Bændablaðið - 25.09.2014, Blaðsíða 18

Bændablaðið - 25.09.2014, Blaðsíða 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. september 2014 Árleg selatalning á Vatnsnesi á vegum Selaseturs Íslands: Gestum fjölgar jafnt og þétt ár frá ári „Gestakomum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár en það koma í kringum 20 þúsund manns til okkar í Upplýsingamiðstöðina árlega,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands á Hvammstanga. „Ætla má að aukning milli ára hafi að jafnaði verið um 10%, en á liðnu ári má segja að hafi orðið alger sprenging og aukning á gestakomum var gríðarleg.“ Markmið að efla náttúrutengda ferðaþjónustu Selasetrið var stofnað vorið 2005 með það að markmiði að standa að eflingu náttúrutengdrar ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra, vinna að eflingu selaskoðunar á svæðinu og standa fyrir fjölbreyttum rannsóknum, fræðslu og upplýsingamiðlun um seli við Ísland. Selasetrið eignaðist í upphafi tvær hæðir að Brekkugötu 2 á Hvammstanga þar sem verslun Sigurðar Pálmasonar var til húsa. Þar voru settar upp fræðslusýningar um seli og húsnæðið nýtt fyrir fjölþætta starfsemi setursins. Með aukinni starfsemi var hluti starfseminnar fluttur í húsnæði í eigu Kaupfélags Vestur-Húnvetninga niðri við Hvammstangahöfn sumarið 2011. Þar eru nýjar sýningar setursins, búið að standsetja rannsóknaraðstöðu og þar er upplýsingamiðstöð héraðsins og móttaka ferðamanna. Skrifstofur eru enn að Brekkugötu 2. Rannsóknadeild Selaseturs Íslands tók til starfa árið 2009 og starfa eins og er tveir sérfræðingar í fullu starfi við deildina, auk aðstoðarfólks og rannsóknanema, þeir eru verkefnaráðnir og starfa einkum yfir sumartímann. Deildin starfar á tveimur sviðum; l íffræðirannsóknasviði og ferða málarannsóknasviði. Því síðarnefnda stýrir dr. Leah Burns, sérfræðingur í náttúrutengdri ferðaþjónustu. Leah er sameiginlegur starfsmaður Háskólans á Hólum og Selasetursins. Sandra Magdalena Granquist, dýraatferlisfræðingur og doktorsnemi, stýrir líffræði- rannsóknarsviðinu, en hún segir að meginverkefni þess séu rannsóknir á selastofnum við Ísland. Meðal verkefna er vöktun á stofnstærðum útsels og landsels við Ísland, rannsókn á fæðuöflun sela og áhrifum sela á fiskistofna við landið. Margt spennandi í gangi „Það eru mörg spennandi rannsókna- verkefni í gangi hjá okkur,“ segir Sandra. Stofnstærðartalning á landsel fer reglulega fram og þá teljum við úr flugvél. Í ár erum við einnig að kanna möguleika á að telja seli við strendur landsins með svonefnda dróna, ómönnuð loftför sem taka myndir yfir landsvæði í sama tilgangi, að telja seli. „Við reynum þá að telja þá seli sem sjást á myndum og gera áætlanir um stofnstærð út frá því,“ segir hún. Sérfræðingar Selaseturs fá oft beiðnir um að leiðbeina nemendum við gerð lokaverkefna. Nú í sumar hefur Sarah Marschall, meistaranemi frá Háskólasetri Vestfjarða, unnið að verkefni undir leiðsögn Söndru Granquist og Leah Burns, en verkefni hennar nær yfir hvernig best er að koma skilaboðum til ferðamanna um hvernig á að haga sér í kringum villt dýr, til að lágmarka neikvæð áhrif. Rannsókn á áhrifum landsels á laxfiska Sandra vinnur einnig að stórri rannsókn um áhrif landsels á laxfiska, en vinna við það verkefni hófst árið 2009. Markmið þess er að sögn Söndru að áætla áhrif sela sem dvelja á ósasvæðum á laxfiskastofna og laxveiði í ám. Í rannsókninni er m.a. verið að skoða fæðuval landsela við árósa, hreyfimynstur landsela í Bjargarósi í Húnaþingi vestra og eins ummerki eftir seli á veiddum laxfiskum. „Við höfum skoðað óbein áhrif landsela á laxveiðar með því að biðja laxveiðimenn í helstu ám í Húnaþingi vestra og Austur- Húnavatnssýslu að skrá ummerki eftir seli í laxfiskum. Niðurstöður sýndu að minna var um bit á laxi eftir seli á veiddum fiskum en menn hefðu talið, en niðurstöðurnar eiga bara við um árnar þar sem rannsóknin var gerð og yfir ákveðnu tímabili,“ segir hún. Selatalningin mikla Selatalningin mikla var haldin á vegum Selaseturs Íslands í lok júlí. Talningin hefur farið fram árlega síðan árið 2007 og var þetta því í áttunda sinn sem til hennar var efnt. Markmið talningarinnar er að fylgjast með fjölda og staðsetningu landsela á Vatnsnesi og Heggstaðanesi, ásamt því að gefa almenningi tækifæri á að kynnast og taka þátt í rannsóknarstarfsemi Selaseturs Íslands. Selir voru taldir á allri strandlengjunni á Vatnsnesi og Heggstaðanesi í Húnaþingi vestra, samtals um 100 km. Sjálfboðaliðar aðstoðuðu sérfræðinga Selasetursins við talninguna. Með því móti gefst færi á að kanna stórt svæði á mjög stuttum tíma. Í ár tóku yfir 30 manns þátt í talningunni og voru það bæði erlendir og íslenskir ferðamenn á leið um landið. Sumir bændur töldu einnig sjálfir í sínu landi og selaskoðunarbáturinn Brimill sem gerir út frá Hvammstanga aðstoðaði einnig við talninguna. Rúmlega 700 selir sáust á svæðinu Í ár sáust samtals 706 selir á svæðinu, einkum landselur. Það eru aðeins færri selir en sáust 2013, en þá voru talin 757 dýr. Árið 2012 voru talin 614 dýr, en fjöldinn árin þar á undan hefur verið yfir 1.000 dýr. Mikilvægt er að hafa í huga að þessar talningar eru aðeins vísbending um lágmarksfjölda þeirra sela sem dvelja á þessu svæði. Margir þættir hafa áhrif á fjölda sela sem liggja uppi í látrunum hverju sinni og er veður einn þeirra. Á vef Selasetursins kemur fram að tölurnar segja ekki endilega til um ástand landselsstofnsins í heild. Seinna í sumar verður landselsstofninn talinn í helstu látrum landsins úr lofti á vegum Selaseturs Íslands. Stofnstærðarmat á landsel fór síðast fram árið 2011 og hefur þar áður farið fram reglulega síðan árið 1980 og þá hefur verið talið um land allt úr flugvél. Niðurstöður talningarinnar frá 2011 benda til þess að landselstofninn hafi staðið í stað síðan árið 2003 og sé tæplega 12 þúsund dýr. /MÞÞ Arnar og Helga, starfsmenn hjá Selasetri Íslands á Hvammstanga. Myndir / Selasetur Talena, dýralæknir og sjálfboðaliði við Selasetrið á liðnu sumri, Ellen Magn- úsdóttir, sem unnið hefur við svonefnt Fuglastígsverkefni, Valérie Scholl, dýralæknanemi frá Frakklandi, og Sarah Marschall, meistaranemi við Háskóla- setur Vestfjarða, en verkefni sitt vinnur hún við Selasetrið. talningunni. „Það gekk ljómandi vel í sumar og hingað komu fjölmargir gestir,“ segir Lilja Óladóttir sem ásamt eiginmanni, Birni Halli Gunnarssyni, hefur umsjón með rekstri ferðaþjónustunnar á Sænautaseli á Jökuldalsheiði. Undanfarin sumur hafa um 4.000 manns lagt leið sína í Sænautasel yfir sumarmánuðina, en þeim hefur farið fjölgandi ár frá ári frá því staðurinn var opnaður ferðafólki fyrir 20 árum, árið 1994. „Við byrjuðum með einfalda kaffisölu og höfðum ekki mikið umleikis, en þetta hefur smám saman undið upp á sig og má segja að Sænautasel sé nú vinsæll viðkomustaður gesta á Austurlandi og þeirra sem ferðast á milli Austur- og Norðurlands,“ segir Lilja. Vilja ekkert annað en lummur Gamli bærinn var fyrst eingöngu í notkun, en gamalt fjárhús var gert upp og endurbyggt frá grunni og hýsir nú veitingasöluna. „Það er oft mikil ös hjá okkur, einkum þegar veðrið er gott og við getum nú ekki kvartað yfir veðrinu á liðnu sumri, það var einstaklega gott,“ segir Lilja. Frægar eru lummurnar sem steiktar eru í gríð og erg alla daga í Sænautaseli og segir hún að gestir vilji vart sjá neitt annað. „Ég prófaði að bjóða upp á aðrar veitingar, brauð með laxi og silungi og því um líkt en okkar gestir voru ólmir í að prófa lummurnar svo ég hætti þessum tilraunum og einbeiti mér að lummunum. Þær eru ansi margar sem við steikjum suma daga, fleiri hundruð talsins þegar mest er.“ Sveitarfélagið hafði forgöngu um það árið 1992 að ráðist var í endurbyggingu gamla bæjarins að Sænautaseli og vann Lilja ásamt fleiri sveitungum við þá uppbyggingu. „Svo fóru menn að velta fyrir sér hvað ætti að gera þarna og ég ákvað að prófa að vera yfir sumarið með kaffisölu. Það komu nú sárafáir fyrsta sumarið, en mynd um svæðið hér sem sýnd var í sjónvarpi árið 1995 jók strauminn talsvert og síðan hefur gestafjöldinn vaxið með hverju sumrinu,“ segir Lilja. „Þá fór boltinn að rúlla.“ Fjölmargir litu við sumarið 2007, en þá var kominn vegur yfir Kárahnjúkastíflu og fýsti marga að berja hana augum. „Það opnaðist leið fyrir ferðamenn hér um óbyggð svæði á Jökuldalsheiði og það sumar komu mjög margir, ég myndi giska á að sumarið nú hafi verið álíka gott, þetta voru metsumur hvað ferðamannafjölda varðar.“ Kem endurnærð af fjöllum Lilja kveðst hvergi annars staðar vilja vera yfir sumarið en á fjöllum, þar kunni hún vel við sig. Hún hefur verið staðarhaldari á Sænautaseli í 20 ár og hefur nýlega gert fimm ára samning við sveitarfélagið um reksturinn. „Ég kem alveg endurnærð af fjöllum, tilbúin fyrir átök vetrarins og hlakka alltaf til á vorin að komast í Sænautasel aftur,“ segir hún, sem býr á bænum Merki í Jökuldal ásamt sinni fjölskyldu. Þar er tvíbýli, Stefán bróðir hennar og fjölskylda búa þar einnig sauðfjárbúi með 5–600 kindur. Sjálf starfar Lilja að hluta til á Egilsstöðum yfir veturinn. /MÞÞ Æ fleiri ferðamenn leggja leið sína í Sænautasel: Gott sumar að baki – Gestafjöldi álíka og góðærissumarið 2007 Myndir / MÞÞ

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.