Húnavaka - 01.05.1975, Page 108
106
HÚNAVAKA
stjóri í sinni sveit. Þau hjón þóttu samhent í hjálpsemi og gerðu
margt stórmannlega. Anna var félagslynd og lífið og sálin lengi vel
í Kvenfélaginu Heklu í Skagahreppi, er hún stofnaði og var lengi
formaður þess. Hafði það ýmsa útvegi til fjáröflunar. Reyndist Anna
þar samvinnufús og lét gott af sér leiða. Þá var hún fús að blanda
geði við fólk í sveitinni á fundum og gleðimótum. Enda var hún
hestakona góð, er sat vel í söðlinum og hafði ánægju af að spretta
úr spori. Átti hún jafnan gæðinga, er hún hafði gaman af að þeysa
á um hinar sendnu grundir Skagans. Kenndu menn hver þar fór, er
klárinn tók skeiðsprettinn. Þá lét Anna til sín taka, þau vandamál,
er útnesjabyggðum þessa lands hafa verið mjög hugþekk, en það eru
samgöngumálin. Segja má að Digrimúli hafi einangrað býlin Víkur
og Ásbúðir frá Húnavatnssýslu, þótt þau séu í henni.
Undir forystu Önnu gerði kvenfélagið þar brautryðjendastarf um
þessa hluti. Og oftar en einu sinni gaf Anna fjárupphæðir til vegar-
ins. Henni fannst ekki nóg að tala um hlutina, heldur fylgja þeim
eftir.
Henni varð að trú sinni á landið, óðalið, er Guð gaf henni í Vík-
um. Það varð henni til blessunar í starfi hennar og móðurumhyggju
meðal barna sinna. Hún hreif unga sem gamla með óvenjulegu fjöri,
er aldrei þvarr.
Því var sumardagurinn fyrsti mikill hátíðisdagur í hennar augum,
er hún vildi gera veizlu góða og láta fólk sitt fara í leiki, ungt sem
gamalt.
Anna var trúkona rnikil og vinur heilagrar kirkju. Kvenfélagið
Hekla lagði kapp á að prýða Hofskirkju. Og er Anna varð níræð
gaf það stjaka á altari kirkjunnar, til minningar um afmæli hennar.
Þessi höfðingskona Skagans, Anna Tómasdóttir Víkum, gleymist
ekki þeim er hana mundu.
Sr. Pétur Þ. Ingjaldsson.