Gripla - 20.12.2011, Blaðsíða 16
GRIPLA16
sig enginn frí“ (9. er.). Í niðurlagi 4. vísu eru áheyrendur hughreystir með
því að „Jesú dýra bað“, þ. e. blóð Jesú, „dreift var á hjartans þel“, frelsi
manninn. Friðþægingin sem fékkst með fórnardauða Krists er eitt af
meginstefjum andlegs kveðskapar á 17. öld og er sett fram á margvíslegan
hátt, einkum með orðinu blóð í ýmsum myndum og umritunum. Hér skal
aðeins bent á Sálm um góðan afgang (Á minni andláts stundu), sem hefur
verið eignaður Hallgrími, en þar er tekið til orða á svipaðan hátt og í kvæði
Vigfúsar, „blóðið af þinni undu / yfir mig dreifist þá“ (1. er.).13
Þótt hugmyndin um að holdið sofi og hvílist meðan það bíður eftir
upprisunni sé ekki óalgeng í erfiljóðum samtímamanna Hallgríms þá er
eftirtektarvert hve hún er honum hug leikin. Hún kemur fyrir í öllum erfi-
ljóðum sem honum hafa verið eignuð. Í kvæðinu um Stein unni segir þannig
„holdið sig meðan hvílir“ (3. er.), Árni Gíslason „hvílist í drottni glaður /
við holds upprisu von“ (5. er.), hold nafna hans Oddssonar „sætlega sefur /
í sællar upprisu von“ (5. er.), í kvæði Jóns Sigurðssonar bartskera segir að
„holdið í hvíldum sofi“ (19. er.) en Björn Gíslason „sefur sæll nú“ (7. er.). Í
kvæði Vigfúsar birtist þessi hugmynd í vísuorðunum: „holdið sem þeirra
hreysi var / hvílist í dýrðar von“ (6. er.). Með vísun í þetta síðastnefnda
orðalag má nefna að Hallgrímur talar um „hreysi líkamans“ í sálminum Gef
eg mig allan á Guðs míns náð (13. er.). Margt fleira mætti tína til í þessa veru
en einnig verður að geta þess að þessar hugmyndir og orðafar enduróma í
mörgum sálmum og andlegum kvæðum aldarinnar eftir hin ýmsu skáld. Þó
held ég að óhætt sé að segja að þessi dæmi gefi örlitla mynd af höfundar-
einkennum Hallgríms.
Vigfús er ekki nefndur í þessum meginkafla kvæðisins en hann er engu
að síður til staðar, og ekki aðeins í griplunum, líf hans og dauði er undir-
liggjandi öllu sem sagt er. Rétt eins og gróðurinn fölnar og deyr, fellur
„blóminn lands“ (3. er.), sem væri þá Vigfús, en hann var aðeins 38 ára
að aldri þegar hann lést hinn 14. apríl 1647, á ferðalagi undir Eyjafjöllum
(sbr. Jón Halldórsson 1916–1918, 121). Myndin sem dregin er upp af
forgengileikanum og falli „blóma landsins“ vekur með lesend um/áheyr-
endum hugrenningatengsl við ótímabært andlát Vigfúsar jafnframt því
sem hún kveikir sorgartilfinningu sem magnast í næsta vísuorði þar sem
dauðinn setur upp „dapran krans“. En forsjál Guðs börn búa sig vel undir
13 Þessi sálmur var seint eignaður Hallgrími og fyrst prentaður í Höfuðgreinabókinni 1772 (sjá
Hallgrímur Péturs son 2000, 22).