Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Page 68
þeir kenna manni sem dó fyrir meira en tvö þúsund árum um það sem aflaga
fer í stjórnmálum nútímans, eða hefur hann enn áhrif á evrópsk stjórnmál
og ef svo er hvers konar áhrif?
Lýðræði í Aþenu
Platon var af höfðingjaættum. Um hans daga tókust tvær fylkingar á í
aþenskum stjórnmálum, lýðræðissinnar og höfðingjaflokkurinn. Upphaf
þessara flokkadrátta mátti rekja aftur til öndverðrar 6. aldar. Þá geisuðu hörð
átök milli stóreignamanna og fátæklinga. Átökum þessum linnti með mála-
miðlun sem iðulega er kennd við spekinginn Sólon. Sú stjórnarbót sem hann
beitti sér fyrir markar upphaf aþenska lýðræðisins. Hálfri öld síðar, um 546
f.Kr. var þessi lýðræðisþróun stöðvuð um tíma þegar einvaldurinn
Písistratos náði völdum í ríkinu. Sonur hans tók svo við af honum en var
hrakinn frá völdum árið 510. Eftir það tvíefldust lýðræðissinnar og við tók
glæsilegasta blómaskeið aþenska borgríkisins.
í öðru grísku ríki, Spörtu, lyktaði stéttaátökum 6. aldar á annan veg. Þar
náðu höfðingjar öllum völdum og lifðu herbúðalífi og tömdu sér vopna-
burð, órofa samstöðu og strangan aga til þess að halda uppreisnargjörnum
fátæklingum í skefjum. Alla tíð síðan báru aþenskir höfðingjasinnar virðingu
fyrir Spörtu og spartverskum siðum og þar var Platon engin undantekning.3
Um 490 f.Kr. réðst fjölmennur persneskur her inn í Grikkland en fór hinar
mestu hrakfarir og beið ósigur við Maraþon. (Sá sem hljóp með fréttina til
Aþenu var fyrsti maraþonhlauparinn.) 10 árum síðar gerðu Persar aðra
tilraun til að brjóta Grikki undir veldi sitt en töpuðu. Það sem réð úrslitum
var frækileg framganga Aþenumanna undir forystu Þemistóklesar í sjóorr-
ustunni við Salamis árið 480. Eftir sigurinn á Persum höfðu Aþenumenn
ótvíræða forystu meðal grískra ríkja. Undir stjórn lýðræðissinna höfðu þeir,
fáir og smáir, sigrað persneska heimsveldið. Þetta gaf lýðræðissinnum góða
vígstöðu í stjórnmálum sem þeir notuðu til að draga enn úr völdum höfð-
ingja og landeigendaaðals.
Frá 461 var Períkles helsti leiðtogi lýðræðissinna. Undir forystu hans varð
Aþena stórveldi, ekki bara í hernaði og verslun heldur ekki síður í listum,
vísindum og heimspeki. Sókrates, sem var meistari Platons og aðalpersónan
í bókum hans, ólst upp á þessari gullöld Aþenu. Hann fæddist árið 470 og
var tekinn af lífi árið 399. Sem dæmi um gróskuna í menningarlífi borgar-
innar má nefna að á tíma Sókratesar voru að meðaltali frumsýnd þar um 20
ný leikrit á ári.
Lýðræðið í Aþenu var ólíkt því lýðræði sem við þekkjum. Af um 300.000
66
TMM 1996:4