Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Síða 58
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 201558
ÞVERSTÆÐAN UM LÝÐRÆÐISLEGT SKÓLASTARF
því að einn af grunnþáttum menntunar í aðalnámskrá sem gefin var út árið 2011 var
lýðræði og mannréttindi. En hvað þýðir þetta í raun fyrir skóla, t.d. grunnskóla? Hvað
getur skólafólk gert til að efla lýðræði? Hvernig getur skóli verið lýðræðislegur? Það
er síður en svo ljóst hvernig ætti að svara þessum spurningum. Í aðra röndina virðast
skólar styðja við lýðræðið með venjubundinni kennslu í hefðbundnum greinum. Þetta
sjónarmið kom fram þegar árið 1946, þegar ný heildarlög um almenna grunnmenntun
voru sett, en þá var litið á slíka menntun sem lykilatriði í því að byggja upp sjálfstætt,
nútímalegt og lýðræðislegt samfélag (Hlynur Ómar Björnsson, 2008; Ólafur Páll Jóns-
son, 2014). Á hinn bóginn virðist næsta fráleitt að skólar geti beinlínis verið lýðræðis-
legir þar sem þeir eru ekki samfélag jafningja, stjórnendur eru ekki valdir af þeim sem
undir þá eru settir, nemendur hafa ekki nema takmarkað um það að segja hvað gert
er í skólanum – og sömu sögu er raunar að segja um kennarana sjálfa. Hér birtist því
einhvers konar þverstæða um lýðræðislegt skólastarf. Annars vegar virðist flest sem
tilheyrir venjulegu skólahaldi falla vel að lýðræðislegu hlutverki skóla en hins vegar
virðist fráleitt að skóli geti yfirleitt verið lýðræðislegur. Þessa þverstæðu væri e.t.v.
auðvelt að leysa upp með því að gera greinarmun á lýðræði sem markmiði (undir-
búningshlutverk skólanna) og lýðræði sem leið að marki (starfshættirnir). Sú leið er
þó ekki opin þar sem skýrt er kveðið á um að markmiðinu eigi að ná með því að starfa
lýðræðislega.
Viðfangsefni mitt í þessari grein er tvíþætt. Annars vegar að gera grein fyrir þver-
stæðunni og hins vegar að leysa hana. Ég byrja á að útskýra fyrri þátt þverstæðunnar,
þá hugmynd að skólar sinni lýðræðislegu hlutverki sínu með venjulegri kennslu í
hefðbundnum greinum (II. kafli). Ég ræði síðan hugmynd Sókratesar um kennivald
skynseminnar (III. kafli) og nota hana til að hafna þessum skilningi á lýðræðislegu
undirbúningshlutverki skóla. Að því búnu (IV. kafli) set ég fram frekari greiningu á
kennivaldshugmyndinni áður en ég nota hana til að skýra nánar hugmynd um mótun
lýðræðislegra borgara (V. kafli) sem samrýmist því að skóli geti verið lýðræðislegur
þótt hann sem samfélag lúti ekki lýðræðislegri stjórn. Að lokum (VI. kafli) tengi ég
þessar hugmyndir við nýlegar hugmyndir um skóla sem lærdómssamfélag og geri
þá greinarmun á því sem kallað er faglegt lærdómssamfélag (e. professional learning
community) og því sem ég kalla lýðræðislegt lærdómssamfélag.
II HVAÐ GETA SKÓLAR GERT?
Til að svara spurningunni um það hvað skólar geti gert til að efla lýðræði mætti hugsa
sér að greina starfið í afmarkaða þætti, tengja svo hvern þátt við virkni lýðræðislegs
samfélags eftir efnum og ástæðum og leggja síðan sérstaka áherslu á þá þætti sem
tengjast lýðræðinu. En líklega myndi flest eða jafnvel allt sem gert er í skólum lenda
á listanum yfir það sem tengist lýðræðinu, því hvað eina sem lýtur að menntun og
fræðslu getur búið í haginn fyrir lýðræði með einum eða öðrum hætti. Þessi leið væri
því í besta falli ómarkviss og ekki til þess fallin að leiðbeina um endurskoðun starfsins
og eflingu skóla sem lýðræðislegra stofnana.