeim ágætu mönnum tilefni til að láta ljós
sitt skína og bregða nokkurri birtu á þær ráðgátur jarðsögunnar, er
grein þessi víkur að.
Geta má þess, að grein Leistikows fylgir teiknimynd af hálfkúlu
jarðar, og mun hún eiga að sýna, hvernig Brown hugsar sér útlit hnatt-
arins daginn eftir dómsdag. Þar liggur miðjarðarh'na um norðanvert
Grænland, yfir Skandinavíuskagann í námunda við Stokkhólm og
þaðan suðaustur um Evrópu, allt til Svartahafs. A myndinni getur að
líta Island, en nú liggur það drjúglangt fyrir sunnan miðjarðarlínu.
Stóra-Bretland og írland sjást aftur á móti hvergi, og öll er vesturströnd
Evrópu eitthvað torkennileg.)
Á. H.
Tímarit Máls og menningar, 3. h. 1950
19