Gripla - 20.12.2011, Blaðsíða 14
GRIPLA14
er að hugga eftirlifandi ástvini hins látna. Reyndar er kvæðið nafnakvæði
(griplur), þar sem nafn hins látna er fólgið í upphafs- og lokastöfum vísna,
sem sýnir að hér er um að ræða heilt kvæði. Upphafsstafir vísnanna (á
grísku er þetta kallað akrostikhon) mynda nafnið „Vigfús“ en lokastafir (á
grísku telestikhon) fimm fyrstu vísnanna „Gísla“ og aftasta orð sjöttu og
síðustu vísunnar „son“. Kvæðið um Steinunni, dóttur Hallgríms, er einnig
griplur en þar mynda upphafs stafir fyrstu sjö erindanna og upphafsorð
síðustu þriggja erindanna „Steinun [!] mín litla hvílist nú“. Önnur erfiljóð
Hallgríms eru ekki nafnakvæði. Þetta stílbragð var þó ekki einkennandi
fyrir Hallgrím einan heldur var það algengt í tækifæris kvæðum af ýmsum
toga, eftir mörg skáld þessa tíma, og venjulega notað til þess að tileinka
ákveðnum einstaklingi kvæðið.
„Vigfús minn Gíslason“
Kvæðið hefur fyrirsögnina „Hans sonar Vigfúsar“ sem vísar til erfikvæðis-
ins sem á undan fer í handritinu, um Gísla Hákonarson lögmann, föður
Vigfúsar. Í kvæðinu er talað til almennra lesenda/áheyrenda og þeir upp-
fræddir um lífið, dauð ann og sáluhjálpina, og jafnframt áminntir um að
búa sig vel undir dauðann: „úr þessum gamla eymdar stað / ætíð sig búa
vel“ (4. er.). Þeir sem „lifa vel“ og eiga „gleði lega andláts stund“, eins og
sagt er í fyrsta erindi, eru sælir, því að þeir hafa öðlast stað meðal útvaldra
á himnum (5. er.). Listin að deyja (ars moriendi) var vinsælt viðfangsefni
eftir siðbreytingu og efni í bæði kveðskap og trúarleg rit í lausu máli.
Guðbrandur biskup Þorláksson þýddi til dæmis handbók um undir búning
undir dauðann eftir þýska prestinn Martin Moller og lét prenta árið
1611, Manuale, það er handbókarkorn hvörninn maður eigi að lifa kristilega
og deyja guðlega. Þetta rit hafði einmitt verið endurprentað um líkt leyti og
Hallgrímur orti kvæðin um Vigfús og Steinunni, eða 1645. Hugsanlegt er
að Hallgrímur hafi orðið fyrir áhrifum af þessu riti, en vitaskuld eru þetta
hugmyndir sem svifu víðar yfir vötnum á þessum tíma.11 Í fyrstu vísunni
11 Margrét Eggertsdóttir hefur fjallað um áhrif þessa rits á sálma Hallgríms (sjá Margrét
Eggertsdóttir 1996). Danski fræðimaðurinn Arne Møller færði rök fyrir því að Hallgrímur
hafi orðið fyrir áhrifum af öðru riti eftir Martin Moller, Soliloqvia De Passione Iesv Christi.
Það er Eintal sálarinnar við sjálfa sig …, þegar hann orti Passíusálmana (Møller 1922,
93–171).