Tímarit Máls og menningar - 01.09.1986, Page 11
Adrepur
En hvaða tíðindi boðar það að gamlir samningar hætti að mæla fyrir um
hegðun manna? Að mínu áliti stóðu þeir í vegi fyrir því að blása mætti
lífsanda í almenna bóksölu í landinu: nú er tækifæri til að gera það. Oft
hefur verið rifist um hvort bækur séu eins og hver önnur vara. Það eru þær
auðvitað en um leið mjög sérstök vara oft á tíðum — þú hleður aldrei
sönnum tilfinningum í niðursuðudós eða sápustykki. Engu að síður er og
ætti að vera vilji allra að sem flest eintök seljist.
Sumar bækur eru auðvitað ekkert frábrugðnar áðurnefndri niðursuðu-
dós, aðrar bækur á að meðhöndla af stakri virðingu fyrir innihaldinu.
Gömlu samningarnir gerðu ráð fyrir því að allar bækur væru meðhöndlaðar
eins. Með nýfengnu frelsi aukast vonandi möguleikarnir á að selja bækur
eins og sæmir hverri bók fyrir sig.
Eg tel að útgefendum og bóksölum væri báðum hollt að íhuga hvort þeir
séu ekki menn til að lifa við og notfæra sér aukið frelsi án þess að allt hlaupi í
hund og kött. Þeir eiga að taka höndum saman og gera bóksölu mun líflegri
og skemmtilegri en hún er, til dæmis með því að vanda til framsetningar á
bókum og bjóða viðskiptavinum upp á sérstök bókatilboð, einn eða tvo titla
í hverjum mánuði. Það þarf að auka veg svokallaðrar bókaútsölu sem í
mörgum löndum er einhver skemmtilegasta uppákoma ársins fyrir bóka-
fólk. Víða tíðkast að góð klassísk bók sé þá endurprentuð sérstaklega og
boðin á lágu verði. Mér finnst líka nauðsynlegt að velja á hverju ári nokkrar
íslenskar skáldsögur og bjóða þær á sérstöku nemendaverði til að auðvelda
skólunum kennslu í nútímabókmenntum okkar.
Kiljuútgáfu þurfa útgefendur að auka, en það verður ekki gert nema
útgefendur, bóksalar og bókelskt fólk taki sig saman og styðji þá útgáfu
fyrstu sporin.
Barnabækur þurfa að fást víðar en í bókabúðum, til dæmis gætu stór-
markaðir stillt barnabókum upp við afgreiðsluborðin í stað sælgætis.
Verð á bókum hefur útgefandi ákveðið og það hefur gilt um allt iand.
Víða um lönd hafa menn gert tilraunir með verðlagningu, í Frakklandi var
til dæmis reynt að gefa verð frjálst en það gafst illa. Þess vegna var brugðið á
það ráð að leyfa bóksölum að gefa allt að 5% afslátt af bók ef þeir kærðu sig
um. Eg held að þessi háttur Frakka sé til eftirbreytni og mundi vafalaust
mælast vel fyrir hjá þeim sem kaupa mikið af bókum.
Þannig má lengi telja og endalaust betrumbæta og nota hugmyndaflugið
til að auka bóksöluna. En það verður ekki gert nema menn hafi frelsi til að
reyna hugmyndir sínar og viðbrögð bókakaupenda við þeim. Fái útgefend-
ur og bóksalar þetta frelsi er ég sannfærður um að bókabúðir verða enn
skemmtilegri verslanir hér eftir en hingað til.
273