Gripla - 20.12.2011, Blaðsíða 165
165
prentuðu Kristnisögu, að láta þess með einhverjum hætti getið að þar
væri um sama ritið að ræða. Einnig gengur Jón framhjá þeim möguleika
að Landnámabók kunni að hafa verið til með viðauka sem hvorki var
nákvæmlega sá sami og Viðauki Skarðsárbókar né heldur nákvæmlega eins
og Kristnisaga þótt hann ætti efni sameiginlegt með þeim báðum.
Þessi athugun Jóns Eiríkssonar virðist hafa gleymst seinni tíma
fræðimönnum. Það var t. d. alveg án tillits til Resensbókar sem Finnur
Jónsson ályktaði, í Hauksbókarútgáfu sinni,15 að Sturla Þórðarson hafi sett
saman Kristnisögu (úr eldra efni að mestu) og tengt hana við Landnámu;
hafi hann gert það til að brúa bilið milli Landnámabókar og elstu frásagna
Sturlungu því að hann hafi stefnt að því að koma sér upp samfelldri
Íslandssögu. Haukur, sem sjálfur staðfestir að hann vann úr Landnámugerð
Sturlu, hafi fengið Landnámu og Kristnisögu sem eina heild í verki Sturlu
og haldið tengslum þeirra í sinni Landnámugerð.
Það var síðan Jón Jóhannesson sem, án þess að vita af skýringu
Jóns Eiríkssonar, setti fram nákvæmlega sömu kenningu í doktors rit-
gerð sinni 1941.16 Hann athugar dæmin fimm, sem nefnd voru hér að
framan, og fjögur í viðbót úr útgefum ritum Árna (úr athugunum hans á
Íslendingabók), öll svipuð að orðalagi. Vísa tvö til kaflans, sem Kristnisaga
á sameiginlegan með Viðauka Skarðsárbókar, og sjö til efnis sem Kristni-
saga er ein um. Af þessu17 ályktar Jón „að viðaukinn er ekkert annað er
Kristni s[aga]“ og sé þar fengin „fullkomin sönnun þess að Kristni s[aga]
hefur komið á eftir Stb. [þ. e. Sturlubókargerð Landnámu] í Resensbók, og
þaðan hefur Björn [á Skarðsá] haft niðurlag hennar.“ Hins vegar séu „engar
líkur … til þess, að hinir kaflarnir í viðauka Sk[arðsárbókar] hafi verið í
Resensbók.“18 Á þessum grundvelli tekur Jón undir kenningu Finns um
15 Eða þeirra Eiríks Jónssonar, en Finnur ritar innganginn. Hauksbók. Udgiven efter de
Arnamagnæanske håndskrifter … (Kaupmannahöfn: Det kongel. nord. oldskrift-selskab,
1892–1896), lxx–lxxi, sbr. lxv. Finnur vísar hér til svipaðrar niðurstöðu hjá Oskar Brenner
í bók hans um Kristnisögu (Ueber die Kristni-Saga) 1878.
16 Jón Jóhannesson, Gerðir Landnámabókar (Reykjavík: Hið ísl. bókmenntafélag, 1941). Um
Landnámuviðaukann bls. 16–17; um Kristnisögu í Resensbók bls. 18–19; um þátt Sturlu
Þórðarsonar bls. 70.
17 Og af auðum blöðum aftan við uppskrift Jóns Erlendssonar á Landnámu Resensbókar, sem
Jón taldi ætluð fyrir Kristnisögu, en Jakob Benediktsson („Inngangur“, xii) hefur bent á að
það stenst ekki.
18 Gerðir Landnámabókar, 19. Ef þessar vísanir eru í raun til Kristnisögu er þess að gæta að
Árni nefnir hana aldrei „Þorvalds þátt“, sbr. nmgr. 6 hér að framan.
AF RESENSBÓK . . .