Bændablaðið - 25.09.2014, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 25.09.2014, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. september 2014 Málgagn bænda og landsbyggðar Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 7.200 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.600. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279 Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 – Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is Blaðamenn: Freyr Rögnvaldsson fr@bondi.is – Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður M. Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is Auglýsingastjóri: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið. Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621 LEIÐARINN Sláturtíð stendur nú sem hæst hjá sauðfjárbændum. Sumarið hefur í heild komið vel út og virðist sem fallþungi dilka í ár verði að jafnaði heldur meiri en í fyrra. Nú stefnir í að sláturvertíðin skili 588 þúsund skrokkum. Í þessum skrokkum, innmat og gærum felast mikil verðmæti, ef vel tekst til með markaðssetningu. Mikið hefur verið talað um að fyrir þessa sláturtíð hafi afurðastöðvarnar „setið uppi með“ mikið af lambakjöti. Fjargviðrast er yfir því í blöðum og á bloggsíðum að ríkið sé að styrkja bændur til að offramleiða kjöt sem sé nú að verða að heilu fjallasölunum. Ef litið er hins vegar til umræðna síðustu þriggja ára spyr maður sig hvort það geti verið að Ragnar Reykás sé hönnuður þessarar umræðu. Allavega virkar þetta stórundarlega á mig. Sumarið 2011 og 2012 hömuðust ákveðnar stórverslanir við að bera það á borð fyrir landsmenn að það væri gríðarlegur kjötskortur í landinu. Þá var bent á þá svakalegu „staðreynd“ að ríkið væri að styrkja bændur með stórfé til að framleiða kjöt ofan í landsmenn sem bændur gæti síðan ekki staðið við að framleiða. Best væri því að hætta þessari vitleysu og flytja inn allt kjöt, t.d. lambakjöt, frá Nýja-Sjálandi. Eðalbloggarar landsins gripu þetta auðvitað á lofti enda íslenskir bændur upp til hópa hið voðalegasta fólk. Þetta sama fólk hefur hamast í samfélagsmiðlum nú síðsumars og úthrópað bændur fyrir að framleiða allt of mikið kjöt. – Ragnar Reykás hvað...? Vissulega er full þörf á að ræða landbúnaðarkerfið sem slíkt og þá styrkjapólitík sem beitt er hér á landi sem og í flestum löndum heims í skjóli hagstjórnar. Það hlýtur líka að vera markmið hverrar þjóðar að allir atvinnuvegir séu sjálfbærir, einnig sjávarútvegur og landbúnaður. Um leið þarf að koma í veg fyrir að hagstjórnarputtar pólitíkusa séu ekki sífellt að skekkja grunn heilbrigðs rekstrar til hagsbóta fyrir fjármálabraskara. Það hlýtur þó að vera lágmarks krafa að það sé heil brú í því sem fólk er að tala um þegar því þykir bara allt í lagi að drulla yfir bændur landsins eins og þeir séu réttdræp úrhrök. Bændur þurfa þá um leið að hysja upp um sig buxurnar og fara að beita áhrifum í sínum afurðastöðvum. Þær hafa einmitt verið ansi iðnar við kolann undanfarin misseri við að brjóta niður þá góðu ímynd sem bændur hafa þó enn í augum meginþorra landsmanna. Nú er það MS sem virðist ólmast við að skemmta skrattanum. /HKr. Skrattanum skemmt LOKAORÐIN Samkeppni í mjólkuriðnaði Mjólkursamsalan hefur verið sektuð um 370 milljónir króna fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu samkvæmt 11. grein samkeppnislaga á tímabilinu 2008–2013. MS er talin hafa brotið gegn tveimur fyrirtækjum sem keyptu hrámjólk af henni, en mjólkin var ekki verðlögð á sama hátt til þeirra og til dóttur- og samstarfsfyrirtækja MS. Fyrirtæki tengd MS fengu mjólkina á sama verði og greitt er til bænda, en önnur greiddu verð í samræmi við ákvörðun verðlagsnefndar búvöru um heildsöluverð á mjólk í lausu. Ætla verður að Samkeppniseftirlitið hafi grandskoðað að ekki væru aðrir skilmálar um réttindi eða skyldur sem gætu skýrt þennan mun. Bændur munu kalla eftir skýringum þar að lútandi frá MS. Gildandi lög ber að virða 11. grein samkeppnislaga veitir Samkeppnis- eftirlitinu afar víðtækar heimildir. Ekki þarf að sanna skaðsemi eða ásetning til að leggja á sekt. Nægilegt er að færa rök fyrir því að brot sé til þess fallið að raska samkeppni. Það eru einstakar valdheimildir sem nauðsynlegt er að beita af hófsemi. Þarna gildir ekki að vera saklaus uns sekt er sönnuð, heldur sekur uns sakleysi er sannað. En það breytir því ekki að þetta eru gildandi lög í málinu og þau ber að virða. Nú er það þekkt og hefur margoft komið fram að forstjóri Samkeppniseftirlitsins er á móti gildandi lögum og samningum sem varða landbúnaðarstefnuna, en ætla verður að það hafi ekki haft áhrif á rannsókn málsins eða niðurstöðu eftirlitsins. Hvaða undanþágur eru nauðsynlegar? Samkeppniseftirlitið fellst ekki á að undan- þágur sem finna má í búvörulögum veiti Mjólkursamsölunni heimild til að mismuna í verðlagningu á hrámjólk, þó að hún veiti heimild til samráðs og verkaskiptingar. Samkeppnislög gildi um allt sem ekki er sérstaklega undanþegið í búvörulögum og þetta sé ekki þar á meðal. Ákvæði búvörulaga séu ekki almenn undanþága frá samkeppnislögum, heldur bara heimildir til hagræðingar samkvæmt ákveðnum forsendum. Staðfestir Samkeppniseftirlitið þá ekki að mjólkuriðnaður er ekki með öllu undanþeginn samkeppnislögum – eins og oft er haldið fram í umræðunni? Þessi deila kallar þá á það að afmarkað verði betur hvaða undanþágur frá samkeppnislögum eru nauðsynlegar mjólkuriðnaðinum miðað við alla þá hagræðingu sem þegar er orðin í geiranum. Þáttur verðlagsnefndar búvöru Samkeppniseftirlitið telur að Mjólkursamsalan hafi ekki lagastoð til að miðla hrámjólk á milli eigin fyrirtækja á bændaverði, en fyrirtækið geti heldur ekki vísað til ákvarðana verðlagsnefndar búvöru í málinu. Ákvörðun nefndarinnar um verð á gerilsneyddri mjólk í lausu hafi ekkert gildi þegar verið er að selja ógerilsneydda mjólk, eins og var í þessu tilviki. Verðlagsnefnd búvara ákvað fyrst verð á ógerilsneyddri mjólk í lausu fyrri hluta árs 2014 en hefur nú bæði gefið út verð á geril- og ógerilsneyddri mjólk í lausu. Var það gert til að tryggja betur stöðu þeirra fyrirtækja sem vilja keppa í markaðssetningu á mjólkurvörum. Sem er reyndar athyglisvert miðað við hve Samkeppniseftirlitið telur að verðlagsnefnd og fulltrúar bænda hafi verið eftirlátssamir við MS í störfum nefndarinnar. Í úrskurðinum er því ekki vegið að fyrirkomulagi verðlagningar á mjólk yfirleitt, en eins og fram hefur komið þá ákveður nefndin verð á mjólk til bænda og heildsöluverð nokkurra helstu mjólkurafurða. Smásöluverð er hins vegar frjálst. MS er ósammála úrskurðinum Þessi úrskurður Samkeppniseftirlitsins um samkeppnisbrot Mjólkursamsölunnar er grafalvarlegt mál. Ljóst er að MS taldi sig starfa innan ramma laganna með því að selja hrámjólk á einu verði til samstarfsfyrirtækja sinna en öðru til óskyldra aðila. MS er ósammála úrskurðinum og ætlar að áfrýja honum. Það er nauðsynlegt að gefa MS tækifæri til að skýra sína hlið áður en felldir eru miklir og þungir dómar. Verði ákvörðun SKE staðfest þá mun MS auðvitað þurfa að bera þær sektir sem á það verða lagðar. Úrskurður Samkeppniseftirlitsins er þegar þungbær og hefur valdið verulegum skaða á sambandi bænda og neytenda. Jafnframt verður að halda því til haga að Mjólkursamsalan býr við sérstakar aðstæður. Hún ber ábyrgð á að safna mjólk í landinu, hvar sem hún er framleidd, og hún er skuldbundin til að kaupa alla framleiðslu þeirra sem eru í viðskiptum við hana. Á sama tíma ræður hún ekki nema að litlu leyti á hvaða verði hún er keypt og ekki heildsöluverði á sínum helstu framleiðsluvörum. Fjölbreytt framleiðsla er öllum í hag Eftir sem áður eru engin rök fyrir því að leggjast gegn því að fleiri fyrirtæki vinni úr afurðum bænda, hvort sem þar er um að ræða mjólkur- eða aðrar afurðir. Fjölbreyttara vöruframboð er einfaldlega líklegt til að stækka markaðinn fyrir afurðirnar og skjóta fleiri stoðum undir landbúnaðarframleiðsluna. Eðlilegt er að þeir sem vilja kaupa hrámjólk til frekari vinnslu fái að gera það á gagnsæjum og sanngjörnum forsendum. Starfsskilyrði landbúnaðarins eru ekki yfir gagnrýni hafin fremur en önnur mannanna verk, en menn verða að geta rætt þau á málefnalegum grunni. Það er alltof algengt að vaðið sé fram með rakalausum fullyrðingum sem eiga lítið skylt við raunveruleikann. Það kunna að vera til betri aðferðir til að stýra mjólkurframleiðslu en þær sem við notum, en við skulum þá setja fram tillögur, horfa á hlutina í heild og skoða hvaða áhrif breytingar gætu haft. Annað er ekki til framfara fallið. /SSS Réttardagur var í Svarfaðardal síðastliðinn sunnudag og við það tilefni fór fram vígsla á Tungurétt en hún hefur verið í mikilli endurgerð síðustu vikur. Veðrið á vígsludaginn var eins og best verður á kosið, hlýtt og sólríkt, og fjöldi manns lagði leið sína í Tungurétt. Sylvía Ósk Ómarsdóttir fjallskilastjóri stýrði dagskránni og sagði nokkur orð um sögu réttarinnar. Magnús G. Gunnarsson sóknarprestur blessaði réttina og að lokum sungu gangnamenn úr Gangnamannafélagi Sveinsstaðar- afréttar, með Þórarin Hjartarson í fararbroddi, brag sem saminn var sérstaklega af þessu tilefni. Þetta kemur fram á heimasíðu Dalvíkurbyggðar. Í ræðu Sylvíu kom fram að réttin var byggð árið 1923 og er því 91 árs núna í haust. Réttin var steypt ofan á melinn, þar sem hún stendur í dag, án járnabindingar í steypunni og því í raun ótrúlegt að hún hafi ekki verið verr farin en raun bar vitni. Endurbygging réttarinnar fór fram í tveimur áföngum. Sá fyrri 2011 þegar almenningurinn var lagaður, steypt utan um gömlu veggina og ný hlið sett í dilkana. Kapp var lagt á það að eitthvað sæist af vinnu forfeðranna við þá endurbyggingu og því má sjá gömlu veggi réttarinnar inni í dilkunum. Nú í sumar var svo ráðist í að klára uppbygginguna. Þá voru gömlu dilkarnir jafnaðir við jörðu og nýir steyptir upp. Einnig var undirlag dilka og almennings lagað. /MÞÞ Líf og fjör í endurbættri Tungurétt í Svarfaðardal Myndir / Dalvíkurbyggð

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.