Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Page 101
Margrét Lóajónsdóttir
Tvö bréf
Madrid. 17.01.1994.
Einu sinni þekkti ég þig auðvitað ekki. En nú getum við hætt að vera
með látalæti. Þú veist hvað þetta snýst allt saman um (og hvað það
snerist allt saman um.) Aðeins þú hefðir vitað hvað ég þráði. Var þrá
mín þá barnsleg? Sakleysisleg? Já, hún var í senn dýrslega fögur og
barnslega saklaus.
Mig langaði aðeins til að senda þér bréf.
Ég var hætt að hugsa um nokkuð annað. En nú veit ég að þú hefur
áhyggjur af mér af því stimpillinn á frímerkinu stangast á við það hvar
ég segist vera. Hlustaðu samt á mig þegar þér finnst einsog ég tali út
frá hjartanu því þá eiga orð mín aðeins við um þig.
Ég vaki, ég vaki! Dorma, dotta, blunda, sofna, það er draumur hins
vansvefta manns. Ég ráfa um þessa borg, einmana og man stundum
ekki hvar ég bý. Bréfin til þín eru mér einskonar tjaldhælar þar sem
mér finnst ég svífa um himinhvolfið líkt og ógnarstórt tjald. Ég læt
mig dreyma. Og stundum gerist eitthvað voðalegt. En þú ert staddur
niðri á þessari litskrúðugu jörð og ég veit þú undrast um mig og ert
kannski hræddur, og kannski er full ástæða til, en ég segi þér hér og
nú: Ég spjara mig.
Einu sinni þekkti ég þig auðvitað ekki.
Samt leitaði ég þín á nóttu sem degi.
Þín fna.
TMM 1996:4
99