Tímarit Máls og menningar - 01.09.1986, Page 58
Tímarit Máls og menningar
tíu ára gamall eins og Dísa, stendur frammi fyrir þeim vanda að móðir hans
hefur yfirgefið heimilið og flyst síðan til útlanda með litlu systur hans.
Pabbi hans drekkur og stendur sig illa í hlutverkinu sem einstæður faðir.
Oft er Polli því einmana og ráðvilltur þó að hann standi sig eins og hetja og
leggi sig allan fram um að halda heimilinu og pabba sínum á réttum kili.
Hann saknar mömmu sinnar og litlu systur sárt, þráir að fjölskyldan
sameinist á ný og jafnvægi og öryggi skapist á heimilinu. Þrátt fyrir harða
baráttu Polla er allt í óvissu í bókarlok. Hörð ádeila á kæruleysi foreldra
gagnvart börnum kemur fram í þessari bók engu síður en í Lyklabarni. Polli
hefur ekki annan að treysta á en sjálfan sig þó hann sé aðeins tíu ára. Enginn
fylgist með því hvernig honum gengur í skólanum eða yfirleitt hvað hann
tekur sér fyrir hendur. Sambandsleysi drengsins við móðurina er átakanlegt.
Hún gefur sér ekki einu sinni tíma til að skrifa honum almennilegt bréf þrátt
fyrir ítrekaðar tilraunir Polla til að halda uppi bréfasambandi við hana.
Faðir Polla hugsar fyrst og síðast um eigið skinn og eigin þarfir svo að
sjaldan er tími fyrir Polla. Þarfir hans og langanir verða alltaf að víkja fyrir
áætlunum foreldranna alveg eins og þarfir og þrár Dísu í Lyklabarni. Lof-
orðin eru líka léttvæg hjá pabba hans Polla:
— Eigum við þá ekkert að grilla í kvöld, pabbi?
— Grilla?
— Þú varst búinn að segja að við mundum gera það.
— Var ég búinn að því?
- Já-
— Náðu í glös og settu þau á borðið.
— Þú sagðir að við gætum grillað úti á svölum. Þú sagðir það, pabbi. Ég
var búinn að hlakka svo til.
— Hvenær sagði ég það?
— I morgun. Manstu ekki?
— Æ, það getur nú varla breytt miklu hver býr til matinn. Ég get ekki séð
að það skipti nokkru máli. Það er sama hvaðan gott kemur. (bls. 66)
Hér er Einar (pabbi Polla) orðinn slompaður og hefur keypt úti í búð
tilbúnar kínverskar pönnukökur.
Eins og komið hefur fram eiga Polli og Dísa ýmislegt sameiginlegt fyrir
utan það að vera jafnaldra. Bæði eru borgarbörn sem eiga önnum kafna
foreldra og verða að sjá um sig sjálf að miklu leyti. Bæði eru vanrækt
tilfinningalega og lítils metin í samfélagi sínu. Þau ráða engu um eigin
aðstæður og ekkert tillit er tekið til þeirra í sambandi við stórar ákvarðanir
sem varða alla fjölskylduna, til dæmis veit Polli ekkert um ákvörðun
mömmu sinnar um að fara að heiman fyrr en hún er á bak og burt, málin eru
320