Bændablaðið - 25.09.2014, Blaðsíða 2
2 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. september 2014
Afurðasalar eru sammála um
að fé kemur nokkuð vænt af
fjalli þetta haustið og fallþungi
í flestum tilfellum meiri en í
fyrra. Þannig er hann 0,1 kg
meiri nú en á sama tíma í fyrra
hjá Sláturfélagi Suðurlands, en
heilu kílói meiri hjá Fjallalambi
– svo dæmi séu tekin.
Skrokkafjöldi er svipaður á milli
ára og sömuleiðis magnið sem fer
í heimtöku, þó á heildina litið fari
það magn vaxandi sem bændur taka
heim.
Flestu fé slátrað hjá
KS og Norðlenska
Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og
Norðlenska munu hvort um sig
slátra nálægt 115 þúsund fjár þetta
haustið. Samkvæmt upplýsingum frá
Ágústi Andréssyni, forstöðumanni
KS, er áætlað að um 115 þúsund
dilkum verði slátrað hjá þeim, en
það er svipað því sem verið hefur á
undanförnum árum. Eftir fyrstu 10
þúsund lömbin er fallþunginn hálfu
kílói meiri en í fyrra.
Reynir Eiríksson, framleiðslustjóri
hjá Norðlenska, segir að í fyrra hafi
fjöldinn verið 114.600 og honum
sýnist að það verði aðeins fleira nú
en í fyrra. Fallþungi hjá Norðlenska
er um hálfu kílói meiri en í fyrra.
Steinþór Skúlason, forstjóri
Sláturfélags Suðurlands (SS), telur að
sláturfjöldinn verði um 105 þúsund
á þessari vertíð – sem er svipað
magn og í fyrra – og fallþunginn er
svipaður, eins og áður segir.
Gunnar Tryggvi Halldórsson,
framkvæmdastjóri SAH, segir að
sambærilegum fjölda verði nú slátrað
og á undanförnum árum, eða um 100
þúsund fjár. Fallþungi lofar góðu og
er um hálfu kílói meiri en í fyrra.
Magnús Freyr Jónsson,
forstöðumaður Sláturhúss KVH á
Hvammstanga, telur svipuðum fjölda
verða slátrað nú og á síðasta hausti,
eða um 91 þúsund. Vel lítur út með
fallþunga.
Hjá Birni Víkingi Björnssyni,
framkvæmdastjóra Fjallalambs,
fengust þær upplýsingar að dilkar
væru þar mjög vænir og vel á sig
komnir. Í fyrstu viku sláturtíðar
voru dilkar einu kílói þyngri en
eftir jafnmarga daga á síðasta ári.
Slátrað verður um 30 þúsund fjár hjá
Fjallalambi, sem er örlítil fækkun.
Skúli Þórðarson, sláturhússtjóri
hjá Sláturhúsi Vopnfirðinga, segir
lömbin vera 180 g þyngri miðað við
sömu daga í fyrra. Slátrað verður 32
þúsund fjár, en það er um 1.500 fleira
en í fyrra.
Heimtaka eykst
hjá þremur afurðasölum
Nokkuð breytilegt er hvernig
fyrirkomulag er á heimtöku meðal
afurðasala. Hjá KS, SS og SAH
afurðum hefur heimtaka heldur verið
að aukast, en annars staðar er hún á
svipuðu róli á milli ára.
Hjá SS er heimtaka talin vera
um sjö prósent af slátrun. Ekki
er hámark á heimtöku, en þó er
stórfelld heimtaka verðlögð sem
verktakaslátrun á hærra verði en
„venjuleg“ heimtaka. Að sögn
Steinþórs hafa ekki verið gefin út
hrein mörk í þessu en hann segir
ljóst að ef heimtaka fer yfir 35–40
stykki þá sé hún umfram „venjulega“
heimtöku sem nægi flestum og kosti
þá 4.310 kr. á stykkið. Hann segir
fínsögun kosta aukalega 690 kr. á
stykkið og gjald fyrir heimtöku og
sjö parta sögun sé 2.950 kr. á stykkið
fyrir dilka og 3.090 kr. fyrir fullorðið.
Ekki er hámark á heimtöku hjá
KS. Fyrir fullorðið og veturgamalt
kostar stykkið 3.050 kr. og 180 kr.
fyrir hvert kíló á dilk. Innifalið er
sjö parta sögun og fyrir fínsögun er
rukkað aukalega 33 kr. á kílóið.
Hjá Norðlenska er miðað við
240 kg hámark á heimtöku og verða
aðilar að hafa samband og semja um
gjald fyrir heimtöku ef það fer yfir
þá þyngd.
Tekið er 2.850 kr., fyrir utan vsk.,
fyrir lambið, en ekki er greitt fyrir sjö
parta sögun. Verð fyrir fullorðið er
3.120 kr. á stykkið. Fyrir fínsögun er
tekið 505 kr. gjald á stykkið.
Gunnar Tryggvi segir að heimtaka
sé talsverð hjá SAH og var nálægt 90
tonnum haustin 2012 og 2013. Gert
sé ráð fyrir sambærilegu magni nú
þótt aukning sé alltaf einhver. Telur
hann jákvætt að innleggjendur séu
að vinna í markaðsmálum sjálfir.
Ekki er hámark á heimtöku og segir
Gunnar að sumir taki allt heim. Eitt
heimtökugjald er hjá SAH, sem er
2.942 kr. á stykkið. Inni í því gjaldi
er gróf- og fínsögun, þannig að
viðskiptavinirnir velja sjálfir hvernig
kjötið er sagað án aukakostnaðar.
Ekki eru neinir aðrir skilmálar
varðandi heimtöku frá SAH, nema
þeir að geymslur þurfa að vera
tæmdar fyrir næstu sláturtíð – eða
15. september.
Skúli segir heimtöku ekki hafa
breyst hjá Sláturhúsi Vopnfirðinga
á síðustu árum – og hún sé til
heimanota, fyrir utan fjóra aðila sem
selja beint eða í gegnum Austurlamb.
Ekki er beinlínis um hámark að ræða,
en semja þarf um verð á magni
umfram eðlileg heimanot – þar
sem verð fyrir heimtekið er undir
kostnaðarverði. Ekki er sérverð á sjö
parta sögun. Fínsögun kostar 220 kr.
á stykkið og 200 kr. þar sem annað
lærið er sneitt og hluti af framparti
er í sneiðum. Æskileg er að bóndi
geti tekið heimtöku innan þriggja
daga, en bændur geta líka tekið heim
úr birgðum hússins og geta þá tekið
kjötið þegar þeim hentar.
Magnús hjá Sláturhúsi KVH
á Hvammstanga segir að ekki sé
hámark á heimtöku hjá þeim. Hún
hafi verið 3,9 prósent síðustu þrjú ár
og sé svipuð núna. Sláturkostnaður
fyrir heimtöku sé 180 kr. á kílóið og
takmarkast við eðlilega heimanotkun
og heimasölu bænda. Fyrir heimtöku
umfram 200 kg er verðið 220 kr.
á kílóið. Gjald fyrir fullorðið og
veturgamalt er kr. 3.050 á stykkið.
Skrokkar sem teknir eru heim
skulu sóttir eigi síðar en tveimur
dögum eftir slátrun, en daginn eftir
ef það á ekki að frysta þá.
Magnús segir mikilvægt að það
komi fram, þegar fé er afhent til
slátrunar, hvort og hvað eigi að
taka heim og hvort viðkomandi vilji
fá kjötið fryst og/eða sagað – og
hvernig eigi að saga.
Ekki er tekið sérstakt gjald fyrir
sjö parta sögun en 33 kr. á kílóið
fyrir fínsögun. Innmatur fylgir ekki
heimtöku.
Björn Víkingur segir að ekki sé
hámark hjá Fjallalambi. Heimtaka
sé svipuð á milli ára, yfirleitt um 30
tonn. Um tvenns konar heimtöku
sé að ræða. Eigin birgðir og
Fjallalambsbirgðir. Eigin birgðir
er heimtaka eigin lamba og er
þá sérmerkt viðkomandi bónda í
slátrun og eftir það. Við geymum
þær birgðir svo fyrir bændur þangað
til þeir óska eftir því að fá hann
sagaðan.
Innifalið í sláturkosnaði er
sjö parta sögun sett í kassa.
Sláturkostnaður eigin birgða
fyrir lömb er 232 kr. á kílóið.
Sláturkostnaður Fjallalambsbirgða
fyrir lömb er 187 kr. á kílóið.
Sláturkostnaður eigin birgða fyrir
fullorðið er 198 kr. á kílóið, en 169
kr. kílóið fyrir Fjallalambsbirgðir.
Fjallalambsbirgðir velja
bændur á vigtarseðli eftir slátrun.
Sú heimtaka er í kílóum. Bændur
taka þau kíló út þegar þeim hentar.
Grófhlutun er inni í sláturkostnaði
á heimtöku, en gjald er tekið ef
beðið er um meiri sögun. Ekki
fengust nákvæmari upplýsingar
um verðlagningu vegna heimtöku
hjá Fjallalambi.
Einn afurðasali þjónustar
bændur með lífrænt vottað fé
Meðal afurðasalanna var einnig
kannað hvort þjónusta væri við
bændur með lífrænt vottað fé og hvort
þeir hefðu fundið fyrir eftirspurn eftir
slíkri þjónustu.
Í ljós kemur að einungis SAH
tekur að sér slátrun á lífrænt vottuðu
fé. SS, Norðlenska og Sláturhús KVH
þjónustuðu þessa bændur en hafa nú
hætt því. Steinþór segir það ekki
hafa borgað sig og Magnús segir að
þar sem ekki hafi litið út fyrir neitt
innlegg í ár hafi þeir hætt. Reynir
segir að kostnaðurinn hafi verið
mikill og einungis einn aðili hafi sóst
eftir þessari þjónustu – og þá ekki á
hverju ári.
Björn Víkingur segir þá hafa velt
möguleikanum fyrir sér en ekki hafi
enn orðið af því. Reyndar hafi hann
ekki orðið var við mikla eftirspurn,
en aukist hún séu þeir tilbúnir að
skoða málið. Hjá KS og Sláturfélagi
Vopnfirðinga hefur ekki komið til tals
að bjóða upp á þjónustuna, enda sé
ekki eftirspurn.
Gunnar Tryggvi segir þá hafa
vottun til að slátra og vinna lífrænt
lambakjöt. Það sé hlutverk þeirra
sem þjónustuaðila við bændur
og sauðfjárrækt. Hann segir að
markaðurinn fyrir þetta kjöt sé
ekki sterkur en þeir vilji vinna með
framleiðendum. Þeir hafi alltaf borgað
með lífrænni vottun og vilja ekki loka
á framleiðendur í uppbyggingu á
þessum markaði.
Margir af lífrænum fram leiðendum
nýta sér heimtöku hjá SAH og selja
kjöt sjálfir. Gunnar segir að það hangi
saman að hafa vottun fyrir slátrun á
lífrænu og hagstæð þjónustugjöld í
heimtöku. Sláturhús séu í grunninn
byggð upp af bændum sem
þjónustufyrirtæki og það sé fyrst og
fremst hlutverk sláturhúsa að þjónusta
bændur. Þess vegna ættu sláturhús
ekki að skera af eða gjaldsetja
alla þjónustuþætti sem skila ekki
beinhörðum peningum inn í kassann.
/smh
Fréttir
Stóðréttir á
Norðurlandi
Stóðréttir verða í Árhólarétt í
Unadal í Skagafirði á morgun,
föstudaginn 26. september.
Á laugardag, 27. september,
verður svo réttað í Laufskálarétt
í Hjaltadal í Skagafirði. Það eru
jafnframt síðustu stóðréttirnar í
þessum mánuði. Næstu stóðréttir
þar á eftir verða laugardaginn 4.
október. Þann dag verður réttað
í Deildardalsrétt í Deildardal í
Skagafirði, líka í Flókadalsrétt
í Fljótum, Undirfellsrétt í
Vatnsdal, Austur-Húnavatnssýslu,
Víðidalstungurétt í Víðidal í Vestur-
Húnavatnssýslu og í Tungurétt í
Svarfaðardal í Eyjafirði.
Stóðréttir verða einnig í
Eyjafjarðarsveit laugardaginn 4.
október. Réttað verður í Þverárrétt
kl. 10 og í Melgerðismelarétt kl. 14.
Sjóður til eflingar
byggðarannsóknum
Á Byggðaráðstefnu Íslands 2014,
sem haldin var á Patreksfirði 19.
og 20. september síðastliðinn,
kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson,
ráðherra byggðamála, sérstakan
byggðarannsóknasjóð sem verður
settur á laggirnar.
Sjóðurinn mun hafa til ráðstöfunar
allt að 10 milljónum króna á ári,
næstu þrjú árin að minnsta kosti.
Er vonast til þess að með
rannsóknum, sem hægt verður að
stunda með stuðningi úr sjóðnum,
verði hægt að leggja mikilsverðan
grunn við mótun byggðastefnu.
Ljóst þykir að gögn hefur vantað
fyrir fræðilegan grunn og erfiðlega
hefur gengið að fjármagna
byggðarannsóknir í gegnum
samkeppnissjóðina sem til staðar
eru. /smh
Yfirferð um afurðastöðvar í sláturtíðinni:
Fé vænna en í fyrra
– Heimtaka á kjöti fer heldur vaxandi
Um 588 þúsund fjár verður slátrað á þessu hausti.
Landbúnaðarsafn Íslands verður
opnað í nýju húsnæði 2. október
næstkomandi klukkan 16.00.
Nýja húsnæðið sem um ræðir er
gamla fjósið á Hvanneyri sem var
byggt árið 1928.
Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri
og verkefnisstjóri safnsins, segir
að flutningi muna í nýja húsnæðið
sé lokið og uppröðun langt á veg
komin. „Hér verður því allt klárt á
opnunardegi. Gamla fjósið sem hýsir
sýninguna núna er sýningargripur út
af fyrir sig og að öllu leyti hentugra
húsnæði en þar sem sýningin var
áður. Sýningarrýmið er líka stærra
og því hægt að gera sögunni betri
skil. Sýningarsvæðið mun svo
stækka enn meira á næstu tíu árum.
Landbúnaðarsafnið var sett
á laggirnar árið 1940 og hét þá
Verkfærasafn ríkisins, nafninu var
seinna breytt í Búvélasafnið og
heitir nú Landbúnaðarsafn Íslands.
Í safninu er að finna sýnishorn
af búvélum og þar er rakin saga
tækniþróunar og vélvæðingar
landbúnaðarins. /VH
Landbúnaðarsafn Íslands:
Flytur í nýtt
húsnæði