Dagblaðið Vísir - DV - 22.12.2010, Blaðsíða 42
S
ada Abe fæddist inn í
ágætlega efnaða fjölskyldu
í Tókýó 1905 og naut þess
að móðir hennar örvaði
hana í hvívetna til að vera frjáls
og óháð. Fimmtán ára lenti Sada
í þeirri hörmulegu lífsreynslu
að verða nauðgað af kunningja
sínum og þrátt fyrir að hún nyti
stuðnings fjölskyldunnar í eftir-
málum þess bar hún aldrei al-
mennilega barr sitt í kjölfarið.
Þegar fram liðu stundir gerðist
Sada helst til óstýrilát og á end-
anum missti faðir hennar þolin-
mæðina og seldi hana í geisjuhús
í Yokohama, þó síðar væru fjöl-
skyldumeðlimir ekki sammála um
ástæðu ákvörðunar föður hennar.
Sada fullyrti að faðir hennar hefði
verið að refsa henni fyrir fjöllyndi,
en systir hennar hélt því fram full-
um fetum að Sada hefði verið fús
til að gerast geisja. Þannig var mál
með vexti á þeim tíma að ákveð-
in upphefð fylgdi því að vera hátt
skrifuð geisja og Sada ku hafa lýst
vilja í þá veru oft og tíðum.
Hvað sem því leið komst Sada
að því að hugmyndir hennar
um glæsilíf geisja voru ekki allt-
af á rökum reistar og eftir að hún
smitaðist af sárasótt af einum við-
skiptavina sinna söðlaði hún um
og gerðist vændiskona á vændis-
húsi í Osaka.
Röð elskhuga
Löglegri vændisvinnu fylgdu fleiri
vandræði en Sada var reiðubúin
að glíma við og því fór svo að hún
haslaði sér völl í ólöglegu vændi
með kostum þess og göllum. Þeg-
ar foreldrar hennar dóu varð Sada
enn hömlulausari en áður.
Eftir að lögreglan réðst inn í
vændishúsið þar sem hún vann
árið 1934 komst hún í kynni við
eiganda þess sem bjó að góðum
samfélagslegum tengslum. Við
tók röð af elskhugum þegar Sada
reyndi að losna úr vændinu fyrir
full og fast og í tilraun til að koma
lífi sínu á réttan kjöl gerðist hún
lærlingur á veitingahúsi og kynnt-
ist eigandanum, Kichizo Ishida.
Kichizo var ötull kvennaflag-
ari og þreyttur á hjónabandi sínu
og eiginkonu sem í raun sá um
rekstur veitingahússins. Þess var
skammt að bíða að hann félli fyr-
ir Södu sem, þrátt fyrir að vera í
sambandi við annan karlmann á
þeim tíma, hikaði ekki eitt and-
artak þegar Kichizo gerði sér dælt
við hana. „Ég hafði aldrei hitt jafn
kynþokkafullan karlmann,“ sagði
hún síðar.
Hugarvíl og hótanir
Ástarleikir þeirra urðu alræmdir
og stóðu stundum dögum sam-
an og hvað sem áformum Kich-
izos leið varð Sada á endanum
ástfangin – hugsanlega í fyrsta
skiptið á ævinni. Sada var ekki
sátt við að vera einungis ástkona
hans; hún vildi giftast honum
og tilhugsunin um að hann nyti
annarra kvenna fyllti hana bræði.
Eftir því sem Kichizo fjarlægð-
ist hana jókst hugarvíl Södu og
hún leitaði huggunar í áfengi.
Undir áhrifum af leikriti sem hún
hafði séð, þar sem geisja hafði
hótað elskhuga sínum með hnífi,
keypti Sada stóran eldhúshníf
og hótaði Kichizo með honum.
Kichizo henti gaman að tilburð-
um hennar og tók hana með sér
á gistiheimili í rauða hverfinu
þar sem næsta kynlífsmaraþon
þeirra átti að fara fram. Vitneskj-
an um það sem þar átti sér stað
byggir að mestu leyti á frásögn
Södu sjálfrar.
Þegar kynlíf þeirra hafði staðið
yfir nánast linnulaust í tvo sólar-
hringa tók Sada borðann af kim-
ono-sloppi sínum og herti með
honum að hálsi Kichizos, sem lík-
að vel nýjungin og fór þess á leit
við hana að hún gerði þetta við
hann þegar hann blundaði.
„Sada, Kichi saman“
Þann 18. maí 1936 kyrkti Sada Abe
Kichizo. Eftir að hafa hvílt við hlið
líksins af honum í nokkrar klukku-
stundir brá hún eldhúshnífnum
og skar af því kynfærin og vafði
inn í tímarit. Blóðið notaði hún
til að skrifa „Sada, Kichi sam-
an“ á vinstri mjöðm líksins og á
lakið. Síðan risti hún nafn sitt á
vinstri handlegg þess, klæddi sig
í nærfatnað Kichizos og yfirgaf
gistihúsið klukkan átta um morg-
uninn með þeim fyrirmælum til
starfsfólksins að Kichizo skyldi
ekki ónáðaður. Lík Ishida Kichiz-
os fannst síðar um morguninn og
leitin að Södu Abe hófst.
Sada kom sér fyrir á gistihúsi í
nágrenninu og íhugaði að fremja
sjálfsmorð en lögreglan fékk
ábendingu um dvalarstað hennar
og kom í veg fyrir öll slík áform 20.
maí þegar hún bankaði upp á hjá
Södu. Hún veitti enga mótspyrnu
og viðurkenndi strax verknaðinn.
Kynfæri Kichizos fundust í hand-
tösku hennar, enn innpökkuð í
tímarit.
Tíðindin af handtöku Södu
fóru eins og eldur í sinu um Jap-
an og urðu ágætis tilbreyting frá
stjórnmálafréttum þess tíma og
almenningur fylgdist grannt með
helstu smáatriðum sem fram
komu í málinu.
Vildi einhvern líkamshluta af
Kichizo
„Ég elskaði hann svo heitt, ég
vildi eiga hann út af fyrir mig. En
þar sem við vorum ekki gift gat
hann svo lengi sem hann lifði
leitað svölunar í örmum annarra
kvenna. Ég vissi að ef ég dræpi
hann gæti engin kona snert hann
framar, svo ég drap hann,“ sagði
Sada við yfirheyrslurnar. Sada
sagði einnig að hún hefði skorið af
Kichizo kynfærin því henni hefði
verið ómögulegt að taka höfuð
hans eða líkama með sér.
Almenningur heillaðist af mál-
inu og þegar réttarhöldin hófust,
25. nóvember 1936, safnaðist fólk
saman við dómhúsið löngu áður
en það var opnað til að berja Södu
augum. Fréttamenn birtu eins
mikið af vitnisburði hennar og rit-
skoðun stjórnvalda leyfði og síðar,
segir sagan, viðurkenndi alla vega
einn þriggja dómara í málinu að
hafa fundið til kynferðislegrar
örvunar við vitnaleiðsluna.
Vitnisburður Södu var eldfim-
ur og kostaði meðal annars mik-
ils virtan stjórnmálamann, sem
hafði átt í vinfengi við hana, fer-
ilinn. Eitt dagblað sagði hrifningu
almennings jaðra við „Södu-æði“
og margar ungar konur sem fylgd-
ust með málinu fengu nafngiftina
„Södu-aðdáendur“.
Sex ára dómur
En mörgum til mikilla vonbrigða
drógust réttarhöldin ekki á lang-
inn því að Sada fór ekki í launkofa
með sekt sína. Enginn vafi lék á
sekt hennar og eftir stóð spurn-
ingin um hve langan dóm hún
fengi.
Flestum til mikillar furðu fékk
Sada aðeins sex ára dóm sem
dómari réttlætti með skírskotun
til þess hlutverks sem Kichizo
hafði leikið í aðdraganda morðs-
ins. Að auki velti dómarinn fyrir
sér andlegu heilbrigði Södu því
þrátt fyrir andmæli hennar hélt
lögfræðingur hennar því fram að
hún hefði verið haldin stundar-
brjálæði þegar hún fyrirkom ást-
manni sínum.
Södu var umbunað fyrir góða
hegðun og fékk hún frelsið 1940,
en frægð hennar gerði henni erf-
itt um vik að fóta sig í samfélag-
inu.
Sada höfðaði mál gegn rit-
höfundi sem gaf út bók byggða
á meintum viðtölum við hana og
náðist sátt um málið fyrir rétti.
Árið 1948 gaf hún út sjálfsævi-
sögu sína. Eftir að hafa séð sér
farborða með vinnu á krám og
veitingastöðum tókst Södu loks-
ins að hverfa augum almenn-
ings og síðast sást til hennar árið
1970.
Um Södu voru gerðar nokkr-
ar kvikmyndir, en frægust þeirra
er Á valdi tifinninganna sem var
gerð árið 1976 og var víða bönnuð
vegna kynlífssena og nektar.
n Sada Abe varð alræmd í Japan á fjórða áratug síðustu aldar eftir að hún myrti
ástmann sinn n Vitnisburður hennar við réttarhöldin var eldfimur og safaríkur,
svo mjög að einn dómari fann fyrir kynferðislegri örvun
ÁSTFANGNA GEISJAN
42 | Sakamál Umsjón: Kolbeinn Þorsteinsson kolbeinn@dv.is 22.–26. desember 2010 Jólablað
Rauða hverfið í Tókýó 1934 Áhugi almennings á morðinu var takmarkalaus.
„Ég vissi að ef ég
dræpi hann gæti
engin kona snert hann
framar, svo ég drap hann.
Í haldi lögreglunnar Sada Abe var
afar blátt áfram við yfirheyrslurnar.