Skírnir - 01.09.1994, Blaðsíða 253
SKÍRNIR
HAMINGJAN, SIÐFERÐIÐ, LÖGMÁLIÐ
523
það er alrangt að frumspeki og verufræði séu meginstoðir meginlands-
spekinnar. Vissulega má benda á meginlandsspekinga sem settu frum-
spekina í öndvegi. Nægir að nefna Arthur Schopenhauer, einhvern mesta
svartagallsrausara allra tíma. Að hans áliti er heimurinn eitt allsherjar
sjónarspil, sett á svið af lífsviljanum blinda.6 En margir meginlandsspek-
ingar hafa lýst frumspekinni stríði á hendur. Þann flokk fylla menn á
borð við Friedrich Nietzsche og Jacques Derrida.7
Og helsti lærisveinn Hamanns, Johann Gottfried Herder, hefur mér
vitanlega ekki skrifað um hin hinstu rök og telst því ekki frumspekingur.
Samt ber að flokka hann með meginlandsspekingum. Lítum sem
snöggvast á málháttarhyggju hans: Ef ekki er hægt að greina sálina frá
málinu getum við ekki dregið skarpa markalínu milli einstaklingsvitund-
ar og þjóðtungu. Við hugsum að sjálfsögðu á einhverri tiltekinni þjóð-
tungu. En ef svo er þá er einstaklingurinn hluti þjóðarheildarinnar, segir
Herder.8 Og þá er freistandi að líta á þjóðmenninguna sem mikilvægustu
greiningareiningu heimspekinnar, ekki vitundina eins og heimspekingar
höfðu talið síðan á dögum Descartes.
Ég held því fram að menningargreining skipi jafn háan sess hjá meg-
inlandsspekingum og málgreiningin hjá rökgreiningarsinnum. Ihugun
um eðli menningarinnar er því grunnstuðull meginlandsspekinnar, ekki
frumspeki og verufræði. Menningarhyggja meginlandsspekinnar á sér
rætur í heimspeki Hegels. Hann vill eins og Herder steypa sjálfsvitund-
inni af stalli og setja í hennar stað helga þrenningu heimspeki, trúar og
listar. Þessum þrem menningarfyrirbærum slær Hegel í einn bálk og
nefnir „óskilyrtan, altækan anda“ („Absoluter Geist“). Til að skýra þessa
kenningu skulum við líta á þá staðhæfingu Hegels að allt sé af andanum
fætt (andinn er altækur). Ef þessi staðhæfing er sönn þá er hún óskilyrt,
staðreyndir um sálarlíf Hegels eða ytri aðstæður hans breyta engu um
sannleiksgildi hennar. Og staðhæfingar eru ljóslega ekki efnishlutir, þess
vegna eru heimspekileg sannindi hluti „óskilyrts anda“.
Því verður ekki neitað að kenning Hegels um andlegt eðli veruleik-
ans er frumspekileg. Samt er mjög vafasamt að kalla kennismiðinn frum-
speking með stórum staf. Hann reynir vissulega að bjarga frumspekinni
frá gagnrýni þeirra Humes og Kants. En hann setur hana ekki á hástall
6 Arthur Schopenhauer: Verden som vilje og forestilling: Arthur Schopenhauers
hovedverk. (í úrvali J.F. Bjelke, þýð. úr þýsku). Osló 1988.
7 Sjá til dæmis Friedrich Nietzsche: „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skiln-
ingi.“ (Þýtt úr þýsku). Skírnir vor 1993, bls. 15-34. Jacques Derrida: „Form-
gerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna“. (Þýð. úr frönsku). Spor í
bókmenntafrœði 20. aldar. Ritstjórn Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir
og Kristín Viðarsdóttir. Reykjavík 1991, bls. 129-152.
8 Charles Taylor skrifar um Herder í riti sínu Hegel. Cambridge 1975, bls. 17-
33.