Gripla - 20.12.2011, Blaðsíða 174
GRIPLA174
aðeins þá kafla hennar sem þar voru teknir upp í Landnámuviðaukann.
Engu að síður sleppir hann þessum köflum, öðrum en þeim síðasta,
þegar hann skrifar upp viðaukann. Væntanlega af þeirri ástæðu sem Jón
Jóhannesson nefnir: Björn hafi ætlast til að þeir yrðu notaðir við uppskrift
Kristnisögu.
Hvaðan kom Landnámuviðaukinn?
„Viðauki Skarðsárbókar“ er, samkvæmt þessari tilgátu, hálfgert rangnefni,
nær að tala um hann sem Viðauka Landnámabókar ef hann fylgdi henni
í tveimur aðalhandritunum, bæði Hauksbók og Resensbók. Sam eiginleg
heimild þeirra hefur verið Landnámabók Sturlu Þórðarsonar og því allar
líkur til að Landnámuviðaukinn hafi fylgt henni, ef ekki frá upphafi þá a.
m. k. frá því áður en Haukur fékk hana í hendur. Telji menn að Kristnisaga
hafi staðið á Resensbók hafa þeir það til marks um að hún sé frá Sturlu
komin, jafnvel samin af honum. Hafi umræddur texti Resensbókar hins
vegar ekki verið Kristnisaga heldur Landnámuviðaukinn þá má álykta á
sama hátt um hann.
Ég hika þó við að gera Sturlu Þórðarson að „höfundi“ viðaukans, aðal-
lega af því að hann er svo mikil sópdyngja og eiginlega ekki höfundarverk.
Fremur kynni hann að vera afgangur af minnisgreinum, efni sem Sturla
hafði dregið að sér en var ekki búinn að nýta í ritum sínum. Þetta efni
hefur svo legið með Landnámuhandriti Sturlu þangað til einhver vann úr
gögnum hans, í elli hans eða að honum látnum, skrifaði upp Landnámu
og lét syrpuna fylgja með.45 Þetta afrit, eða eftirrit af því, hafa þeir svo
haft fyrir sér, bæði Haukur þegar hann samdi Landnámugerð sína og svo
skrifari Resensbókar. Báðir hafa ákveðið að láta syrpuna fylgja Landnámu.
Ekkert bendir til að henni hafi verið breytt í Resensbók – þó það sé
auðvitað ekki útilokað – en Haukur hefur bæði breytt röð efnisatriða og
stytt a. m. k. suma kaflana. Það kemur ekki á óvart; bæði var það oft aðferð
Hauks að þjappa saman texta sem hann afritaði og svo var þetta í bókarlok,
45 Hugsum okkur t. d. að ritari hafi fyrir sér syrpu af efni, á skinnblöðum eða vaxtöflum, þar
sem Sturla er búinn að merkja við texta sem hann vill fella inn í Landnámu á viðeigandi
stöðum. Hinn gerir þetta eftir bestu getu, en að lokum situr hann uppi með talsvert efni,
sem hvergi átti heima í Landnámu, og finnst honum þá öruggast að koma því til skila með
því að skrifa það upp aftan við bókina, á sinn hátt ekki ólíkt því hvernig afgangsköflum úr
Ólafs sögu Styrmis er haldið til haga í Flateyjarbók.