Húnavaka - 01.05.1968, Blaðsíða 38
36
HÚNAVAKA
dal hjá Grímstungu. Eldri vegurinn lá upp frá Grímstungu og aust-
an gilsins, en nýi vegurinn var lagður frá Haukagili vestan árinn-
ar. Er það ofurlítið lengri leið en greiðfærari. Vegagerðin hófst á
skriðunni norðan við túnið á Haukagili, og strax ofan við það var
komið á erfiðan kafla sakir stórgrýtis. Skammt ofan við heiðarbrún-
ina varð ekki komizt fram hjá votlendi. Þar var vegurinn hlaðinn
upp, skurðir grafnir og ræsi gerð. Sunnan við gilið taka við Skúta-
eyrar. Þar er dalverpi, grösugt og skjólsælt. Á Skútaeyrum var mjög
eftirsóttur náttstaður, hvort sem menn voru á suður eða norðurleið.
Góðar heimildir eru fyrir því, að þar hafi Steingrímur Thorsteins-
son ort hið fræga kvæði: „Þú bláfjallageimur með heiðjöklahring".
Þá var hann á leið norður Grímstunguheiðarveg og gisti á Skúta-
eyrum.
Frá Skútaeyrum liggur vegurinn á 7 krn leið fram vesturbakka
Álftaskálarár. Er það á Haukagilsheiði. Síðan beygir hann til suðvest-
urs á Víðidalstunguheiði. Víðidalsá á upptök sín í mörgum kvísl-
um á vestanverðum Stórasandi. Þar eru Haugakvíslar tvær, Bjarnar-
lækur, Sandfellskvísl, Hólmakvísl og Dauðsmannskvísl. Allar eru
þær góðar yfirferðar og ekki vatnsmiklar. Við Haugakvísl ytri er
rakt mólendi. Þar var vegurinn hlaðinn upp og landið þurrkað með
skurðum. Sunnan við kvíslina liggur hann skáhallt upp lágan ás.
Þar er langur skurður og greinilegt að hann hefur verið gerður til
þess að halda ofanjarðarvatni frá veginum. Þá þornaði hann fyrr á
vorin. Sams konar skurðir eru miklu víðar, en þessi mun vera lengst-
ur.
Við Sandfellskvísl, um 27 km frá byggð, er komið fram að Stóra-
sandi, og liggur vegurinn meðfram vesturjaðri hans frarn að Hólma-
kvísl. Á milli kvíslanna er Suðurmannasandfell. Mun nafnið vera
dregið af því, að vegir milli Norður- og Suðurlands voru löngum
kallaðir suðurferðamannavegir. Hólmakvísl á upptök sín við suður-
horn fellsins. Norðan við hana liggur vegurinn yfir forblautt flóa-
drag. Þurfti þó ekki að fara langan krók til að komast fram hjá því.
Dragið hefur verið þurrkað upp með skurðum og ræstim, og vegur-
inn hlaðinn upp. Sjást þess glögg merki enn. Þetta ónýttist þó brátt
vegna dýja og vatnsaga. Jónas Björnsson frá Dæli í Víðidal fór þarna
um í göngum laust eftir aldamótin. Hann kvað veginn hafa verið
orðinn ófæran, en einn gangnamaður hafði samt riðið út í svaðið
og hleypt svo illa ofan í, að erfiðlega hefði gengið að ná hestinum