Húnavaka - 01.05.1975, Page 71
HÚNAVAKA
69
bundnir við orfið með ól og fleygur rekinn á milli til að strekkja á
böndunum. Þessi útbúnaður var mjög ófullkominn, og losnuðu
ljáirnir sífellt, ef blautt var á. Ekki bætti það heldur úr skák, hve
túnin voru þýfð, enda voru afköstin að jafnaði lítil. Þótti það góð-
ur verkmaður, sem sló hálfa dagsláttu á 15—16 stunda vinnudegi,
en það mun vera um sjötti hluti hektara. Þetta dæmi um orfhólk-
ana sýnir, hve lítið menn hugsuðu um bætt verkfæri og hve tilrauna-
og framfarastefna var takmörkuð. Eða skyldi nokkur trúa því, að
smiðir, sem smíðuðu og dengdu ljái, og smíðuðu yfirleitt öll þau
áhöld, sem þurfti til heimilisins, hefðu ekki alveg eins getað smíðað
almennilegar ljáfestingar? Nei, það sem hér var um að ræða, var
aldagömul, rótgróin vanafesta og hugsunarleysi; ráðaleysi.
Um þessar mundir var nýtt líf að færast í Islendinga. Til dæmis
hófu ,,Fjölnir“ og „Ný félagsrit“ göngu sína um þetta leyti, og voru
þau víða lesin. Sýndu þau mönnum fram á of mikla vanafesti og
hvernig verslunin hafði kúgað þjóðina. Hefur áhrifa þeirra vafalaust
gætt víða og vakið menn til umhugsunar.
Þá gerðist það árið 1842, að nokkrir bændur úr Svínavatns- og
Bólstaðarhlíðarhreppum bundust samtökum um stofnun jarðabóta-
félags.
II.
Þegar greina skal frá stofnun og fyrstu árum félagsins, veldur það
mestum erfiðleikum, að allar gjörðabækur eldri en frá árinu 1892
eru glataðar. Þær heimildir, sem hér verður stuðst við, eru fyrst og
fremst „Aldarminning Búnaðarfélaga Svínavatns- og Bólstaðarhlíðar-
hreppa“ eftir Jónas B. Bjarnason og ársritið „Húnvetningur", sem
prentað var á Akureyri 1857.
Helstu drög að stofnuninni voru þau, að sumarið 1842, sem var
mjög gott sumar, ákváðu nokkrir framkvæmdamenn úr títtnefnd-
um hreppum að stofna með sér félagsskap, sem stuðlaði að jarðabót-
um. Aðalfrumkvöðull þessa máls var Jón Sigurðsson bóndi á Brún
í Svartárdal, og mun hann ásamt fleirum hafa talað allmikið fyrir
félaginu og fengið menn með fortölum til að ganga í það og veita
því stuðning. Voru undirtektir svo góðar, að á fyrsta ári var lofað
meira en 100 ríkisdölum úr Svínavatnshreppi, en nokkru minna