Bændablaðið - 25.09.2014, Blaðsíða 34

Bændablaðið - 25.09.2014, Blaðsíða 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. september 2014 Lesendabás Skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar um áhrif loftslagsbreytinga á frumatvinnuvegina á Norðurlöndum: Frumatvinnuvegirnir geta notið góðs af hlýrra loftslagi Norræna ráðherranefndin hefur gefið út nýja skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á frum- atvinnuvegina á Norðurlöndum; landbúnað, fiskveiðar og skógrækt. Í skýrslunni kemur fram að þótt hlýnandi loftslag muni reyna á norrænu framleiðslukerfin á margan hátt sé einnig líklegt að því muni fylgja aukin sjálfbærni og framleiðni. Niðurstöður ítarlegra rannsókna Skýrslan nefnist „Climate change and primary industries“. Í henni birtast niðurstöður rannsóknarverkefnisins Climate Change Impacts, Adaptation and Mitigation in Nordic Primary Industries, en það var sett á laggirnar árið 2010 sem liður í hnattvæðingarverkefni Norrænu ráðherra nefndarinnar. Sex norræn rannsókna- samstarfsnet á vegum NordForsk hafa lagt fram efni í skýrsluna og beint tilmælum um stefnumörkun til norrænna stjórnvalda. N i ð u r s t ö ð u r n a r voru kynntar á ráðstefnunni Adapting to Change: From Research to Decision- making, sem fram fór í Kaupmannahöfn. Jørgen E. Olesen, prófessor í landbúnaðarvistfræði við háskólann í Árósum, er formaður stýrihóps verkefnisins. Hann greindi frá því að búast mætti við meiri hlýnun á Norðurlöndum en í heiminum almennt. „Haldi losun gróðurhúsaloft- tegunda svo fram sem horfir er veruleg hlýnun í vændum. Frumatvinnuvegirnir standa frammi fyrir því að þurfa að draga úr losun um leið og þeir þurfa að mæta sívaxandi eftirspurn eftir matvælum og öðrum vörum.“ Lengri vaxtartímabilum fylgja ný sóknarfæri Jørgen E. Olesen bendir á að langir sumardagar og skammdegi á vetrum feli í sér sérstakar áskoranir fyrir grunnatvinnuvegina. „Hvergi eru landbúnaður, fiskveiðar og skógrækt stunduð á eins norðlægum breiddargráðum og hér á Norðurlöndum. Þannig er staða okkar einstök, einkum innan grunnatvinnuveganna, því við þurfum sjálf að leita nýrra lausna.“ Hækkandi hitastig mun lengja vaxtartímabil á Norðurlöndum og skapar þannig ný sóknarfæri í frumframleiðslu. Mesta breytingin mun felast í því að fleiri plöntu- og dýrategundir geta þrifist á svæðinu og nýir fiskistofnar munu leita inn á hafsvæði Norðurlanda. Með öðrum orðum munu verulegar breytingar verða á þeim vistkerfum sem frumatvinnuvegirnir eiga allt sitt undir. „Breytingarnar munu bæta aðstæður í frumframleiðslu og að öllum líkindum auka sjálfbærni framleiðslukerfa. Lengra vaxtar- tímabil mun auka framleiðni, einkum á túnum. Aukin framleiðni, að viðbættri nýrri tækni við nýtingu lífmassa, getur gert okkur sjálfbjarga um fóður í auknum mæli. Það myndi aftur auka sjálfbærni í landbúnaði og fiskeldi,“ segir Jørgen E. Olesen. Hlýrra loftslagi munu einnig fylgja ýmsar öfgar tengdar veðurfari og loftslagsbreytingum, sem löndin og grunnatvinnugreinarnar verða að búa sig undir. Að sögn prófessorsins stafar skógræktinni mest hætta af stormviðri og ágangi skordýra, en landbúnaði af miklum rigningum. Breytt loftslag kallar á ný stjórnunarkerfi Breytingarnar kalla á aukinn sveigjanleika innan þeirra kerfa sem stjórna nýtingu líffræðilegra auðlinda. Þetta á við um alla grunnatvinnuvegina þrjá, en er greinilegast í fiskveiðistjórnun. „Undangenginn áratug höfum við séð fiskistofnana flytja sig norðar á bóginn. Gott dæmi er makríllinn sem hefur fært sig úr Norðursjó og Noregshafi og má nú finna í sjó umhverfis Ísland og Grænland. Þetta á eftir að skapa ágreining um stjórnun stofnanna,“ segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar. Sigurður tók þátt í samstarfi rannsóknanetsins NORDCHAR, þar sem könnuð voru áhrif loftslagsbreytinga á bleikjustofninn. Ýmislegt bendir til að sá stofn muni sömuleiðis flytja sig norðar. „Við höfum orðið vör við fækkun í sumum suðlægum bleikjustofnum og hætt er við því að einhverjir þeirra hverfi með öllu. Því myndi draga úr erfðafjölbreytni á svæðinu. Á móti kemur að aðlögunarhæfni bleikjunnar er gríðarleg og því ekki ástæða til að ætla að hún muni deyja út.“ Aukin áhersla á erfðaauðlindir Aukin þörf á framleiðslu húsdýra og plantna gerir aðlögun að breyttu loftslagi aðkallandi. Peer Berg, yfirmaður húsdýrasviðs hjá NordGen, telur lausnina felast að hluta í aukinni áherslu á erfðaauðlindir. „Við eigum að nýta erfðafjölbreytnina eins og hún leggur sig og rækta réttar tegundir á réttum stöðum. Til dæmis hentar votlendi smágerðum klaufdýrum betur en stórum og þungum nautgripum. Einnig eigum við að nýta okkur fjölbreytileika stofnanna, meðal annars hvað varðar þol gegn hærra hitastigi og sjúkdómum.“ Berg bendir á að framleiðsla á próteinríku fóðri, sem unnt væri að auka samfara hækkandi hitastigi, væri kjörin til þess að efla fæðu- og fóðuröryggi. Hins vegar krefjast aðstæður á Norðurlöndum þess að valið sé vandað á plöntum til ræktunar. Erlendar plöntur eiga oft erfitt með að aðlagast norrænum birtuskilyrðum og ná ekki að herða sig fyrir veturinn, líkt og þær sem fyrir eru. „Áskorunin felst í því að finna og þróa áfram nýjar arfgerðir sem munu lifa veturinn af án þessarar hörðnunar og skila góðum afrakstri,“ segir Anne Marte Tronsmo, prófessor í plöntumeinafræði við NMBU, háskóla á sviði umhverfis- og lífvísinda í Noregi. Skóglendi bindur mikinn koltvísýring Per Gundersen, prófessor við K a u p m a n n a h a f n a r h á s k ó l a , kynnti niðurstöður Forest Soil C SInk Nordic Network um kolefnisbindingu skóglendis. 60 prósent landsvæðis á Norðurlöndum eru skógi vaxin og vega skógarnir því þungt í útreikningum á koltvísýringsmagni. „Plöntur hafa bundið mikið magn kolefnis í jarðveg skóglendisins. Kolefnið er jafnvel meira í jarðveginum en í trjánum.“ Gundersen leggur áherslu á að frekari rannsókna sé þörf á kolefnisbindingu skóglendis og hvernig hún verður fyrir áhrifum af breytingum í skógrækt. „Með réttum aðferðum er hugsanlegt að við getum bundið enn meira kolefni í jarðvegi. Á hinn bóginn getur hækkandi hitastig og röng nýting skóga losað kolefni, sem bundið er í jörðu, aftur út í andrúmsloftið. Við nýtingu skóga þarf að gæta að því að kolefnið haldist í jarðveginum og standa vörð um líffræðilega fjölbreytni.“ Margvíslegar aðgerðir á döfinni Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að Norðurlönd geti aukið hlut sinn á alþjóðamörkuðum fyrir hágæðavöru. Það kalli þó á aðgerðir á ýmsum sviðum, allt frá rannsóknum og nýsköpun til pólitískrar ákvörðunartöku og auðlindastjórnunar. „Við þurfum að leysa mörg viðfangsefni samtímis. Við þurfum að minnka kolefnisspor okkar, laga grunnatvinnuvegina að breyttu veðurfari og standa vörð um auðlindir okkar. Þetta kallar á nýja tækni, ný stjórnunarkerfi og samvinnu ólíkra aðila, allt frá opinbera geiranum til norrænna fyrirtækja,“ sagði Jørgen E. Olesen að lokum. /Páll Tómas Finnsson Flest bú í dag eru rekin á kennitölum eigenda sinna og er því greiddur tekjuskattur af hagnaði búanna. Skatturinn er um 38%. En borgar sig að skipta um rekstarform til að lækka skatta? Hver er ávinningurinn og hverjir eru gallarnir? Ástæður þess að menn vilja hafa rekstur sinn í hlutafélögum eru nokkrar. Ein af þeim er takmörkun áhættu. Ef reksturinn er á kennitölu eigenda sinna þá er viðkomandi í ábyrgð fyrir öllum skuldum félagsins sama hverjar þær eru. Þar sem rekstur er áhættusamur vilja menn ekki blanda saman rekstri heimilis og fyrirtækis nema brýn þörf sé á, eins og að taka ábyrgðarskuldbindingar fyrir fyrirtækið gagnvart banka. En menn hafa þá ekki áhyggur af öðrum lánum eða skuldbindingum. Það er eðlilegt að ekki sé tekin ábyrgð á viðskiptakröfum, viðskiptalífið veit af þessari áhættu og verðleggur hana í verði vörunnar sem er verið að selja. Það er jú meginregla í viðskiptum að ef maður stendur alltaf við sínar greiðslur og sýnir viðkomandi birgja trygglyndi fær maður betra verð. Annar kostur við hlutaféla ga- formið er agi í rekstri. Aðskiln- aður heimilisreikninga og búrekstrarreikninga kemur betra skipulagi á bókhaldið og einfaldar utanumhald. En vissulega veldur þessi uppskipting breytingum. Í raun er þetta frekar hugarfarslegt vandamál, allt í einu þarf að aðskilja rekstur og heimilishald. En það er líka gott, því með því eru hagsmunir rekstrar og heimilis aðskildir. Sumum hlutum þarf að skipta eins á milli heimilis og rekstrar; eins og símreikning og rafmagnsreikning. En það er minni háttar mál. En hvenær borgar sig að færa rekstur yfir í hlutafélag? Skattur á einstaklinga er um 37,3% en hækkar upp í 40% á hæstu laun. Skattar á fyrirtæki eru hins vegar um 20%, en síðan bætist við að ef taka á út arð úr félaginu greiðist út 20% fjármagnstekjuskattur. Þannig að skattur á hagnað hlutafélaga sem greiddur er út er um 36% (dæmi; 100 þús kr. hagnaður, 20% tekjuskattur þá 80 þús eftir, síðan 20% fjármagnstekjuskattur af útgreiðslu, þá er 64 þús. eftir). Þannig að miðað við útgreiðslu á hagnaði er lítill munur á því að vera með bú á kennitölu og því að vera með bú í hlutafélagi. En það eru aðrir þættir sem spila inn í. Ein af fyrstu greinum mínum sem ég skrifaði í Bændablaðið var um hvernig fyrirtæki þróuðust. Þau væru fyrst í startfasa, síðan í uppbyggingu svo kæmi eins konar kyrrstaða og síðan enduðu þau í að úreldast eða eigendur þeirra stöðnuðu og þau dóu. Bú sem eru að stækka og eru í uppbyggingarfasa, eru fyrst og fremst þau bú sem eiga að vera í hlutafélagi. Ef byggja á upp bú og stækka þarf að byggja upp eigið fé á einn eða annan hátt. Í flestum tilfellum er það gert með því að greiða niður lán til að spara vexti. Síðan er tekið lán fyrir framkvæmdinni. Við að hafa hlutafélag um rekstur bús sem er í uppbyggingu er einungis greiddur 20% skattur af hagnaði en ekkert tekið út sem arður. En ef búið væri á einkakennitölu þyrfti alltaf að greiða 37% tekjuskatt óháð því hvort hagnaðurinn væri tekinn út í formi neyslu eða bara settur inn á bók eða til að greiða niður lán. Vissulega, ef menn eru á leið í fjárfestingar, geta þeir auðvitað byrjað að gjaldfæra einhvern kostnað af fjárfestingunni en þeir möguleikar eru takmarkaðir. Um leið og menn fara að eignfæra fjárfestingar þarf að fara að greiða skatta af henni. Þeir bændur sem eru búnir að fjárfesta og ætla ekki að gera annað í framtíðinni en að viðhalda núverandi eignum hafa litla ástæðu til að vera með búin sín í hlutafélagi. Þeir þurfa hvort sem er að greiða skatt fyrr eða síðar af hagnaðinum og hlutafélagarekstur er íþyngjandi fyrir þá sem hafa ekki reynslu af því að vera með hlutafélög. Mín reynsla er sú að þegar fólk venst því að vinna með hlutafélagaformið þá vilji það vera með rekstur í hlutafélagi. Þó að kvaðir á hlutafélögum séu meiri en að vera með rekstur á eigin kennitölu er utanumhald þægilegra þar sem ekki er verið að blanda saman persónulegum fjármálum inn í reksturinn. Vissulega er regluverk til að fara eftir sem er ekki flókið og eitthvað sem allir bókarar kunna. Jón Þór Helgason burekstur.blog.is Borgar sig að breyta búinu í hlutafélag? Breytingarnar munu bæta aðstæður í frumframleiðslu og að öllum líkindum auka sjálfbærni framleiðslukerfa á norðlægum slóðum.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.