Skírnir - 01.09.1994, Blaðsíða 136
406
PÁLL SKÚLASON
SKÍRNIR
Eina skilyrðið fyrir því að umrædd upplýsing geti átt sér stað er frelsið -
og er þá átt við frelsið í sinni skaðlausustu mynd, þ.e.a.s. frelsi til
óskertrar notkunar skynseminnar á opinberum vettvangi. Samt sem áður
kveður við úr öllum áttum: „rökrœðið ekki.“ Liðsforinginn segir: „rök-
ræðið ekki, heldur gerið æfingarnar.“ Fjármálaráðherrann segir: „rök-
ræðið ekki, heldur borgið.“ Presturinn segir: „rökræðið ekki, heldur trú-
ið,“ (aðeins einn af ráðamönnum þessa heims segir: rökræðið eins og
ykkur lystir, um hvað sem ykkur lystir, en hlýðið!). Alls staðar eru frels-
inu settar hömlur. En hvaða takmarkanir standa í vegi fyrir upplýsing-
unni? Hverjar eru henni ekki einungis skaðlausar, heldur jafnvel til
framdráttar? - Svar mitt er: notkun skynseminnar á opinberum
vettvangi verður ávallt að vera frjáls, það er aðeins þessi notkun skyn-
seminnar sem getur fært okkur upplýsingu.3
Kant skýrir svo hvað hann á við með notkun skynseminnar á
opinberum vettvangi. Ég á við, segir hann, „að sérfróður maður
beiti skynsemi sinni frammi fyrir almenningi, þ.e. lesendahópi
sínum".
Áður en við lítum nánar á þessa notkun skynseminnar á hin-
um opinhera vettvangi, er rétt að benda á að Kant er að lýsa
ákveðnum hugsunarhætti sem á rætur að rekja til þeirra sem
leggja stund á vísindi og fræði. Sögulegar rætur upplýsingar liggja
því hjá Grikkjum til forna þar sem samfélag fræðimanna verður
til um 400 f. Kr. Þetta litla samfélag lifði í ýmsum fræðasetrum
kringum Miðjarðarhafið öldum saman og fór svo að blómstra í
klausturskólum á síðmiðöldum og síðan í háskólum um alla Evr-
ópu. Loks er eins og þetta óformlega fræðimannasamfélag skynji
að vísindin og fræðin eigi erindi við almenning og að fræðileg
þekking skipti sköpum fyrir þjóðfélagið. Þá rennur upp öld upp-
lýsingarinnar - l’áge des lumiéres, Aufklárung, Enlightenment - í
Evrópu og trúin á gildi þekkingar og á mátt mannlegrar skyn-
semi verður kjölfestan í menningu Frakka, Þjóðverja og Breta og
breiðist smám saman út þaðan til annarra þjóða bæði austan hafs
og vestan.
Veitum líka öðru eftirtekt: Þótt upplýsingaröld gangi í garð
getur þess verið langt að bíða að samfélagið allt verði upplýst.
3 Skírnir, haust 1993, s. 379-381. Ráðamaðurinn sem Kant vísar hér til er að sjálf-
sögðu Friðrik mikli sem hið menntaða eða upplýsta einveldi er gjaman kennt við.