Tímarit Máls og menningar - 01.09.1986, Page 99
Þegar örlagavindarnir blésu
Og myrkur, myrkur sem svífur.
Eftir aðalbrautinni renna bíldekk, svartir hjólbarðar sem rúlla.
Um líkama leika straumar, eftir æðum skjótast gneistar og inní
bílnum, um loftið inní bílnum svífur ljósgrár tóbaksreykur, liðast í
litlum bólstrum, hringlaga skýjum og hjörtum á milli rauðra vara og
strax þegar Nikulás, með hendur á stýri bílsins, sveigir inn stóru
bogadregnu beygjuna á aðalbrautinni koma hverfisblokkirnar í ljós.
Þær sjást í gegnum framrúðu bílsins með kumbaldaleg steinhús allt
í kringum sig og í fullu samræmi við klukkurnar sem tifa með
sekúndum sínum inná ný blöð í dagatölum eru ljósin í gluggum
þeirra á hraðfleygum flótta inní svefninn.
A meðan Nanna sýgur að sér tóbaksreykinn úr filtergulum enda
sígarettunnar og gul glóðin lýsist upp, finnur Nikulás hann líða fyrir
vit sér og svífa í kringum augun svo stjörnurnar, ljósblá sjáöldrin
verða þokukennd og svífa um í móðu á meðan malbikið bylgjast líkt-
og draumar þess ætli úrskeiðis.
Þess vegna, einsog hann haldi að við það gufi innilokunarkenndin
upp; grípur Nikulás með vinstri hendinni um losaralegt handfangið,
snýr því og skrúfar bílrúðuna niður og þegar Nanna teygir sig fram
og drepur í sígarettunni er hún að hugsa um leið og hún sér glóðina
slokkna í öskubakkanum, einsog svo oft þegar hún sér glóðir
slokkna, að kannski sé þetta síðasta sígarettan og kannski, en þá án
þess að hún nái að hugsa þá hugsun til enda, því þá er einsog hinir
huldu vindar láti enn á ný til skarar skríða og með snöggum hvin
brýst hrollkaldur gusturinn aftur inn um opna bílrúðuna þar sem
Nikulás, með hendur á stýri bílsins, finnur hvernig hann löðrungar
þau, kinnar þeirra, augu nef og varir, og flýtir sér; á meðan kuldinn
þrýstir sér gegnum hársvörðinn og hrollurinn sáldrast niður hálsmál-
ið, flýtir hann sér og ætlar að skrúfa bílrúðuna upp, en svo mikill er
flýtirinn og ákafur að í stað þess að snúa handfanginu rykkir hann
því til og kippir svo fast í það að skrúfurnar tvær, þær losna og falla
niður á bílgólfið um leið og handfangið dettur af.
Eru það ofsjónir sem stíga uppúr sálardjúpunum eða birtast hér
ósýnilegar verur, jafn raunverulegar og hrollurinn þegar hann sáldr-
ast, geirvörturnar sem stirðna og brún starandi augun.
TMM VII
361