Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Blaðsíða 77
manna) dómar og almennir borgarafundir höfðu. Þetta er kannski einhvers
konar afturhvarf til áranna fyrir Persastríð þegar höfðingjar höfðu enn
töluvert vald yfir málefnum ríkisins en vísar líka fram á veginn til fulltrúa-
lýðræðis og réttarríkis nútímans.
Þótt Platoni væri í nöp við það dómskerfi sem dæmdi Sókrates til dauða
gerði hann sér grein fyrir að 500 manna dómur sem er settur á síðustu stundu
hefur þann ágæta kost að það er erfitt að múta eða kúga 500 manns,
sérstaklega þegar ekki er vitað með neinum fyrirvara hverjir þeir eru. Platon
gerði sér líka grein fyrir kostum þess að láta fámennan hóp úrvalsmanna fara
með dómsvald. í Lögunum reynir hann að sameina kosti aþenska lýðræðis-
ins, vísindalegra stjórnarhátta og hefðbundinnar höfðingja- eða konungs-
stjórnar jafht í dómsmálum sem öðrum málum og hann leggur til að
fjölmennur hópur almennra borgara dæmi flest mál en stofnaður sé áfrýj-
unardómstóll sem sé skipaður fáum úrvalsmönnum eða sérfræðingum.19
Þessi hugmynd Platons minnir um margt á dómskerfi nútímalýðræðisríkja
þar sem menn geta skotið málum til hæstaréttar ef þeir sætta sig ekki við
úrskurð lægri dómstóla.
Hugmyndir Platons um áfrýjunardómstól gerir ekki aðeins ráð fyrir að
menn geti skotið úrskurði „alþýðudómstóla“ til „hæstaréttar“ heldur mælir
hann með því að allir valdsmenn séu gerðir ábyrgir að lögum og almenn-
ingur geti kært þá og dregið fyrir dóm ef þeir misbeita valdi sínu. Hann
gengur að ýmsu leyti lengra en gert er í réttarríkjum nútímans því hann
leggur til að almennir borgarar geti kært dómara sem fellir ranglátan dóm.20
Möguleikinn á að áfrýja dómum og skjóta ágreiningi við valdhafa til
hlutlausra dómstóla eru megineinkenni réttarríkja og það sem helst greinir
þau frá alræðisríkjum. Þótt Platon hafi verið talsmaður alræðis á öðru skeiði
rithöfundarferils síns, þegar hann skrifaði Ríkið, þá er hann líka einn helsti
upphafsmaður hugmyndarinnar um réttarríki.
Eigi allir valdhafar að vera ábyrgir að lögum og eigi að vera raunhæfur
kostur á að kæra þá ef þeir misnota vald sitt þá má valdakerfið í ríkinu ekki
mynda stigveldi þar sem einn maður eða ein stofnun trónir efst og hefur ráð
allra hinna í hendi sér. Það verður að dreifa valdinu þannig að hver valdhafi
sé undir eftirliti annarra yfirvalda sem saman eru nógu öflug til að geta
dregið hann til ábyrgðar ef hann misnotar vald sitt. Platon gerði sér grein
fyrir þessu og setti fram hugmyndir um valdajafnvægi, eða dreift og blandað
ríkisvald.21
Hugmyndir Platons um að koma megi í veg fyrir valdníðslu og tryggja að
valdinu sé beitt af hófsemi með því að láta valdastofnanir ríkisins hafa eftirlit
hverja með annarri, þannig að enginn sé yfir það hafmn að svara til saka fýrir
lögbrot, hefur haft gífurleg áhrif á evrópsk stjórnmál. Þær gengu aftur í ritum
TMM 1996:4
75