Gripla - 20.12.2011, Blaðsíða 123
123
sigla að nóttu til með þeim aðferðum sem menn höfðu þá til að hafa stjórn
á för skipsins um þröng skerjótt sund. . . . Af Grettis sögu . . . sjáum við
að hjá hefðbundnum höfnum voru byggð sæluhús, þar sem þeir sem áttu
leið hjá gátu leitað skjóls að kveldi.4 . . . Aðeins á vorin, þegar nætur voru
bjartar, sigldu menn bæði nætur og daga.5 / Til að skilja vísuna rétt þarf
einnig að hafa í huga að ekkert eldstæði var í skipunum fornu. Menn urðu
því að fara í land ef þeir vildu sjóða mat sinn. . . . Fyrstu tvær línurnar: Nótt
verðr feginn, / sá es nesti trúir, verða nú auðskildar. ‘Sá sem treystir á nesti
sitt (þ. e. hefur nægilegt nesti), verður feginn nóttunni (næturgistingu)’.
Hér er óbeint sagt: Ferðamaður skal taka með sér ríkulegt nesti (sbr. Háv.
116, 5‒7). . . . Í nánum tengslum við þetta er næsta lína: Skammar eru skips
ráar. Ráar getur ekki þýtt ‘káetur’ [kahytter], því að engar slíkar voru um
borð í skipunum fornu, ekki heldur húðföt; hvernig getur skinnsekkur
verið kallaður ‘rá’ [vrå]? Með eignarfallinu skips getur rá ekki þýtt annað
en ‘[segl]rá’. Eftirtektarvert er aðeins, að þarna stendur ráar í fleirtölu með
orðinu skips í eintölu. Það fylgdi jú venjulega aðeins ein rá hverju skipi.
Ég kýs því að skrifa skipsráar í einu orði, sem má nota almennt um rár á
skipum. / Við fyrstu sýn virðist setningin: skammar eru skipsráar, vera
mótsögn. Skipsráar eru jú yfirleitt frekar langar. En málsháttinn á ekki að
taka bókstaflega eins og hann hljóðar. Hann hefur táknræna merkingu.
Eftir lengd ráarinnar fer breidd seglsins, og því breiðara sem það er, þeim
mun meiri er þrýstingur vindsins á seglið og þar af leiðandi hraði skips-
ins. Þess vegna má vel nota lengd ráarinnar sem tákn um hraða skipsins
og meiri eða minni vegalengd sem það leggur að baki. Hugsunin í máls-
hættinum er einfaldlega: ‘Skip eru oft hægfara, komast hægt áfram.’ Þessi
hugsun kemur ágætlega heim við línurnar á undan. Samhengið er: Þó að
maður komist ekki eins langt og maður hefði óskað sér, og verði að taka
sér næturgistingu á leiðinni, á maður ekki að taka það nærri sér. Slíkt er
alvanalegt um skip. Þau komast ekki eins hratt áfram og maður hefði e. t.
v. búist við. Í næstu línum: Hverf es haustgríma, [o. s. frv.] er mjög eðlilega
bent á hið óstöðuga veður sem helstu ástæðuna fyrir því að för skipsins
4 [Íslenzk fornrit VII (1936, 130‒131). „Þeir lágu í meginhöfninni, og var þar gott sæluhús
mönnum þeim til ívistar, er fóru með landi fram.“] Innskot SPÍ.
5 Sbr. Hkr. FJ, II, 296: „nótt var þá enn ljós; sigldu þeir þá bæði nætur og daga.“ [Íslenzk
fornrit XXVII (1945, 232).]
SKAMMAR ERU SKIPS RÁR