Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Page 90
Tímarit Máls og menningar
einangrun hjónabandsins var einskis virði, ekki nokkur skapaður
hlutur í samanburði við allt þetta fólk, þessi börn, þessar mæður,
þessar frænkur, frændur, ömmur, lækna, trésmiði, stjórnmálamenn,
hálfvita, þjóna, steinhöggvara og götumálara. Fyrir tíu árum hefði
hann ekki getað greint þetta fólk hvert frá öðru en nú var hann farinn
að vita og aðgreina og jafnvel þótt bjarmi hugljómunarinnar dvínaði
þá vissi hann að eftir sæti að minnsta kosti trúin og grunnur
þekkingarinnar.
Og meðan hann horfði á þetta fólk varð hann gagntekinn einfaldri
ánægju og fögnuði og hann var í leyfi á frídegi þess og hann furðaði
sig á að það skyldi nokkru sinni hafa hvarflað að sér að það stæli úr
vösum hans. Það skipti ekki máli þótt það hefði vel getað stolið úr
vasa hans: honum átti ekki að koma slíkt í hug. Og meðan hann
horfði varð honum allt í einu ljóst að einn piltanna sem hann var að
stara á var enginn annar en skóburstarinn af hótelinu. Og hann starði
á skóburstarann og skóburstarinn starði á hann og augu þeirra
mættust og þeir þekktu hvor annan en gáfu það ekki til kynna:
hvorugur brosti, hvorugur hreyfði sig því að á þessum stað var engin
leið til að láta í ljós gagnkvæma niðurlægingu þeirra. Sem kurteisir
jafningjar ákváðu þeir sameiginlega að hunsa þá fortíð. Og hann sá
líka að skóburstarinn ungi var í fylgd smávaxinnar konu sem var
móðir hans og við hönd sér leiddi hann litla bróður sinn sem var
klæddur skínandi rauðri spariskyrtu og var um það bil fjögra ára
gamall.
Álfheiður Kjartansdóttir þýddi.
78