Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Qupperneq 65
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 2015 65
ÓLAFUR PÁLL JÓNSSON
V LÝÐRÆÐI OG KENNIVALD
En hvað kemur þetta lýðræði við? Snýst lýðræði ekki um stjórnskipulag, um það
hvernig hópur fólks tekur sameiginlegar ákvarðanir? Vissulega varðar lýðræði stjórn-
skipulag og sameiginlegar bindandi ákvarðanir, en þar með er ekki öll sagan sögð.
Lýðræði í skóla varðar ekki fyrst og fremst skipulag og formleg ferli. Stjórn skóla er
sérfræðiverkefni og þótt raddir nemenda þurfi vissulega að heyrast þar verður hún
ekki gerð að sameiginlegu viðfangsefni alls skólasamfélagsins. Stjórnskipulag skóla
er ekki lýðræðislegt, en starfshættir skóla geta eftir sem áður verið lýðræðislegir með
ýmsum hætti. Að því marki sem skóli er lýðræðislegur er hann það vegna þess hvern-
ig lífið í skólanum er. Að þessu leyti er lýðræði í skóla algjörlega sambærilegt við lýð-
ræði í hinu víðara samfélagi. Og þess vegna verður skóli ekki lýðræðislegur nema
hversdagslegir starfshættir skólans séu lýðræðislegir; daglegt samstarf nemenda og
kennara, bæði í hinu smæsta og í hinu stærsta, verður að vera lýðræðislegt ef skólinn
sem heild á að vera lýðræðislegur.
Flestar hugmyndir um lýðræði í samfélagi gera ráð fyrir því að allir séu með, ekki
bara efnislega heldur líka vitsmunalega og siðferðilega (Young, 2002). En hvað þýðir
það að vera siðferðilega með í samfélagi? Hvenær sem við tölum um að einhver sé
með – eða að einhver sé útilokaður, ef við skyldum heldur vilja huga að andhverfu
þess að vera með – þá getum við spurt: Hvernig? Í hvaða skilningi? Af hvaða getu?
Lægsta stig þess að vera með er að fá að vera efnislega viðstaddur. Hér skiptir geta
manns eða getuleysi litlu máli, það nægir að vera á staðnum, t.d. í skólanum. Þátttaka
sem felur í sér að maður fái að láta skoðanir sínar í ljósi er margfalt ríkulegri, enda
gerir slík þátttaka bæði ráð fyrir því að maður hafi skoðanir og getu til að láta þær í
ljósi. Þess vegna er það líka lykilatriði í mörgum kenningum um lýðræði að fólk fái að
tjá skoðanir sínar (Dahl, 1989). En það er ekki nóg að fá að tjá skoðanir sínar, ef enginn
er til að hlusta. Leikskólakennarar þekkja þetta vel, enda byggist það framsækna starf
sem unnið er í íslenskum leikskólum ekki síst á því að fagfólkið sem þar vinnur hefur
gert það að grundvelli starfs síns að hlusta á börnin (Jóhanna Einarsdóttir og Bryndís
Garðarsdóttir, 2008, 2012). Og þótt margt sé vel gert á efri skólastigum (Jóhanna Karls-
dóttir og Hafdís Guðjónsdóttir, 2010) þá einkennast þau ár of mikið af því að kennar-
arnir leggja áherslu á að nemendur hlusti, en gleyma sjálfir að hlusta á nemendurna
(Gerður G. Óskarsdóttir, 2014).
Hversu mikilvægt sem það er að hlustað sé á mann, þá er það samt ekki nóg til
að maður sé fullgildur þátttakandi í samfélagi. Það þarf líka að taka mark á því sem
maður segir. Það er fyrst þá sem segja má að maður fái að vera með sem siðferðilegur
gerandi og þar með fullgildur þátttakandi í samfélagi. Að taka mark á einhverjum
er ekki það sama og að vera sammála honum; nemandi þarf ekki að vera sammála
kennara þótt hann bæði hlusti og taki mark á honum. Kannski er einmitt mikilvægasti
eiginleiki hins lýðræðislega borgara sá að hann getur tekið mark á annarri manneskju
en samt sem áður verið ósammála henni. Í lýðræðislegum skóla er margbreytileikinn
ekki galli eða hnökrar heldur þvert á móti auður – í honum búa lærdómstækifæri.
John Dewey orðar þetta ágætlega þegar hann segir: