Bændablaðið - 25.09.2014, Blaðsíða 8

Bændablaðið - 25.09.2014, Blaðsíða 8
8 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. september 2014 Fréttir Samkvæmt frétt á vef Náttúru- fræðistofnunar Íslands fundust í sumar undarlegir maðkar þegar rótað var í safnhaug í garði í Reykjavík. Maðkarnir voru afar kvikir í hreyfingum og hreinlega stukku úr lófa og voru hálir sem álar. Maðkarnir hafa ekki verið greindir til tegundar en um svokallaða slöngumaðka er að ræða. Þótt maðkar séu þarfadýr í jarðvegi er ekki víst að það gildi um þá nýju. Slöngumaðkar tilheyra ættinni Megascolecidae og eru því ekki af sama toga og ánamaðkar sem eru af ættinni Lumbricidae. Upprunaleg heimkynni slöngumaðka ná frá Austur-Asíu suður til Eyjaálfu og einhverra tegunda í Norður- Ameríku. Af slöngumöðkum er fjöldi tegunda. Þekktust er risavaxni maðkurinn í Ástralíu, „Gigant Gippsland earthworm“ sem getur orðið allt að þriggja metra langur. Slengjast til með hnykkjum Slöngumaðkarnir fundust í Þingholtunum í Reykjavík, fyrst einn og síðar fleiri. Atferli maðkanna reyndist einstakt og afar frábrugðið því sem við eigum að venjast hjá ánamöðkum. Þeir eru grannir og stinnir, slengjast til með snöggum S-formuðum hnykkjum, hlykkjast, hoppa og skoppa eins og skrykkdansarar. Þegar þeim er sleppt lausum eru þeir fljótir að hverfa niður í svörðinn. Þótt enn hafi ekki tekist að greina slöngumaðkana til tegundar er nokkuð ljóst að um er að ræða tegund af ættkvíslinni Amynthas sem rakin er til Austur-Asíu. Fjórar tegundir eru skráðar fundnar í Evrópu, taldar hafa borist þangað með innfluttum plöntum frá Asíulöndum og jafnvel náð festu í gróðurhúsum sums staðar. Brjóta hratt niður plöntuleifar Slöngumaðkar hafa einnig borist til austanverðrar Norður-Ameríku og valda þar áhyggjum því þeir geta sett allt á annan endann í vistkerfum. Þeir þykja einkar öflugir við að brjóta niður rotnandi plöntuleifar og losa þannig um næringarefnin í jarðveginum. Slíkur hraði niðurbrots er ekki æskilegur í öllum vistkerfum því margar plöntur kjósa meiri stöðugleika í jarðveginum og fá ekki þrifist við svo hraða umbyltingu. Dæmi eru um það í Ameríku að gróður hafi horfið af skógarbotnum þar sem slöngumaðkar hafa náð völdum í jarðvegi. Þá eru slöngumaðkar sagðir svo gráðugir að þeir láta ekki rotnandi plönturnar einar sér duga, heldur leggjast einnig á lifandi plöntur og eyða þeim. Á vef Náttúrufræðistofnunar segir að þetta sé enn eitt dæmið um það hvaða hættur eru fólgnar í innflutningi á pottaplöntum með rót í jarðvegi. Það er í sjálfu sér ekki vitað hvernig slöngumaðkarnir bárust hingað, heldur ekki hvernig þeim kemur til með að vegna og þá í framhaldinu haga sér. Alla vega er um að ræða kvikindi af ættkvísl maðka sem á vafasama sögu í numdum lendum vestan Atlantsála. /VH Slöngumaðkar finnast í Þingholtunum Slöngumaðkar eru grannir og stinnir. Þeir slengjast til með snöggum hnykkj- um, hlykkjast, hoppa og skoppa eins og skrykkdansarar. Mynd / Erling Ólafsson. Bændur í Jökuldal vel birgir af heyi eftir einstakt sumar „Heyskapur gekk mjög vel í sumar og mun betur en nokkur maður þorði að vona í vor,“ segir Sigvaldi H. Ragnarsson, bóndi á Hákonarstöðum í Jökuldal. Annað árið í röð var þó nokkurt kal á túnum nokkurra bæja á Jökuldal. Útlitið var því ekki gott en annað kom á daginn, einstaklega gott sumar með góðri grastíð gerði það að verkum að heyfengur er með meira móti og fara Jökuldælingar líkt og aðrir bændur á austanverðu landinu því með góðar birgðir inn í komandi vetur. Leit ekki vel út í vor Sigvaldi segir að tún við Hákonarstaði hafi verið metin á liðnu vori og reyndist kal þá vera á 50 til 60% túna á jörðinni. Þar sem mest var fór hlutfallið upp í um 80%. „Bændur voru því ekki sérlega bjarsýnir í vor, en þetta er annað árið í röð sem við búum við þetta ástand, að stór hluti túna hefur kalið,“ segir hann. Klaki var yfir túnum í hluta Jökuldals stóran part síðasta vetrar, eða frá því fyrir áramót og langt fram í mars. Kal var bundið við nokkra bæi að sögn Sigvalda, þá sem standa fremur hátt og lentu inni í veðurskilum þar sem ýmist snjóaði, rigndi eða krapaði. Á þeim svæðum hefði svell verið yfir jörðu lengi með þeim afleiðingum að tún voru kalin á stórum parti í vor. „Það fóru nokkrir bæir hér um slóðir illa út úr þessu árferði og því var útlitið langt í frá gott,“ segir Sigvaldi sem er þakklátur góðu sumri og góðum heyfeng. Sóttu heyskap í aðrar sveitir Sumarið aftur á móti má heita einstakt, það var sérlega gott og gras spratt sérlega vel. Uppskeran var í takt við veðurfarið, mjög góð. Sigvaldi segir að þeir bændur sem lentu í hvað mestu kali hafi sótt heyskap lengra til, út í Jökulsárhlíð og jafnvel austur á Hérað. Þeir sem lengst sóttu stóðu í miklum heyflutningum með tilheyrandi kostnaði. Þeir sem mest hafi flutt heim á hlað óku hátt í tvö þúsund kílómetra fram og til baka með hey á flutningabílum. „En það gildir bara gamla orðtækið; að duga eða drepast, og auðvitað deyjum við ekki ráðalausir, Jökuldælingar,“ segir Sigvaldi. /MÞÞ „Það gildir bara gamla orðtækið; að duga eða drepast, og auðvitað deyjum við ekki ráðalausir, Jökuldælingar,“ vori. Hann sótti heyskap m.a. í Jökulsárhlíð og þegar upp var staðið að honum loknum er heyfengur með mesta móti. Mynd / MÞÞ Sala á kindakjöti í ágúst síðastliðinn var 642 tonn, en í sama mánuði 2013 var salan 621 tonn. Miðað við sama ársfjórðung og 2013, júní-ágúst, var salan 3,4% meiri en 2,4% minni miðað við 12 mánaða tímabil. Markaðshlutdeild kjöts á tólf mánaða tímabili, ágúst til september, skiptist þannig að alifuglakjöt er í 1. sæti (32,1%), kindakjöt í 2. sæti (26,7%), svínakjöt í þriðja (24,3%), nautakjöt í fjórða (14,7%) og hrossakjöt í fimmta (2,3%). Heildarsala á innlendu kjöti dróst saman um 4,3% á tímabilinu. Allar ofangreindar tölur miðast við heildsölu afurðastöðva á innlendu kjöti. Innflutt kjöt er ekki talið með, en ekki var flutt inn neitt lamba- eða kindakjöt fyrstu sjö mánuði ársins 2014. Hins vegar er verulega aukinn innflutningur á öðru kjöti, einkanlega nautakjöti. Útflutningur var 73 tonn í ágúst, samanborið við 131 tonn í ágúst 2013. Með útflutningi er heildarafsetning lamba- og kindakjöts 2% minni fyrstu átta mánuði ársins 2014 miðað við sömu mánuði 2013. Birgðir í ágústlok, við upphaf sláturtíðar, voru 1.304 tonn, eða 239 tonnum meira en í lok ágúst 2013. Þar af eru 1.140 tonn af framleiðslu ársins 2013. /VH Sala á innlendu kjöti hefur dregist saman um 4,3% á ársgrundvelli RÚV og Tómasi J. Knútssyni veitt verðlaun á Degi íslenskrar náttúru Á Degi íslenskrar náttúru hinn 16. september síðastliðinn veitti umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, RÚV – hljóðvarpi og sjónvarpi, fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Við sama tækifæri veitti hann Tómasi J. Knútssyni, náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Tómas stofnaði Bláa herinn, sem eru frjáls félagasamtök sem hafa starfað síðan árið 1995 að umhverfisvernd í hafinu. Blái herinn hefur unnið brautryðjendastarf við hreinsun í höfnum landsins með óeigingjörnu sjálfboðastarfi. Má þar nefna að yfir 1.200 tonn af rusli hafa verið hreinsuð úr náttúrunni og komið til endurvinnslu. Til fjölmiðlaverðlaunanna voru eftirtaldir tilnefndir: Gunnþóra Gunnarsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, fyrir greinaflokkinn Útivist og afþreying þar sem sjónum var beint að áhugaverðum náttúruperlum í öllum landshlutum á hnitmiðaðan, einfaldan og fallegan hátt. Just.In.Iceland fyrir að nýta sér netið og gagnvirkni þess til að kynna sérstöðu Íslands fyrir umheiminum með því að skapa stafrænan vettvang til að birta og deila fagmannlega teknum ljósmyndum af íslenskri náttúru og lífríki. RÚV, hljóðvarp og sjónvarp fyrir ítarlega og vandaða umfjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum á liðnu ári. Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir: „Umræða og umfjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum hefur verið eins og rauður þráður í upplýsingamiðlun fjölmiðilsins [RÚV] á síðastliðnum tólf mánuðum, mikil að vöxtum, alhliða, upplýsandi og gagnrýnin. Öll mikilvægustu sjónarmið málanna hafa komið fram en ekki verður gert upp á milli einstakra þátta, RÚV er tilnefnt til verðlaunanna í einu lagi. Er það niðurstaða dómnefndar að sú umfjöllun samantekin verðskuldi fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2014 enda hafi mikilvægum hagsmunum og réttindum almennings hvað snertir náttúruna og umhverfið verið gerð ítarleg skil frá öllum hliðum málanna.“ /smh

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.