Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Side 22
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 201522
VEGFERÐ TIL FULLORÐINSALDURS
Edelstein og Sigurjóns Björnssonar á þýðingu uppeldishátta (Sigrún Aðalbjarnardóttir,
2007; Kristjana Stella Blöndal, 2014). Þorbjörn Broddason og fleiri hafa kortlagt þróun
bóklestrar og fjölmiðlanotkunar meðal unglinga í hálfa öld (Þorbjörn Broddason,
Kjartan Ólafsson og Sólveig Margrét Karlsdóttir, 2010). Þórólfur Þórlindsson, Þór-
oddur Bjarnason og fyrirtækið Rannsóknir og greining hafa kortlagt og greint marga
þætti í lífsháttum og viðhorfum unglinga (Jón Gunnar Bernburg og Þórólfur Þórlinds-
son, 2007; Þóroddur Bjarnason, 2009; Þórólfur Þórlindsson, Þóroddur Bjarnason og
Inga Dóra Sigfúsdóttir, 2007) og Jón Torfi Jónasson og Kristjana Stella Blöndal hafa
skoðað brotthvarf úr framhaldsskóla (t.d. Kristjana Stella Blöndal, Jón Torfi Jónasson
og Anne-Christin Tannhäuser, 2011). Ástæða er til að greina nokkuð ítarlegar frá fá-
einum nýlegum rannsóknum sem hafa í ríkari mæli beinst að vegferð eins og hún
hefur verið skilgreind hér.
Jóhanna Rósa Arnardóttir skoðaði leið ungmenna inn á vinnumarkað eftir að þau
höfðu lokið námi eða horfið frá því og niðurstöður hennar voru þær að samhengi milli
skólagöngu og starfa fylgdi að mestu leyti sama munstri og í öðrum Evrópulöndum
og Bandaríkjunum. Háskólapróf leiddi alla jafna til betri starfa en próf af starfsnáms-
brautum framhaldsskóla en þeir sem hurfu frá námi fengu minnst metnu störfin. Þó
leiddi starfsnám frekar en háskólanám til fastráðningar fljótlega að námi loknu, en
fólk með háskólapróf fór síðan fram úr öðrum. Greining Jóhönnu Rósu sýndi enn
fremur að menntun foreldra réð miklu um það hversu hátt sett störf börn þeirra fengu
(Jóhanna Rósa Arnardóttir, 2014).
Sterkt sérkenni íslenskrar vegferðar til fullorðinsára er að atvinnuþátttaka ung-
menna hefur haldist mikil, þrátt fyrir öra lengingu skólagöngu og bættan efnahag
heimila. Fram á sjöunda áratuginn stundaði meginþorri ungmenna tveggja til fjög-
urra mánaða sumarvinnu frá 13 ára aldri en hlutfall 13–16 ára sem vann sumarvinnu
lækkaði næstu áratugi úr 98% árið 1962 (Ólöf Garðarsdóttir, 2009) í 74% árið 1997
(Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, 1999) og í 46% 2007 (Margrét Einarsdóttir, 2014). Á hinn
bóginn fór vinna ungmenna með námi vaxandi; fyrirliggjandi upplýsingar benda til
þess að hlutfall þeirra sem stunduðu launaða vinnu með framhaldsskólanámi og á
síðasta ári grunnskóla hafi numið um 40% frá 1990 og fram að hruninu 2008 og að yfir
30% hafi unnið meira en 12 tíma á viku. Þetta er lengri vinnutími ungmenna en meðal
annarra Norðurlandaþjóða (Margrét Einarsdóttir, 2014).
Annað sterkt sérkenni íslenskrar vegferðar er að sveigjanleiki áfangakerfis hefur
gefið íslenskum ungmennum möguleika á að teygja á framhaldsskólanámi sínu og taka
hlé frá námi, ekki síst til að stunda launavinnu. Á Íslandi hafa ungmenni líka frekar
getað gefið sér tíma til þátttöku í ungmennamenningu en annars staðar, samanber
t.d. þann fjölda alls konar hljómsveita sem spretta upp úr framhaldsskólum landsins.
Sveigjanleiki framhaldsskólans er sennilega meiri en í nokkru öðru OECD-landi og á
ríkan þátt í því að Íslendingar eru að meðaltali eldri við framhaldsskólalok en annars
staðar (Gestur Guðmundsson og Hulda Karen Ólafsdóttir, 2013). Vinna íslenskra ung-
menna meðfram námi og í hléum frá námi hefur m.a. í för með sér að heildarþátttaka
Íslendinga á vinnumarkaði er einna mest og lengst í OECD-löndum, þótt námslok
verði síðar á Íslandi en annars staðar.