Skírnir - 01.09.1994, Blaðsíða 224
494
RÓBERT H. HARALDSSON
SKÍRNIR
orðalag en tekur til við að greina eðlisþætti hins harða heims. Hann
varpar fyrst fram þeirri almennu en lítt hugnanlegu tilgátu að engu sé
líkara en allt skipulag alheimsins standi gegn því að maðurinn öðlist
hamingju, líkt og ekki hafi „verið ætlunin að maðurinn yrði hamingju-
samur, þegar „sköpunarverkið" var fyrirhugað“ (23).2 Síðar í sama kafla
greinir hann þrjár uppsprettur mannlegra þjáninga. I fyrsta lagi nefnir
hann líkamann, sem er ofurseldur upplausn og eyðileggingu; í öðru lagi
umheiminn, sem á það til að æða gegn okkur með yfirþyrmandi og mis-
kunnarlausum eyðileggingaröflum; loks samskipti okkar við aðra menn,
sem einkennast af togstreitu og valdabaráttu (23). Okkur nægir að leiða
hugann að sjúkdómum, náttúruhamförum og styrjöldum til að sann-
reyna að þær þrjár uppsprettur, sem Freud nefnir, sjái mönnum fyrir
ómældri þjáningu. Enda hamrar hann á því í fyrri hluta bókarinnar að
hann hafi ekkert nýtt fram að færa um hamingjuleit manna og viðskipti
þeirra við hinn harða heim og hann minnir lesendur sína oft á að þeir
kannist í reynd við það sem hann sé að segja (57).
Freud lætur hins vegar ekki staðar numið við þessa hversdagslegu
greiningu. Hann leiðir niðurstöður sálgreiningar smám saman inn í um-
ræðuna og myndin heldur áfram að dökkna. Áður en yfir lýkur hefur
hann lýst þessum þremur uppsprettum þjáningarinnar þannig að þær
virðast háskalegri og erfiðari viðureignar en ætla mátti við fyrstu sýn.
Þær ógnir sem manninum stafar af eigin líkama takmarkast ekki við
sjúkdóma og erfðagalla heldur býr hann yfir sjálfstortímingarhvöt. Eftir
nánari skoðun kemst Freud ennfremur að því að náttúran ógni okkur
ekki einungis með eldgosum og veðurofsa heldur starfi hún í leynum í
sjálfri vörn mannsins gegn náttúrunni, siðmenningunni (31 og víðar).
Loks bendir hann á að rætur mannvonsku sé ekki að finna einvörðungu í
ytri þáttum svo sem misheppnuðu uppeldi, gallaðri samfélagsgerð eða
takmörkuðum lífsgæðum; maðurinn hafi „eðlislæga hneigð til „illsku“,
árásargirni, eyðileggingarfýsnar og sömuleiðis til grimmdar" (60, letur-
breyting er mín). Og hann nýtur þess í þokkabót að auðmýkja, kvelja og
drepa (52). Sjálfið gleður sig „við að hrella utanaðkomandi" menn (64);
því líður ekki vel ef það þarf að segja skilið við þá nautn sem stafar af því
að árásarhneigðin „lætur gamlan almættisdraum sjálfsins rætast“ (62).
Freud er vondaufur um að siðmenningunni takist að kljást farsællega við
2 Freud gerir hér - og raunar víðar - ráð fyrir að hamingja felist í vellíðan en böl
í vanlíðan. Þá kenningu hafa margir dregið í efa. Einnig hafa margir heimspek-
ingar bent á að ef sá skilningur er lagður í hamingjuhugtakið felist markmið
lífsins ekki í hamingjuleit. Kant hélt því t.d. fram að markmið mannsins fælist
ekki í því að öðlast hamingju heldur að verða siðferðilega góð manneskja.
Enda þótt ég ræði það ekki sérstaklega í þessari grein tel ég að túlkun mín á
lífsskoðun Freuds sýni að hann hafi ekki verið eins eindreginn nautnasinni
(„hedonisti") og rit hans virðast oft gefa til kynna.