Dagblaðið Vísir - DV - 04.04.2012, Blaðsíða 58
58 Viðtal 4.–10. apríl 2012 Páskablað
E
ngilbert Guðmundsson segist
snemma hafa fengið áhuga á
þróunarmálum og fátækum
löndum. „Námsárin mín í
Kaupmannahöfn skiptu miklu
máli en þar lærði ég meðal annars
þróunarhagfræði ásamt alþjóðahag-
fræði en það beindi mér töluvert inn
á þessa braut. Ég var mjög spennt-
ur fyrir vangaveltum innan hagfræð-
innar um það sem fær þjóðfélög til að
breytast í tímans rás.“
Engilbert lauk meistaraprófi í
hagfræði frá viðskiptaháskólanum í
Kaupmannahöfn árið 1976 auk þess
sem hann stundaði framhaldsnám í
þróunarfræðum við University of East
Anglia.
Hann flutti ásamt fjölskyldu sinni
til Tansaníu árið 1985 þar sem þau
bjuggu í fimm ár, og Ingunn Anna
Jónasdóttir, einkona Engilberts
kenndi börnunum heima fyrstu tvö
árin.
Yngsta dóttirin var tveggja ára þeg-
ar þau fluttu. „Við töluðum auðvitað
íslensku við hana en hún talaði sva-
hílí þegar henni var mikið niðri fyrir.“
Um þriðjungur smitaður
Engilbert starfaði í Tansaníu hjá
dönsku þróunarsamvinnustofnun-
inni DANIDA frá 1985–1990. Um var
að ræða samnorrænt verkefni sem
fólst í að styðja samvinnufélög í land-
inu og þá einkum samvinnufélög
bænda.
„Ég fór til starfa í litlum, afskekkt-
um bæ við Viktoríuvatn, Bukoba, og
vann þar í stóru samvinnufélagi sem
hægri hönd framkvæmdastjórans
og voru um 900 manns þar í vinnu.
Stór hluti af minni vinnu var fólginn
í að hjálpa þeim að koma skipulagi á
verkefnið og síðan að finna nýja kyn-
slóð af stjórnendum – koma þeim í
stjórnendaþjálfun og byggja upp fyrir
framtíðina. Þetta var mjög áhugavert
og spennandi verkefni. Ég held ég
hafi öðlast þarna mjög nytsamlegan
skilning á því hvað er að gerast í gras-
rótinni í Afríku hvað varðar samfélag
bænda.
Þetta voru árin sem Aids-hörm-
ungarnar byrjuðu að skella á. Bukoba
var á þessum tíma kallaður „Aids
capital of the world“ enda nálægt
upprunasvæði sjúkdómsins sem er
líklega einhvers staðar í regnskógum
Mið-Afríku. Þá er mikið um flutn-
inga á svæðinu en sumir langferða-
bílstjórar leituðu til vændiskvenna en
það tók menn tíma að átta sig á þeirri
smitleið.
Um það leyti sem ég flutti til
Bukoba var gerð í fyrsta sinn könnun
á meðal starfsmanna í fyrirtækjum í
bænum og það kom í ljós að í kaup-
félaginu var um þriðjungur starfs-
manna smitaður. Þetta hafði nátt-
úrulega gífurleg áhrif í samfélaginu
því þetta var löngu áður en einhverjir
möguleikar voru á hjálp til að halda
einkennum í skefjum. Þetta var ein-
faldlega hægfara dauðadómur yfir
þeim sem smituðust. Því fylgdi af-
neitun og þöggun. Þetta hafði bein
áhrif inn í okkar rekstur því á þessu
svæði var að finna best menntaða
fólkið í öllu landinu; þarna var göm-
ul menntunarhefð og var fólk meðal
annars sent í framhaldsnám til Evr-
ópu til að verða framtíðarstjórnendur
en svo kom það heim og sjúkdóm-
urinn dró það til dauða. Áður en yfir
lauk misstum við liðlega helminginn
af því fólki sem við höfðum fundið og
sent til að þjálfa.“
Skelfilega sorglegt
Engilbert segir að það hafi verið
skelfilega sorglegt að horfa upp á al-
næmissjúka. „Dauðinn er alltaf ná-
lægur í Afríku og maður venst hon-
um á vissan hátt. Afrísk samfélög
bregðast við honum með þeim hætti
að þau gera mikið úr honum í stutt-
an tíma; sorgin er þá tjáð með mjög
öflugum hætti en síðan fara hlutirnir
í sitt venjulega horf. Þá er barnadauði
mikill og fólk lifir mun skemur en til
dæmis Vesturlandabúar að meðaltali.
Lítil börn í Afríku kynnast því að sjá
fólk deyja í kringum sig og hefur það
vafalaust áhrif á margt í samfélaginu.“
Engilbert vann þrjú síðustu árin
í Tansaníu sem ráðgjafi auk þess að
hafa yfirumsjón með stjórnunarþjálf-
un fyrir samvinnufélögin í landinu.
Hann ferðaðist því mikið um landið
og hjálpaði mönnum að skipuleggja
námskeið og þjálfun á starfsfólki.
„Það var kannski ekki alveg eins gef-
andi og hitt þar sem maður var innsti
koppur í búri en mjög áhugavert.“
Þrjú lönd í viku
Eftir fimm ár í Tansaníu ákváðu hjón-
in að flytja til Íslands. Nokkrum mán-
uðum eftir heimkomuna flutti Engil-
bert til Finnlands þar sem hann fór
að vinna hjá Norræna þróunarsjóðn-
um þar sem hann vann í um átta ár.
Fyrstu árin var hann tæknilegur verk-
efnastjóri yfir verkefnum í Afríku og
Suður-Ameríku en megnið af tíman-
um var hann aðstoðarforstjóri stofn-
unarinnar og hafði einkum og sér
í lagi verkstjórn á verkefnavinnu –
undirbúningi verkefna, samningavið-
ræðna við ríkisstjórnir og eftirfylgni.
Norræni þróunarsjóðurinn var
með verkefni í um 30 löndum og seg-
ir Engilbert að því hafi fylgt óheyrileg
ferðalög. „Ég held að eitt árið þegar
mest gekk á hafi ég verið á ferðalög-
um í um 160 daga, enda ákváðum við
hjónin fljótlega að fjölskyldan myndi
búa áfram á Íslandi. Við hittumst að
minnsta kosti mánaðarlega og þau
voru hjá mér í Helsinki í öllum frí-
um. Ég eyddi svo öllum mínum fríum
heima á Akranesi.“
Þótt hann hafi ferðast víða var
oft lítill tími til að skoða nýja staði.
„Dæmigerð vika gat verið fólgin í því
að ég heimsótti þrjú lönd og oftast
sat ég inni á skrifstofum að semja við
fólk. Ég kynntist mörgu spennandi og
skemmtilegu fólki og heimsótti lönd
þar sem höfðu orðið framfarir; auð-
vitað fannst mér skemmtilegra að
fylgjast með löndum þar sem ástand-
ið hafði farið batnandi. Mér fannst
til dæmis gaman að fylgjast með
Úganda og Simbabve á þeim tíma.
Ég komst stundum í kynni við ým-
islegt sem tengdist menningu. Það var
til dæmis gaman að heimsækja sam-
vinnufélag kvenna sem fékk lán sem
við höfðum haft frumkvæði að. Þar
sá ég saumastofur sem var verið að
byggja upp í litlum þorpum þar sem
þær saumuðu fatnað sem var seldur á
mörkuðum; ég á góðan, senegalskan
fatnað sem þær gáfu mér.“
Í vinnu hjá Alþjóðabankanum
Árin liðu; þau urðu sjö. Engilbert hafði
hjá Norræna þróunarsjóðnum unnið
mikið með Alþjóðabankanum; hann
segir að eitt af áhugaverðari verkefn-
unum hafi verið að fella niður skuldir
fátækra ríkja sem hófst árið 1995. Það
varð úr að Engilbert fékk starf hjá Al-
þjóðabankanum í Washington árið
1998.
„Það var mikil vinna í gangi við
að samræma vinnuaðferðir þróunar-
bankanna sem ég hafði verkstjórn
með og samhliða því vann ég með
yfirmönnum bankans í alls konar
stefnumörkunarvinnu; þar á meðal
verkefnum sem tengdust því hvernig
þróunarsamvinna eigi að fara fram.
Það urðu miklar breytingar frá um
1995 og þar til fyrir fáeinum árum
á því hvernig stofnanir vinna; það
var allt í einu lögð meiri áhersla á að
löndin sem verið er að vinna með
ættu að ráða ferðinni – það ætti að
byggja aðstoð á áætlunum þeirra.“
Engilbert vann til dæmis við nýjar
vinnureglur sem enduðu í Parísar-
yfirlýsingunni árið 2005 en þá voru
ákveðnar nýjar vinnureglur sem nán-
ast allar þróunarstofnanir í heimi
skrifuðu upp á og mörg þróunarlönd.
En verkefnin sneru ekki eingöngu
að fátækustu löndunum.
Hvað með Washington? Hvernig
upplifði Engilbert þá borg? „Wash-
ington er yndisleg. Hún er falleg,
græn og veðrið er afskaplega notalegt
megnið af árinu. Borgin er töluvert al-
þjóðleg en þarna eru stórar alþjóða-
stofnanir eins og Alþjóðabankinn og
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Okkur
leið vel í Washington og konan mín
fékk skemmtilega vinnu í þjálfunar-
miðstöð bandarísku utanríkisþjón-
ustunnar við að kenna því fólki, sem
vinna átti í sendiráði Bandaríkjanna
á Íslandi, íslensku og ýmislegt um
íslenska menningu, stjórnmál og
félagsmál.“
Ráðgjafi ríkisstjórnar
í Síerra Leóne
Eftir átta ár í Washington var Engil-
bert reiðubúinn til þess að takast á
við eitthvað nýtt. „Ég taldi að ég hefði
bæði reynslu og skapsmuni til að
vinna í landi þar sem aðstæður væru
erfiðar.“
Hjónin fluttu til Síerra Leóne árið
2006 þar sem Engilbert var umdæm-
isstjóri Alþjóðabankans.
„Þar var ég ráðgjafi ríkisstjórnar-
innar um fjölmarga hluti og hafði
mikið og náið samstarf við fjármála-
ráðherra landsins.
Það var fróðlegt að komast í góð
samskipti við ríkisstjórn og forset-
ann. Hann var óvenjulegur að því
leyti að það var auðvelt að ná tali af
honum. Þetta var góður tími en auð-
vitað margt erfitt. Landið á sér sögu
mikillar spillingar og er verið að taka
mikilvæg skref í baráttunni gegn
henni.“
Settist ekki í helgan stein
Starfsmenn bankans fara á eftirlaun
þegar þeir ná 62 ára aldri. Engilbert
var ekki tilbúinn til að setjast í helgan
stein. „Við vorum búin að ræða ýmsa
hluti; eitt var að ég myndi fara að
vinna sem sjálfstæður ráðgjafi hjá Al-
þjóðabankanum en það gera marg-
ir sem hafa hætt þar störfum. En þá
var auglýst starf framkvæmdastjóra
Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
Eftir dálitla umhugsun og smá hvatn-
ingu sótti ég um.“
Engilbert hóf störf hjá stofnuninni
fyrir rúmu ári.
Gera tilraunir
Þróunarsamvinnustofnun Íslands
hefur verið að breytast. Í upphafi var
lögð áhersla á að styðja við ákveðin
fiskveiðiverkefni en áherslurnar eru
aðrar í dag, meðal annars á sviði heil-
brigðis- og menntamála og að styðja
valddreifingu í viðkomandi löndum.
„Menn hafa áttað sig á að það er væn-
leg aðferð til að koma grunnþjónustu
til fólks að flytja ákvarðanatökuna
nær því og það er nú meginnálgun
hjá stofnuninni. Auðvitað vinnum
við með ríkisstjórnum og þurfum að
eiga í samstarfi við þær en við ætlum
fyrst og fremst að vinna með sveitar-
félögum og sveitarstjórnum, velja
ákveðin héruð í löndunum en það
passar betur við Þróunarstofnunina
sem er lítil stofnun. Við ætlum meðal
annars að styrkja sveitarfélögin hvað
varðar menntun, heilbrigðisþjónustu
og vatnsöflun.
Þróunarsamvinnustofnun Íslands
vinnur líka að því að styðja við gæða-
mál í fiskveiðum á eyjum í Viktoríu-
vatni og og öðrum vötnum í Úganda
með því að bæta löndunaraðstöðu
og kenna fólki hvernig það fer betur
með aflann. Í Malaví er til dæmis
stutt við vatnsborun í ákveðnu hér-
aði og það er verið að byggja sjúkra-
hús og heilsugæslustöðvar. Þá sér
stofnunin um þjálfun hjúkrunarfólks,
byggingu skóla og fullorðinsfræðslu.
Ég legg mikla áherslu á að Þróun-
arsamvinnustofnun sé stofnun sem
læri. Við gerum tilraunir og lærum af
reynslunni. Ég gagnrýndi það oft hjá
Alþjóðabankanum hvað menn voru
íhaldssamir en ég hvet fólk mikið til
að gera nýja hluti en gera það með
þeim hætti að það sé hægt að læra af
því á skipulegan hátt.
Og þótt við leggjum áherslu á
þátttöku í baráttunni við hungur og
vannæringu, einkum meðal barna
og kvenna, þá höfum við ekki misst
sjónar á þeim sviðum þar sem Ís-
lendingar hafa sérþekkingu. Við
styðjum til dæmis samstarf ríkja í
austan- og sunnanverðri Afríku með-
fram svokallaðri Afríkusigdæld sem
er jarðhitasvæði en um er að ræða
samvinnu um jarðhitarannsóknir og
undirbúning virkjana. Þar erum við
að hefja metnaðarfullt samstarf við
bæði Alþjóðabankann og Norræna
þróunarsjóðinn um mun umfangs-
meiri rannsóknir og undirbúning en
fyrr hefur verið gert.“
Gefandi og spennandi
Engilbert Guðmundsson hefur heim-
sótt um 100 lönd starfs síns vegna.
Hann segir að fólk sé alls staðar eins.
„Þjóðir geta verið afskaplega ólíkar á
yfirborðinu en undir niðri er þetta allt
eins. Það er gefandi og spennandi að
sækja út fyrir landsteinana og ég held
að það sé mikilvægt fyrir okkur sem
litla þjóð að menn fari til útlanda til
að læra og vinna og komi svo heim
með reynsluna úr hinum stóra heimi.
Auðvitað er Ísland mitt heimaland
en ég hef lært að líta á Ísland sem
hluta af stærri heild. Mannkyns sagan
er öll þróun í átt til stærri eininga frá
litla þorpinu upp í borgríkið, upp í
þjóðríkið og upp í ríkjasambandið.
Öll stóru vandamálin sem við stönd-
um frammi fyrir eru af því tagi að
þjóðríkið er gjörsamlega ófært um að
leysa þau. Við verðum í vaxandi mæli
að leysa vandamálin á heimsvísu.
Það er bara framtíðin og við eigum að
vera þátttakendur í því. Saga Íslands
allt frá landnámi fram til okkar daga
segir okkur að okkar bestu ár eru oft-
ast þau ár þegar við erum best tengd
við heimsbyggðina. Og þannig eigum
við að gera það.“
Svava Jónsdóttir
Dauðinn alltaf nálægur
Engilbert Guðmundsson, framkvæmdastjóri
Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, bjó liðlega aldar-
fjórðung í útlöndum - í Tansaníu, Finnlandi, Banda-
ríkjunum og Síerra Leóne. Bærinn sem hann bjó í í
Tansaníu var á þeim tíma kallaður „Aids capital of
the world“ og þegar hann vann hjá Norræna þróunar-
sjóðnum í Finnlandi var hann á ferðalögum erlendis
allt upp í 160 daga á ári . Hann var umdæmisstjóri Al-
þjóðbankans í Síerra Leóne, einu fátækasta ríki heims.
„Dauðinn er alltaf
nálægur í Afríku
og maður venst honum á
vissan hátt.
Sorglegt
Sorgin er tjáð með mjög öflugum
hætti , segir Engilbert um það
hvernig afrísk samfélög bregðast
við sínálægum dauðanum.