Húnavaka - 01.05.1968, Qupperneq 30
28
HÚNAVAKA
er að sjá, á frásögnum, að með þeim hafi verið góður kunningsskap-
ur. Oft hittust þeir, kunningjarnir, á Blönduósi, þegar Sumarliði
var í póstferðum og munu þá æði oft hafa drukkið saman, sló þá í
smáglettur með þeim og stundum þrætur nokkrar. Eitt sinn, er þeir
hittust, þrættu þeir um það hvor þeirra væri þyngri og gekk þræt-
an það langt að þeir veðjuðu potti af brennivíni. Skyldi pakkhús-
maðurinn hjá Möller vigta þá, en sá, er léttari væri skyldi borga
brennivínið. Eftir að þetta var fastmælum bundið, gengur jósep
út sem snöggvast, en kemur að stundu liðinni aftur og kveður sig
vera albúinn að ganga á vigtina. Fara þeir nú í pakkhúsið til
Möllers og biðja afgreiðslumann að vigta sig og var það auðsótt.
F.ftir að lóðin höfðu skorið úr um þunga þeirra félaga, féll úrskurð-
ur vigtarmanns á þá leið að Jósep væri 5 pundum þyngri en Sumar-
liði. Ekki þótti Sumarliða sinn hlutur góður, en keypti þó brenni-
vínið umyrðalaust og afhenti Jósep. Settust þeir að flöskunni um
stund og létu gamanyrði fjúka hvor um annan. Eftir nokkurn tíma
segir Jósep, að nú sé bezt að hann fari að telja fram. Sumarliði áttar
sig ekki í fyrstu á hvað hann á við með þessu. í því fer Jósep að tína
smásteina upp úr vösum sínurn og segir að sér hafi þótt vissara að
stinga þeim á sig, þegar hann hafi gengið út áðan, því að annars
hefði hann ekki verið viss um að vinna veðmálið. Ekki er þess getið
að Sumarliði hafi gert sér neina rellu út af þessum brellum Jóseps.
Ýmsar fleiri sagnir eru til af viðskiptum þeirra, Sumarliða og
Jóseps, en hér skal látið staðar numið. Margt er þó ósagt, sem sýnir
að Jósep á Hjallalandi var enginn hversdagsmaður og því ekki að
undra, þó að eftir honum væri tekið og hann lengur í minnum hafð-
ur en ýmsir af öðrum samtíðarmönnum hans.
Ég hef hér að framan brugðið upp mynd af Jósep á Hjallalandi
og vænti þess að hún sé nógu skýr til að sjá megi að hér var merki-
legur maður á ferð. Þegar þess er gætt hvað hann lét framkvæma
miklar jarða- og húsabætur á stuttum tíma, þá mun það hafa verið
svo til einsdæmi, á síðari hluta 19. aldar, hér um slóðir. Auk þess,
sem ég hef getið hér að framan, lét Jósep gera ýmsar fleiri jarðabæt-
ur á Hjallalandi. Var þar umfangsmest mikil skurðagerð til þurrk-
unar á engi jarðarinnar, svo og nokkuð til útfærslu á túni. Allar
þessar umbætur voru gerðar á tiltölulega stuttum tíma, sem varla
hefir verið lengri en 25—27 ár, því að eftir að aldur færðist yfir
Jósep, dregur mjög úr framkvæmdum hans, sem eðlilegt var.