Gripla - 20.12.2011, Blaðsíða 8
GRIPLA8
verður prentað aftast í þessari grein2 en fyrst verður fjallað um höfund-
areign Hallgríms á kvæðinu, það skoðað í samhengi við önnur erfikvæði
skáldsins og túlkað út frá retórískri samsetningu efnisatriða. Þá verður
rannsakað hvort einhver tengsl kunni að hafa verið á milli skáldsins og
hins látna, sem hafa orðið til þess að skáldskapar andinn kom yfir Hallgrím,
og að lokum velt vöngum yfir varðveislu kvæðisins og hvernig það lenti í
þessu handriti.
Handritið Ihre 77
Í Ihreska handskrifts samlingen í Uppsalaháskóla er varðveitt handritasafn
sænska 18. aldar málvísindamannsins Johans Ihre (1707–1780). Ihre var
prófessor við Uppsalaháskóla og sérhæfði sig m. a. í málsögu germanskra
mála, einkum íslensku og gotnesku. Hann rannsakaði til dæmis Uppsala-
Eddu og sýndi fram á að Snorra-Edda væri kennslubók í skáldskaparlist en
ekki aðeins heimild um heiðinn sið og goðafræði (Grape I 1949, 78–79).3
Safnið er að stærstum hluta skjöl og ritgerðir hans sjálfs, en þar er einnig
ýmislegt fleira sem Ihre hefur áskotnast eða hann hefur keypt. Þar eru til
dæmis handrit úr fórum fornfræðinga við Uppsalaháskóla, m. a. uppskriftir
úr íslenskum handrit um með hendi Íslendingsins Jóns Rúgmanns (1636–
1679). Í handritaskrá safnsins er þannig greint frá handriti sem hefur yfir-
skriftina: „Veterum Skaldorum varia poëmata undique collecta“ (Margvísleg
kvæði fornskálda sem safnað hefur verið hvaðanæva að) og inniheldur upp-
skriftir af norrænum fornkvæðum. Í því eru m. a. Völu spá og Hávamál,
drótt kvæði og lausavísur úr ýmsum forn sögum, bæði konungasögum,
Íslendinga sögum, Sturl ungu og forn aldarsögum. Einnig er í handritinu
efni sem tengist fornbókmennt unum: kappakvæði Þórðar Magnússonar á
2 Kvæðið er gefið út stafrétt eftir handritinu en tilvitnanir í það, og aðrar heimildir frá 17. og
18. öld, eru með nútímastafsetningu í greininni.
3 Í riti Anders Grape um Ihreska handskriftssamlingen er mjög ítarleg greinargerð fyrir bæði
handritasafni Ihres og rannsóknum hans, auk þess sem ævisaga hans og nokkurra afkom-
enda er rakin í fyrra bindinu (Grape 1949 I–II). Styttra yfirlit yfir ævi og rannsóknir Johans
Ihre má t. d. lesa í Svenskt biografiskt lexikon 1971–1973, 763–770. Áhuga Ihres á íslenskum
bókmenntum má til dæmis merkja af sendibréfum sem nemandi hans, Uno von Troil, skrif-
aði honum frá Íslandi árið 1772 (sbr. Troil 1961). Bókin var fyrst gefin út í Uppsölum árið
1777, Bref rörande en resa til Island MDCCLXXII, en var fljótlega þýdd á fleiri tungumál
(Haraldur Sigurðsson 1961).