19. júní


19. júní - 19.06.2008, Blaðsíða 21

19. júní - 19.06.2008, Blaðsíða 21
19 verið siglt um áður,“ segir Halla. „Það má segja að aðrir séu í „red ocean“ eða jafnvel „bloody ocean“þar sem allir keppa um það sama með sömu aðferðum. Þetta snýst ekki um hvað við erum að gera heldur hvernig við ætlum að gera hlutina. Það er nýsköpun í okkar fyrirtæki.“ Þegar komnar á fullt Nýlega fenguð þið starfsleyfi þannig að ekkert er því til fyrirstöðu að byrja starfið. Eru einhver verkefni þegar farin af stað? „Já, við erum komnar á fleygiferð,“ segir Kristín. „Auður Capital byggir á fjárfestingatengdri þjónustu, þetta er ekki banki og við stundum ekki útlána- og innlánaþjónustu. Starfsemi Auðar byggir á þremur meginstoðum, sú fyrsta er eignastýring sem snýst um ráðgjöf og stýringu á fjárfestingum til einstaklinga, önnur er fyrirtækjaráðgjöf og tengist ráðgjöf í kringum kaup og sölu fyrirtækja, samruna, yfirtökur, fjármögnun og fleira og sú þriðja er sérstakur fjárfestingasjóður sem hefur það að markmiði að fjárfesta í þeim frjóa jarðvegi sem þessi nýju viðhorf og breytingar eru að skila. Þessi sjóður er 3,2 milljarðar og það er fé sem við munum fjárfesta fyrir á komandi misserum.“ „Þótt við séum alveg óhræddar við að segja að við setjum konur í forgrunn þá er Auður samt fyrir alla sem hugnast nálgun okkar og áherslur,“ segir Halla. „Sumir myndu kalla þær kvenlegar en aðrir mannlegar. Við leggjum mikið upp úr áhættumeðvitund. Oft er talað um að konur séu áhættufælnar en við höfnum því alfarið. Við segjum að þær séu áhættumeðvitaðar. Þær vilja skilja þá áhættu sem þær eru að taka og skilja hvað þær eru að gera áður en þær taka ákvörðun. Þess vegna taka þær kannski stundum lengri umhugsunartíma og stökkva ekki út í laugina án þess að kunna að synda.“ Áhættan verðlögð of lágt „Ég held að konur hafi einstaka hæfileika til að sjá hlutina út frá fleiri en einu sjónarhorni,“ segir Kristín. „Þær vilja taka tillit til fleiri þátta og skilja og skynja hvaða afleiðingar þeirra ákvarðanir geta haft.“ „Þetta var ekki í tísku fyrir nokkrum misserum síðan,“ bætir Halla við. „Þá var flottast að æða bara áfram en fólk er farið að átta sig á því í núverandi efnahagsástandi að helsta ástæðan fyrir því hvernig er komið er einfaldlega sú að við vorum farin að verðleggja áhættu of lágt.“ Auk þess að vera áhættumeðvitaðar vilja þær hjá Auði líka vera samfélagslega meðvitaðar og þær benda á stórfyrirtæki sem hafa þegar axlað slíka ábyrgð. Toyota sem rutt hefur brautina fyrir sparneytna bíla sem nýta aðra orkugjafa en olíu. „Við höfnum því viðhorfi að þú þurfir að velja annað hvort fjárhagslega arðsemi eða láta gott af þér leiða,“ segir Halla. „Þessir hlutir eru að mætast og þú getur valið bæði fjárhagslega arðsemi og samfélagslega meðvitund. Það eru að verða til mörg spennandi viðskiptatækifæri tengd þessu.“ „Fyrirtæki sem einbeita sér að því að leysa umhverfisvanda heimsins og tekst samhliða því að skapa störf í þriðja heiminum að byggja upp samfélög í þeim löndum á ábyrgan máta munu ná góðum fjárhagslegum árangri,“ heldur Kristín áfram. „Það er útbreiddur misskilningur að samfélagsleg ábyrgð komi eingöngu með góðgerðastarfsemi.“ Það er auðheyrt að þær hafa ástríðufullan áhuga á því sem þær eru að gera og trú á þeim nýju viðhorfum sem nú eru farin að ryðja sér til rúms. Þær eru þó ekki á því að setja þurfi lög til að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. Konur geti snúið þróuninni sér í hag án þess. Kristín bendir einnig á að stórir fjárfestar leiti í æ ríkari mæli að fyrirtækjum sem augljóslega hafi samfélagslega meðvitund og Halla minnir okkur á að neytendur geta haft áhrif á afkomu fyrirtækja þeirra með því að velja að kaupa vörur frá þeim fremur en samkeppnisaðilanum. Það yrði okkar framlag til að styðja umhverfið og þá viðskiptahætti sem við viljum sjá. Auk þess segja þær stöllur að það sé fullt af flottum konum út um allt að gera góða hluti og ekki úr vegi að skoða þeirra verk. En það er komið að lokum og ekkert eftir nema að kveðja. Það sópar að þessum konum. Þær eru sannir kvenskörungar því svona hafa skörungar ætíð verið, beitt sér af alefli og rutt brautina fyrir aðra. „Eitt kjörorð okkar er hættum að mala og látum verkin tala,“ segir Halla.

x

19. júní

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: 19. júní
https://timarit.is/publication/671

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.