Gripla - 20.12.2011, Blaðsíða 12
GRIPLA12
ugt sé, en Passíusálmarnir voru fyrst prentaðir árið 1666. Passíusálmunum,
sem bera af öðrum verkum hans, hafði hann lokið um sex árum fyrr, ef
miðað er við eiginhandarritið. Þeir voru prentaðir í bók með píslarsálmum
séra Guðmundar Erlendssonar (um 1595–1670) í Felli, bæði 1666 og 1682.
Sálmar Guðmundar eru prentaðir fyrir framan sálma Hallgríms og tveir
nýárssálmar eftir Guðmund fyrir aftan sálmaflokk Hallgríms, enda var
Guðmundur talsvert eldri en Hallgrímur og hefur líklega á sínum tíma
verið virtara skáld (sbr. Þórunn Sigurðar dóttir 2007). Passíusálmarnir voru
einnig prentaðir aftan við sálmabók Gísla biskups Þorlákssonar árið 1671.
Segja má að með fjórðu útgáfu Passíusálmanna 1690 hafi sigurför þeirra
(og skáldsins) hafist fyrir alvöru. Þá hafa þeir í fyrsta skipti eigið titilblað
(sbr. Ólafur Pálmason 1996, 214–215). Að lokum er vert að benda á það að
mörg kvæði sem eignuð eru Hallgrími og prentuð í ljóðmælum hans hafa
aðeins varðveist í örfáum handritum, sum aðeins í einu eða tveimur. Það er
því engin ástæða til annars en að treysta því að skrifari Ihre 77 fari með rétt
mál þegar hann eignar Hallgrími Péturssyni þessi tvö kvæði.
Erfiljóð Hallgríms Péturssonar
Hallgrímur Pétursson orti erfikvæði eftir fjóra samtímamenn sína, sem
vitað er um, og hann orti ljóð eftir dóttur sína, Steinunni, sem lést liðlega
þriggja ára að aldri. Hið síðastnefnda er líklega með þekktari ljóðum
hans ef Passíusálmarnir eru undanskildir. Erfiljóðin orti hann um Árna
Gíslason, lögréttumann í Ytra-Hólmi (d. 1654), Björn Gíslason, lögréttu-
mann á Vatnsenda í Skorradal (d. 1656), Árna Odds son lögmann (d. 1665)
og Jón Sigurðsson, bartskera í Káranesi í Kjós (d. 1670). Árni Oddsson var
velgjörðamaður Hallgríms og Árni Gíslason var bæði velgjörðamaður hans
og góður vinur. Hallgrími hafa einnig verið eignaðar tvær dróttkvæðar
vísur um Björn Gíslason og styttra kvæði eftir dóttur sína (3 erindi).9
Kvæðin um Björn Gíslason, Árna Oddsson og lengra kvæðið um Steinunni
voru fyrst prentuð í Hallgrímskveri 1765 (3. útgáfu kversins) en hin bætt-
9 Þetta styttra kvæði, sem sagt er að Hallgrímur hafi ort eftir Steinunni, er reyndar eignað
öðrum manni í einu af þeim þremur handritum sem varðveita kvæðið, einhverjum séra
Sigurði. Þetta er JS 416 8vo, að mestu skrifað á 18. öld. Annað af hinum tveimur er talið
skrifað eftir prentuðu útgáfu Hallgrímskvers frá 1770 (sjá Hallgrímur Pétursson 2002,
132).