Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Side 78
Tímarit Máls og menningar
Marokkóbúa. Það sem hann hafði getað umborið hjá henni heima
fyrir og litið á sem hluta af bakgrunni hennar, fannst honum nú vera
hluti af stúlkunni sjálfri. Og á sama hátt fann hann hjá sjálfum sér
hvernig gallarnir þöndust stjórnlaust út og erlendi þrýstingurinn
gerði hegðun hans að skopstælingu á sjálfri sér. Hann fór að skilja
ástæðurnar fyrir því að bíða með kynlífið fram að hveitibrauðsdög-
unum; vandamál þess hefðu þó að minnsta kosti dreift huga hans frá
öðrum og drungalegri fyrirboðum. Það voru mistök að fara til
Marokkó, en hvert hefðu þau annars átt að fara eins og á stóð hjá
þeim, með fullar hendur fjár og að vetrarlagi?
Vissulega voru það peningarnir sem sköpuðu helstu vandamálin og
það var Marokkó sem varpaði þessum leiðindaskugga á peningana.
Hann vissi mætavel að ef hann hefði ekki haft furðulega há laun að
eigin mati, þá hefði hann aldrei þorað að ganga að eiga svo efnaða
stúlku af ótta við það sem fólk mundi segja: sannleikurinn var sá
að þau voru fjárhagslega vel sett bæði tvö, hún hafði erft dálitlar
eignir og hann átti peninga sem hann vann sér inn í sveita síns andlits
með því að skrifa fánýtar greinar í blað. Og fjármál þeirra voru
linnulaus uppspretta beiskju. Bæði þjáðust af sektarkennd, en sektar-
kennd hennar var fengin að erfðum, hans áunnin: þegar hann ásakaði
hana fyrir ríkidæmi hlaut hann að finna að hann var sjálfur enn
sekari, vegna þess að hann hafði átt völina. Það var engin vörn að
segja að hann hefði ekki verið að sækjast eftir peningunum heldur
starfinu sjálfu, því að vissulega voru önnur svið í blaðamennsku sem
ekki voru eins fáránleg og hans eigið svið, þótt hann hefði lent þar af
saklausri einlægni. Hann hlaut að hafa viljað það, rétt eins og hann
hafði viljað hana þótt hún tengdist svo mörgu sem hann fyrirleit, til
að mynda peningum. En á Englandi höfðu peningarnir þó að
minnsta kosti virst nauðsynlegir og syndsamlega eftirsóknarverðir:
Allir vinir hennar voru ríkir, allir vinir hans voru slyngir og á góðri
leið með að efnast og reyndar hafði hann sjálfur furðað sig á því hvers
vegna foreldrar hans höfðu aldrei átt bót fyrir rassinn á sér. En hér í
Marokkó var allt með öðrum hætti. I fyrsta lagi voru öll útgjöld
þeirra hreinn og klár óþarfi (hann gerði sér reyndar vonir um að ná
dálitlu upp í skattinn með því að skrifa skynsamlega grein). Enginn
fylgdist með eyðslu þeirra og aðstæðurnar voru í hæsta máta ömur-
legar til að eyða fé. Hann hafði ekki átt von á allri þessari fátækt og
66