Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Síða 19
Snorri Hjartarson
hans þegar á unglingsaldri og verð - vonandi - aldrei samur maður
eftir. Þessi dýrkun tók á sig margvíslegar myndir. Maður strekkti á
fjöll, ævinlega einn ef því varð við komið, með kvæði Snorra í
farteskinu, eða bara í huganum og á vörunum, því flest kunni maður
utan að. Og stundum var maður svo lánsamur að sjá skáldinu sjálfu
bregða fyrir í Skólavörðuholtinu á leið úr Bæjarbókasafninu heim á
Eiríksgötu, háum, grönnum, hæglátum og feimnislegum manni sem
fetaði sig áfram á malbikinu. I svip og fasi minnti hann á skógarguð
sem hefði villst í mannheima en varðveitt í göngulaginu eitthvað af
hreyfingum hjarðpípuleikarans.
Fyrsta bók Snorra Hjartarsonar, Kvœdi, hefur verið kölluð vöggu-
gjöf lýðveldisins, vegna útkomuársins 1944 og fallegra ættjarðarljóða
sem þar er að finna. Að vísu hafa verið leidd gild rök að því að ýmis
þeirra ljóða sem skilin hafa verið sem táknræn lýsing eða líking
þjóðlífsins í þúsund ár séu í raun mjög persónulegt uppgjör skáldsins
sjálfs við fortíð sína og nútíð og heimkomuna til Islands. En
hvað sem því líður er óumdeild sú mikla og heita ættjarðarást sem er
uppistaða þessara kvæða og eru hvert öðru fegurri smíðisgripir.
Þegar í þessari bók er Snorri orðinn fullþroskað skáld sem liggur yfir
ljóðunum, sverfur þau og fágar þangað til ekki verður betur gert.
Enda þótt grunntónn þessarar bókar geti talist innhverfur er
niðurstaðan, sú stefnuyfirlýsing sem felst í hinu magnaða lokakvæði
bókarinnar, Það kallar þrá, samsömun með og barátta í þágu hins
stríðandi mannlífs:
Dvel eilífð fjallsins háður
við aflinn smiður, málmur, loginn rauður,
og slá í órofsönn
ef ekki sverð, þá gullin stef á skjöldu!
Næsta bók, Á Gnitaheiði, sem kom út 8 árum seinna, er í samræmi
við þetta að hluta helguð viðfangsefnum líðandi stundar. I hinu fagra
upphafskvæði hennar, Dans, er lífsgleði og mannlegri samkennd
sungið lof. Fram til þessa hafði ekki verið mannmargt í ljóðum
Snorra, í samvistum skáldsins og náttúrunnar, hér er iðandi fjölbreytt
líf í samtíð og fortíð. Náttúrukvæðin eru enn sem fyrr ríkjandi í
bókinni, en í hana er kominn nýr undirtónn uggs og kvíða. Eitthvað
ískyggilegt er í aðsigi, háski steðjar að hinu unga, íslenska lýðveldi.
7