Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Side 103
Þorgeir Þorgeirson
Um sannindin og sparifataskáldin
bréf til Friðriks Rafnssonar
Kæri Friðrik:
Eins og þú kannski manst skrifaði ég þér bréf, sem þú birtir síðan í 1. hefti
Tímaritsins 1996. Tilefni þess var sú undarlega fullyrðing hins merka skálds
og kennara, Geirlaugs Magnússonar, í 3. hefti Tímaritsins 1995, að störf mín
í áratug hefðu verið tóm ímyndun, en árin „1962-72 hafði ég kvikmyndagerð
að aðalatvinnu, trúlega fyrstur manna hér á íslandi“ eins og fram var tekið
í fyrrnefndu bréfi.
I framhaldi af þessari leiðréttingu á „missögn“ skáldsins þótti mér tíma-
bært að greina frá því að viðleitni mín á þessu sviði strandaði á þeirri afstöðu
ráðamanna, að óþarfi væri að leggja fé í kvikmyndir um mannlífið í sinni
kvunndagslegustu mynd, en það hafði einmitt verið ætlun mín að stunda
þvílíka kvikmyndagerð.
Enda leit ég, og lít enn, á trúverðugleikann sem undirstöðu allrar kvik-
myndagerðar.
Ætlun mín tókst ekki sem skyldi, að frá talinni einni 10 mínútna s/hv
mynd um verkamenn í síldarverksmiðju. Hún heitir „Maður og verksmiðja“.
Sú mynd er ennþá til og fæst vídeóspólan á viðráðanlegu verði í bókakaffi
leshúss sem opið er daglega frá kl. 1600 til kl. 1900 í bakhúsinu á Bókhlöðustíg
6B, 101 Reykjavík.
Þú ættir að líta þar inn einhvern tíma.
Þetta tek ég hér fram vegna þeirrar nýju „missagnar“ Sauðárkróksskálds-
ins í 2. hefti Tímaritsins 1996, að ég hafi bannað sýningar á öllum mínum
verkum.
Ég hafði raunar ekki ætlað mér að svara í neinu þeirri yfirlýsingu skáldsins.
Hún er af því sauðarhúsi, sem hæfir strákum á tíunda ári eða svo, tímabilinu
þegar öllum ágreiningi er svarað með orðsprokinu „asni, bjáni, kúkur“.
Vonandi gleymist það líka fljótlega, að skáldið skuli hafa fallið niður á
þetta þroskastig þegar hann las leiðréttingu mína á „missögn“ sinni. Kunn-
ugir segja mér að hann sé dagfarslega með fullan þroska til að kenna
unglingum við gagnfræðaskóla og jafnvel á menntaskólastigi.
TMM 1996:4
101