Húnavaka - 01.05.1975, Side 94
92
HÚNAVAKA
að láta hann túlka fyrir okkur í þeim búðum, er við ætluðum að
verzla í. Sérstaklega þurftum við á honum að halda við þau pen-
ingaskipti, sem við ætluðum okkur að gera í Glasgow. Fundum við
hann hvergi. Við héldum að hann mundi koma í leitirnar aftur, en
það brást gersamlega, því að við sáum hann ekki síðar. Eg veit ekki
enn þann dag í dag hvað af honum hefur orðið, en líklegt er að
hann hafi strokið til átthaganna aftur.
Þessi hrekkur hans kom okkur mjög illa, einkanlega þar sem við
áttum eftir að fá peningunum skipt. Enginn okkar var fullkomlega
sjálfbjarga í málinu.
Þar sem ég kunni dálítið í ensku, hjálpaði ég löndum mínum
ofurlítið við að kaupa ýmislegt, svo sem; borðbúnað og matvöru.
Borðbúnaðinn þurftum við að nota á sjóleiðinni.
Um kvöldið kl. 8i/£ fórum við öll um borð í Allan-línugufuskip-
ið GRECIAN. Það lá fast við flóðvarpann. Mjó trébrú var af flóð-
varpanum út á skipið, og gengum við eftir henni, þegar við stigum
á skip. Einn íslenzkur vesturfari bættist í hópinn í Glasgow. Hann
hafði farið með Miaca til Skotlands og hafði verið 2—3 daga í Glasg-
ow, þegar við komum.
Fólkinu var raðað niður í klefana á skipinu. Fjölskyldur sér og
lausafólk sér. Um 300 enskir vesturfarar komu á skipið i Glasgow,
og nokkrir, sem ætluðu til Montreal að kaupa nautgripi.
3. sept. kl. 11 f. h. lagði skipið af stað frá Glasgow, ofan fljótið
Clyde. Á fljótinu stöðvaðist skipið fram undan borginni Greenich.
Þar hjálpaði ég löndum mínum að hafa peningaskipti við Franch,
Allan-línu agentinn, sem varð okkur samferða þangað. Við vorum
svo heppnir að hann tók mótmælalaust á móti íslenzkum bankaseðl-
um, eins og dönskum peningum. Hann gaf okkur ávísun á banka í
Quebec. Hann lét okkur einnig fá farbréf á ensku. Þegar Franch
hafði lokið þessum starfa fór hann í land á gufubát, sem kom að
sækja hann.
Þegar við vorum á höfninni fram undan Greenich, sáum við
Austra hin mikla (The Great Eastern) á fljótinu (Clyde), skammt
fyrir vestan okkur. Hann er búinn að liggja þar lengi. Það lifir
fjöldi fólks úti á honum. Það eru margar búðir og veitingahús m. fl.
í honum. Hann er stærstur allra skipa, sem enn hafa verið búin til.
Eftir þessa viðdvöl, héldum við af stað ofan fljótið og sem leið
lá vestur í haf. Framhald d nœsta ári.