19. júní - 19.06.2008, Blaðsíða 4
2
Margrét er þekkt andlit úr
stjórnmálunum, bæði af
vettvangi borgarmála en
einnig úr landsmálapólitíkinni.
Hún stofnaði, ásamt Ómari
Ragnarssyni og öðru góðu fólki,
Íslandshreyfinguna fyrir síðustu
alþingiskosningar, á vordögum
2007. Í augnablikinu er Margrét
starfandi varaborgarfulltrúi í
Reykjavík, sem er hlutastarf.
Það er ekki úr vegi að spyrja
Margréti að því hvort hún
hafi beitt sér sérstaklega fyrir
kvenréttindum á vettvangi
stjórnmálanna.
„Já, það hef ég gert á
margvíslegan hátt, s.s. með fjölda
greinarskrifa um jafnréttismál
og síðan hef ég sótt ófáar
ráðstefnur um kvenréttindi í
gegnum tíðina. Fjölmörg mál
sem varða aðstæður kvenna eru
til afgreiðslu bæði á landsvísu en
ekki síður á sveitarstjórnarstigi
og þá skiptir máli að hafa ávallt
hagsmuni kvenna að leiðarljósi
og það hef ég reynt að gera. Það
skiptir t.d. miklu máli að leitast
við að rýna í fjárhagsáætlanir
með „jafnréttisgleraugum“ því
það getur haft mikil áhrif á
kvennabaráttuna ef t.d. karl-læg
verkefni verða oftar fyrir valinu
í atvinnulífi þjóðarinnar eða í
sveitarfélögum, svo dæmi sé
nefnt.“
Hvenær kviknaði áhugi þinn á
réttindum kvenna?
„Ég man fyrst eftir að hafa
orðið mjög áhugasöm um
kvenfrelsisbaráttu þegar
Kvennalistinn kom fram árið
1983 en það var eflaust af
því að mér fannst oft skorta á
jafnrétti kynjanna þegar ég var
í menntaskóla. Þó náðum við
þeim árangri að minn árgangur
í M.R. kaus fyrstu konuna í
embætti Inspector Scolae, þ.e.
formanns nemendaráðs.“
Hvenær fórstu síðan
að láta til þín taka í
kvenréttindamálum?
„Það er erfitt að tímasetja það
nákvæmlega því mér finnst
ég hafa látið mig kvenréttindi
varða svo lengi. Þó held ég að
ég geti nefnt að þegar ég var
forstöðumaður í félagsmiðstöð,
lagði ég mikið upp úr jafnrétti
kynjanna í starfinu og var
m.a. mjög mótfallin hvers
kyns fegurðarsamkeppnum
þar og í grunnskólum,
enda finnst mér fráleitt að
uppeldisstofnanir á borð við
skóla og félagsmiðstöðvar hafi
þau gildi í hávegum að meta
óharðnaða unglinga fyrst og
fremst eftir útlitinu. Formleg
kvenréttindabarátta mín hófst
þó trúlega þegar ég fór að starfa
fyrir Kvenréttindafélag Íslands
fyrir sjö árum.“
Hvað finnst þér brýnast
í jafnréttismálum og
jafnréttisbaráttu í dag?
„Þar er af nógu af taka en ég kýs
að nefna þrjú atriði. Í fyrsta lagi er
það launamunur kynjanna, sem
hefur verið viðvarandi alltof lengi
og við þurfum að berjast gegn
honum af fullri hörku. Í öðru lagi
eru það völdin; konur eru ennþá
í minnihluta í áhrifastöðum og í
stjórnmálum. Þar fyrir utan eru
allt of fáar konur sem eiga sæti
í stjórnum fyrirtækja þrátt fyrir
óvenjumikla atvinnuþátttöku
kvenna hér á landi og hátt
menntunarstig þeirra. Og síðast
en ekki síst er það klámvæðingin.
Það er afar brýnt að vera vel á
verði gagnvart klámvæðingunni
því hún niðurlægir ímynd allra
kvenna.“
Hvaða aðferðir telur þú
ákjósanlegar að nota í
baráttunni fyrir jafnrétti
kynjanna. Ertu t.d. hlynnt
kynjakvóta til að koma
konum að í stjórnum
fyrirtækja og stofnana og
aðrar áhrifastöður, líkt og t.d.
hefur verið lögfest í Noregi?
„Ég er hlynnt kynjakvótum
vegna þess að þeirra er þörf til
að rétta hlut kvenna. Konum
hefur sáralítið fjölgað í stjórnum
fyrirtækja hér á landi undanfarin
ár þrátt fyrir óvenjumikla
þátttöku kvenna í atvinnulífi hér
á landi. Því tel ég rétt að beita
kynjakvótum tímabundið meðan
því er breytt. Ég tek það fram að
þá miðum við kvenréttindafólk
jafnan við að hlutföllin séu
ekki lakari en 60% / 40%, þ.e.
við erum ekki að krefjast þess
að konur fái völd til helminga,
heldur að lágmarki 40% hlut
í stjórnum. Þannig er þessu
einmitt háttað í Noregi.“
Telur þú að tungumálið
geti verið tæki í baráttunni
fyrir jafnrétti kynjanna, t.d.
með því að finna hlutlaus
starfsheiti á bæði ný störf og
gömul, sem bæði kynin geta
JAFNRÉTTI SNÝST UM
ALLA, SYNI OG DÆTUR
ÞESSA LANDS
Margrét K. Sverrisdóttir tók við formennsku í
Kvenréttindafélagi Íslands á síðasta aðalfundi félagsins
sem haldinn var að Hallveigarstöðum 15. apríl sl. Margrét
hefur starfað með Kvenréttindafélaginu síðan 2001 og verið
varaformaður félagsins undanfarin ár.