19. júní - 19.06.2008, Blaðsíða 3
1
Efnisyfirlit
Margrét Sverrisdóttir ................................. 4
Játningar karlrembu .................................. 8
Óbeisluð fegurð ........................................... 12
Kristín og Halla.............................................. 16
Fegurðardrottningin felld ...................... 22
Jóhanna Sigurðardóttir ........................... 24
Ný jafnréttislög ............................................. 28
Simone de Beauvoir .................................. 32
Viðhorf karla til hjónabands ................. 34
IAW á Indlandi ............................................... 36
Til hjálpar konum og börnum ............ 40
Skýrsla stjórnar .............................................. 44
19. júni 2008
Útgefandi:
Kvenréttindafélag Íslands
Ritstjóri:
Steingerður Steinarsdóttir
Ritnefnd:
Halldóra Traustadóttir
Lára V. Júlísdóttir
Ljósmyndari:
Bára Kristinsdóttir
Prófarkarlesari:
Svanhildur Steinarsdóttir
Umbrot og prentun:
Oddi
Það er kraftur í konum
Hann ólgar undir niðri hjá flestum og brýst
út á mismunandi hátt. Þetta er kraftur
sköpunar sem nýtist í frumkvöðlastarfi,
hugsjónavinnu og listrænni framsetningu
á hugmyndum. Þetta er ekkert nýtt. Konur
hafa ávallt búið yfir mikilli sköpunarþörf og
löngun til að láta skilja eitthvað fallegt og
gott eftir sig. Hver og ein hefur fundið sinn
farveg oftast innan þeirra hefða sem ríkja
í samfélaginu á hverjum tíma en þær hafa
ávallt verið áberandi konurnar sem hafa
brotist út úr slíkum hlekkjum og farið sínar
eigin leiðir. Við þekkjum þær og berum
virðingu fyrir þeim og nöfn þeirra eru skráð
á spjöld sögunnar. Nöfn hinna sem saumuðu
nett spor í refla, dúka og búninga eru horfin.
Verk þeirra hafa stundum varðveist en
stundum orðið mölflugum og skápafúa að
bráð. En hvers vegna skyldu þær vera mér
svo hugleiknar einmitt núna? Jú, það er
vegna þess að mér finnst ég skynja eitthvert
vor í lofti. Að konur á Íslandi séu í æ ríkari
mæli að stíga fram hver á sínu sviði og
leggja verk sín í dóm almennings í stað þess
að vinna þau í hljóði. Frumkvöðlar eru alls
staðar. Þær Kristín Pétursdóttir og Halla
Tómasdóttir benda á þetta í forsíðuviðtalinu
en þær stofnuðu fjárfestingafélagið Auður
Capital í þeim tilgangi að virkja auðinn sem
felst í samfélagslegum verðmætum. Það
eru alls staðar konur að gera góða hluti
segja þær og hvetja okkur hinar til að beina
viðskiptum okkar til þeirra. Okkar er vald
veskisins og það er mikið vald. Jóhanna
Sigurðardóttir sú sanna hugsjónakona situr
nú í félagsmálaráðuneytinu og hefur séð til
þess að ný jafnréttislöggjöf er fædd. „Guð
láti gott á vita,“ sögðu gömlu konurnar og
víst munu þessar breytingar efla konur og
færa þeim vopn í hendur í baráttu sinni fyrir
jafnri stöðu kynjanna. Margrét Sverrisdóttir
nýkjörinn formaður Kvenréttindafélagsins
hefur ekkert síður en Jóhanna beitt sér fyrir
jafnrétti á sviði stjórnmála og hún minnir
okkur á að jöfn staða kynjanna gagnast
öllum börnum þessa lands. Við fáum
líka að kynnast sannri fegurð í gegnum
fegurðarsamkeppina Óbeisluð fegurð. Já,
það blása ferskir vindar um samfélagið fyrir
tilstuðlan þessara kvenna og bráðum ná
þeir að feykja köngulóarvefjunum úr öllum
hornum.