Bændablaðið - 25.09.2014, Blaðsíða 36

Bændablaðið - 25.09.2014, Blaðsíða 36
36 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. september 2014 Utan úr heimi Júgurbólga er mesti skaðvaldurinn í mjólkurframleiðslunni– síðari hluti Í nýliðnum mánuði var haldin júgurbólguráðstefna í Gent í Belgíu en ráðstefna þessi var haldin á vegum alþjóðlega júgurbólguráðsins, NMC (National Mastitis Concil). Hér fer síðari hluti umfjöllunar Snorra Sigurðssonar um þessa ráðstefnu, en fyrri hlutinn birtist í síðasta Bændablaði. Meðhöndla í geldstöðunni Að hlúa vel að geldkúnum er eitt brýnasta starf kúabænda nú til dags og má segja að það hafi verið inntak erindis kanadísku fræðimannanna Marguerite Cameron og Greg P. Keefe frá Prince Edward Island-háskólanum. Tilgangur geldstöðunnar er auðvitað sá að gefa kúnum frí svo líkaminn geti aðlagað framleiðsluaðstæðurnar að komandi mjaltaskeiði. Það hefur löngum verið vitað að til þess að júgurvefurinn nái að endurnýja sig þarf kýrin um 6–8 vikna frí og er það skýringin á hefðbundinni lengd geldstöðu. Þegar þetta tímabil í lífi kýrinnar gengur í garð er hún hins vegar viðkvæm fyrir árásum baktería sem þó valda sjaldan klínískum einkennum júgurbólgu á geldstöðunni heldur duldum einkennum. Því bera kýr of oft með háa frumutölu og geta fengið klínísk einkenni í kjölfarið. Þessi staðreynd leiddi til þess að upp úr 1960 var farið að ráðleggja mikla notkun á lyfjum í geldstöðu og voru þá yfirleitt allar kýr meðhöndlaðar „holt og bolt“. Þetta var auðvitað ekki góð aðferð enda oft verið að meðhöndla kýr að óþörfu. Í dag, rúmlega hálfri öld síðar, dettur fáum í hug að meðhöndla kýr með þessum hætti, en hins vegar meðhöndla á grunni áhættumats og greininga. Það hefur sýnt sig að hafa afar góð áhrif og mun betri en sé meðhöndlað á mjaltaskeiðinu sjálfu. Skýringin felst í fjórum þáttum: 1) notuð eru langvirkandi lyf sem hafa >30 daga útskolunartíma, 2) vegna þess að kýrin er ekki mjólkuð eru lyfin ekki „fjarlægð“, 3) lyfin eru hönnuð til þess að leysast hægt upp en að vinna á bakteríum af öryggi og 4) þar sem mjólk er ekki til staðar er næring bakteríanna í lágmarki. Reynslan sýnir að sé júgurbólgutilfelli meðhöndlað í geldstöðu og einnig notað spenakítti þá eru líkurnar á því að kýrin nái fullri heilsu >85%. Erfðabundin mótstaða Það má vissulega takast á við júgurbólgutilfellin með lyfjum en auðvitað er miklu betra að slík tilvik komi ekki upp. Út á það gengu erindi þeirra Lorraine M. Sordillo, frá bandaríska háskólanum í Michigan- ríki, og Gina M. Pighetti frá bandaríska háskólanum í Tennessee. Ótal þættir hafa áhrif á það hve vel kúm tekst að forðast smit frá bakteríum en líffræðilegar varnir kýrinnar eru auðvitað fyrst og fremst spenaendinn sjálfur. Talið er að nærri öll júgurbólgutilvik megi rekja til þess að bakteríur hafi komist upp í gegnum spenaendann, upp spena- ganginn og inn í júgurhol. Til viðbótar sterkum en sveigjanlegum spenaenda hafi kynbótafræðingar horft til annarra þátta svo sem mótstöðuafls kúa og getu þeirra til þess að takast á við sýkingar án hjálparefna. Tilfellið er hins vegar að þessi framangreindu atriði fara ekki endilega vel saman við aðra þætti sem við viljum sjá kýr bera eins og að vera lausmjólka. Því þarf að finna heppilegt jafnvægi milli krafna sem gera þarf til góðs og sterks spenaenda og vel opins spenaenda, þ.e. fyrir mjaltirnar. Kröfurnar um hraðar mjaltir hafi í raun rekið kynbótafræðinga til þess hin síðari ár að horfa í auknum mæli á getu kúa til þess að takast á við sýkingar og losa sig við þær án utanaðkomandi aðgerða. Rannsóknir á slíkri getu kúa eru nú stundaðar víða um heim og felast m.a. í því að leita að erfðavísum sem stjórna þeim aðgerðum sem líkaminn setur í gang þegar bakteríur ráðast upp í júgurvefinn en viðbrögð kúa við sama smitefni geta verið afar misjöfn. Þannig var t.d. nefnt dæmi um tvær kýr sem voru vísvitandi, í tilraunaskyni, smitaðar með Uberis bakteríum. Önnur kláraði sig á smitinu á átta dögum og það dró ekkert úr mjólkurframleiðslunni en hin veiktist verulega og nytin dróst saman um 20% en dæmið sýnir vel muninn á því sem kalla mætti hreysti gripa. Smitandi bakteríur Það kemur væntanlega fáum á óvart, sem á annað borð þekkja eitthvað til júgurbólgutilfella, að Staf. aureus er baktería sem oft finnst í ræktunarsýnum. Þessi baktería, ásamt Strept. agalactiae (smitandi júgurbólga), eru venjulega kallaðar smitandi bakteríur þar sem þær geta borist mjög auðveldlega á milli kúa. Í dag eru notaðar allþekktar og þrautreyndar aðferðir til þess að berjast gegn þessum bakteríum eins og fram kom í erindi John R. Middleton frá háskólanum í Missouri í Bandaríkjunum. Þessar bakteríur valda mjög oft duldum einkennum júgurbólgu og geta verið ástæður þrálátra tilfella með afar sveiflukennd einkenni. Á þessu er þó nokkur munur á milli búa og á milli landa og í sumum tilfellum geta þessar smitandi bakteríur verið aðalástæðan fyrir svæsnum júgurbólgutilfellum. Þekktar smitleiðir Þó svo að aðgerðirnar sem notaðar eru til þess að ráða niðurlögum þessara baktería séu oft bundnar við einstakar kýr og vinnubrögð við mjaltir þá má aldrei horfa frá þeirri staðreynd að þessar bakteríur hafa einnig fundist í umhverfi kúnna svo alltaf þarf að horfa á heildarmyndina. Helstu smitleiðirnar sem þekktar eru og eru jafnframt grunaðar um að eiga stærstan þátt í því að flytja smit á milli gripa eru sjálf mjaltatækin, tuskurnar sem notaðar eru við þvott kúa og svo hendur mjaltamannsins sjálfs eða armur mjaltaþjóns. Sé sett upp gott skipulag til þess að draga úr líkum á því að flytja smit á milli kúa með framangreindum aðferðum, þá næst oftast góður árangur. Hér má nefna atriði eins og þrif mjaltatækja á milli kúa, skolun og sótthreinsun tækja eftir frumuháar kýr, notkun á hönskum við mjaltir og reglubundið þrif og sótthreinsun mjaltaþjónaarms og annarra hluta mjaltaþjóns sem snertir júgur og spena. Bólusetning gegn júgurbólgu? Víða um heiminn hefur verið unnið að þróun lyfja til bólusetningar gegn júgurbólgu. Þar hefur m.a. verið horft til Staf. aureus, E. coli og fleiri baktería og í dag er hægt að kaupa tvenns konar ólík bólusetningarlyf í þessum tilgangi. Þessi lyf hafa enn þann dag í dag ekki náð þeim árangri að koma algjörlega í veg fyrir smit og sýkingar en sumar rannsóknir virðast þó benda til þess að bólusettar kýr sýni vægari einkenni smits og nái sér mögulega fyrr af sýkingu. Ráðgjafarmiðstöð landbún- aðarins (RML) og Meginfélags búnaðarmanna í Færeyjum (MBM), mjólkurbú þeirra Færeyinga, stóðu nýverið fyrir námskeiðum í nautgripa- ræktarkerfinu Huppu. Námskeiðin fóru fram í Þórs- höfn í Færeyjum og í kjölfar námskeiðanna munu færeyskir kúabændur taka kerfið í notkun sem sitt skýrsluhaldskerfi. Kennsla á námskeiðunum hefur verið í höndum Guðmundar Jóhannessonar, ábyrgðarmanns nautgriparæktar hjá RML, með dyggri aðstoð Jórunar Hansen hjá MBM. Á síðustu mánuðum hafa ýmsir þættir Huppukerfisins verið aðlagaðir aðstæðum í eyjunum og kerfið einnig þýtt yfir á færeysku. Þessi vinna hefur verið í höndum Stefnu á Akureyri en leidd af Guðmundi Jóhannessyni og Jóni B. Lorange hjá BÍ. Elín Nolsöe Grethardsdóttir, ráðunautur hjá RML, þýddi kerfið að mestu ásamt Rólvi Djurhuus hjá Búnaðarstovunni í Færeyjum. Gott samstarf við Færeyinga Samstarf RML og MBM vegna aðlögunar og þýðingar Huppu hefur verið ákaflega gott og hefur ekki tekið nema um 5 mánuði að koma kerfinu í notkun þrátt fyrir að vinna hafi að mestu legið niðri í um mánuð í sumar vegna sumarleyfa. Í Færeyjum eru í augnablikinu 28 kúabændur en mun fækka um einn er líður á haustið. Þar eru um 900 mjólkurkýr og heildarframleiðslan er sjö milljónir lítra mjólkur. Bústærðin er mjög breytileg eða allt frá um 10 kýr upp í um 120 kýr, meðalbústærð rétt um 34 kýr. Stærsta búið leggur inn um 1.100 þús. lítra á ári en þar eru tveir DeLaval-mjaltaþjónar. Guðmundur Jóhannesson segir í umfjöllun um námskeiðin á vefsíðu RML að Færeyingar séu ákaflega gestrisnir og velviljaðir Íslendingum og víða má sjá íslenskar vörur í verslunum. Það gleðji líka íslenska kúabændur að íslenska skyrið prýðir hillur verslana og við hlið íslenska skyrsins má sjá lífrænt skyr.is frá Thise í Danmörku. Færeyingar taka Huppu í notkun Leitum að eftirfarandi eignum fyrir áhugasama aðila: • Bújörð í rekstri á Suður- eða Vesturlandi – Sauðfjárbúskapur eða mjólkurframleiðsla • Bújörð sem hentar fyrir uppbyggingu á ferðaþjónustu á Suður- eða Vesturlandi – Nálægð við þjóðveg 1 mikill kostur Allar nánari upplýsingar veitir Björgvin Guðjónsson, búfræðingur og löggiltur fasteignasali, í síma 510-3500 / 615- 1020 eða bjorgvin@eignatorg.is Skipholt 50b - 105 Reykjavík

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.