Ólafía : rit Fornleifafræðingafélags Íslands. - 01.05.2012, Page 29
þess að hann væri hreinn (Lovsamling
for Island II, bls. 639).
Þessar reglur endurspegla vilja
skólayfirvalda til að mennta drengina í
borðsiðum efri stétta. Þeir skyldu sitja
við borð og allt skyldi vera hreint.
Yfirleitt hefur almenningur í landinu á
þessum tíma setið á rúmum sínum eða á
kistum og borðað úr öskum sem haldið
var á í kjöltunni. Máltíðir þar sem setið
var til borðs urðu ekki almennar meðal
alþýðu fyrr en á síðari hluta 19. aldar,
og þá helst við hátíðleg tækifæri (Lucas
2007, bls. 65).
Þessar reglur skyldu ennfremur eiga
við alla skólapilta, hvort sem þeir þáðu
ölmusu eða ekki. Hvar hver nemandi
sat í borðstofunni fór eftir námsárangri,
þ.e. í hvaða bekk drengirnir voru, en
ekki eftir efnahag og/eða fjölskyldu-
tengslum líkt og áður þegar fæði
ölmusupilta var annað en þeirra sem
borguðu með sér.
Reglugerðin frá 1743 virðist ekki
vera sérstaklega sniðin að matseðli
nemenda. Það er erfitt að borða harðfisk
af diski með skeið. Maturinn í
Skálholtsskóla hefur hugsanlega ekki
alltaf fallið vel að þeirri hugmyndafræði
sem skólayfirvöld reyndu að fylgja í
borðstofunni, með hreinum borðdúkum
áttunda hvern dag, en dæmi um úldið
kjöt og mýs í skyri í búrinu í Skálholti
eru þekkt úr ritheimildum (Benjamín
Kristjánsson 1956, bls. 240). Nýr
matseðill var gefinn út með
reglugerðinni frá 1746 og þar var
tiltekið að allir skyldu fá sama mat,
hvort sem þeir væru á ölmusu eða
borguðu fæðiskostnað, og að skólapiltar
skyldu fá eina heita máltíð á dag. Nýi
matseðillinn tiltekur saltfisk,
mjólkurgraut, hafragraut, heitar og
kaldar pylsur og plokkfisk (Lovsamling
for Island II, bls. 673).
Rúmlega 270 grömm af matar-
úrgangi fundust við uppgröftinn í
svefnstofu skólapilta í Skálholti.
Langstærstur hluti safnsins voru
dýrabein, flest úr spendýrum. Tæplega
60% beinanna fundust í lögum öðrum
en gólflögum eða ræsisfyllingum, flest í
torfhruni, sem bendir til að þau séu ekki
tengd viðveru í svefnstofunni. Þau bein
sem þó fundust í gólflögum benda til
þess að einhver neysla matar hafi farið
fram í svefnstofunni, þó að það hafi
aldrei verið gert í miklum mæli, og
kannski ekki á öllum byggingar-
skeiðum. Þau 63 brot af rauðum jarðleir
sem koma úr pottum (minnst þremur
mismunandi) benda einnig til neyslu
matar. Brotin komu öll úr jarðlögum
sem tengjast viðveru í herberginu og
þau voru öll brunnin að utan, sem
sannar að pottarnir hafa verið notaðir til
að elda í. Aðrir gripir sem benda til
neyslu matar og drykkjar eru að
minnsta kosti sjö flöskur, fimm skálar,
fimm föt, átta bollar, þrír diskar, þrjár
undirskálar, hnífapör og skeið. Þessi
matarílát gætu þó vel hafa verið notuð í
öðrum herbergjum, þó að þau hafi verið
geymd í svefnstofunni eða brotnað þar.
Skipting leirkerjanna eftir tíma-
skeiðum er athyglisverð. Bollar og
undirskálar fundust nær eingöngu á
Skólapiltar í Skálholti
__________
28
skeiði IV en pottbrot voru algengari á
fyrri skeiðum. Diskar, föt og skálar
voru flest frá tveimur síðari skeiðunum,
III og IV. Þessi skipting endurspeglar
hugsanlega nýjar reglur (frá 1743) um
hvar skólapiltar máttu borða og bann
við því að þeir keyptu sér mat utan
veggja skólans, sem og nýjan og bættan
matseðil frá 1746, þar sem pottum,
diskum og fötum fækkar til muna á
skeiði IV. Fjöldi bolla, undirskála og
skála frá því skeiði bendir til þess að
neysla tes og kaffis hafi verið orðin
algeng meðal skólapilta.
Fyrir utan mat og heita drykki sýnir
gripasafnið einnig að skólapiltar reyktu
tóbak, og safn flöskuglers í svefn-
stofunni bendir til þess að þeir hafi
drukkið vín. Eins og áður var vikið að
fundust 571 brot úr krítarpípum við
uppgröftinn í Skálholti. Fjöldi brotanna
bendir sterklega til þess að piltarnir hafi
reykt inni í svefnstofunni. Troðið og
rakt herbergið hefur því oft verið fyllt af
reyk. Krítarpípur eru langar og brot-
hættar og það þarf að fara varlega með
þær. Þegar þær voru nýjar og
sérstaklega langar hafa piltar þurft að
reykja þær sitjandi á rúmum sínum eða
kistlum. Reglugerðin frá 1743 bannar
reykingar í svefnstofunni vegna eld-
hættu sem stafar af þeim. Hvort fækkun
krítarpípubrota á skeiði IV er afleiðing
þess banns, eða hvort hún endurspeglar
breytta notkun tóbaks eftir að munn-
tóbak varð algengara, er erfitt að
fullyrða um. Þó er líklegt að dregið
hefði úr krítarpípureykingum eftir því
sem leið á 18. öld jafnvel þótt þær
hefðu ekki verið bannaðar með
reglugerð. Líkt og með krítarpípubrotin
fannst flöskugler á öllum byggingar-
skeiðum svefnstofunnar nema því fyrsta
(skeiði I), og varð það algengara eftir
því sem leið á 18. öld.
“Þar á mót lá við sjálfa garða, að ég
minn fyrra vetur í Skálholtsskóla, ef
ekki dæi út af, þá þó – nálega koðnaði
upp af sulti og órækt, þar sem pyngjan
var helzt til lítt hlaðin, til að ég gæti
keypt mér það ég við þurfti, og ég of
fjærlægur foreldrum mínum, til að þau
gætu hjálpað mér, enn skuldum vildi ég
ekki safna. Allar viðgjörðir voru í
sannleika svo, að gáfuvænlegum piltum
var ei viðvært, því síður að rétt væri af
þeim betalingur heimtaður þar fyrir,
framar enn konungleg boð tilstóðu. það
var dýrkeypt nóg, að leggja þar fjör sitt
og heilbrigði í sölurnar” (Sveinn
Pálsson 1950, bls. 192).
Virðingarröð skólapilta hefur stjórnast
af ýmsu og hafa viðskipti með hluti
eflaust verið ein af þeim leiðum sem
piltarnir nýttu til að tryggja stöðu sína.
Persónulegar eigur þeirra hafa ekki
einungis verið nauðsynjar heldur einnig
vörur sem hægt var að skipta á til að
komast ofar í virðingarröðina, eða
jafnvel til að komast upp með brot á
reglum sem Notarius myndi annars
tilkynna. Leiða má líkur að því að þeir
120 hnappar og 25 perlur, sem fundust
við uppgröftinn í svefnstofunni, hafi ef
til vill verið notaðar í viðskiptum. Það
er einfalt að telja hnappa og perlur og
Ágústa Edwald
__________
29