Tímarit Máls og menningar - 01.12.1966, Síða 69
Elías Elíassun
ig var nú með séra Snorra og Eirík í Vogsósum og íleiri ágæta presta, sem
maður hefir heyrt sagnir af og lesið um, ekki voru þeir nú aldæla. Jafnvel
ekki Sæmundur eða blessaður Hallgrímur. Svo að vígsla er nú meira en orð-
in tóm. Og enginn skyldi dæma að óreyndu.
— Ég fel þér þetta þá, Halldóra mín, að tala við prestinn fyrir mig, segir
hún hátíðlega. — Og draga ekkert undan.
En þrátt fyrir traust ekkjunnar og meðfædda hæfileika vefst það ótrúlega
fyrir Halldóru að komast að efninu. Hún byrjar á því að tala um þann mikla
missi, sem þetta heimili hafi orðið fyrir við fráfall Elíasar Elíassonar.
— Ég skii það, ég skil það, samsinnir presturinn og nýr hendur sínar til
skiptis. — Ég þekkti hann að vísu lítið, en ég talaði yfir honum og ég vona
að aðstandendur hafi verið ánægðir með það.
— Ánægðir! Já, ég held nú það. Hún Guðný mín blessuð var einmitt að
tala um ræðuna yðar við mig, núna áðan, og við vorum sammála um það, að
betri ræðu hefði Elías heitinn ekki getað fengið. Ég var sjálf við jarðarför-
ina, svo ég get borið um það. Það var hvert orð sannleikur, sem þér sögðuð
þar.
— Það er einmitt það. Það gleður mig alltaf að geta gert aðstandendum
til hæfis í líkræðum. En þetta er ekki alltaf auðvelt. Maður er ekki nógu
kunnugur og alltaf önnum kafinn. Lítill tími til að kynnast fólkinu. Og ég
þekkti Elías heitinn ekkert persónulega, en ég reyndi að afla mér upplýsinga
eftir föngum. Þetta var ekki á heppilegum tíma, fólk önnum kafið, þér skiljið,
en mér fannst sjálfum að ræðan mundi vera nokkuð svo vel heppnuð.
— Já, hún var það áreiðanlega, fullyrðir Halldóra af alvöru. — Ég þekkti
Elías heitinn alla hans búskapartíð. Hann var framúrskarandi dugnaðarþjark-
ur —
— Það er einmitt það. Það var að vísu óheppilegt, að hann skyldi deyja á
þessum tíma, í byrjun sauðburðar, en við því er ekkert að segja. Það er hlut-
ur, sem enginn ræður við.
Nú bregður snöggvast fyrir tortryggni í svip Halldóru, eins og ekkjunnar
fyrir stundu. En presturinn horfir á hana heiðum augum, opinskár og graf-
alvarlegur, eins og sálnahirði ber að vera. — Já — það var mjög erfitt,
segir liún vandræðalega.
— En Guðný bar sig vel, mjög vel. Ég hef varla séð nokkra konu bera
missi eiginmanns síns jafn vel, heldur presturinn áfram og togar í holdgranna,
hvíta fingur sína svo að brestur hátt í hvað eftir annað. Vinkonan verður
387