Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.07.2015, Blaðsíða 46
46 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 5.7. 2015
Menning
Þ
að er merkilega mikill munur á því
milli landa hver kanónan í bók-
menntum telst vera. Í löndum
þar sem frægasta skáldið er til
dæmis leikskáld er mun meiri
menning fyrir því að skrifa og lesa leikrit, en
á Íslandi virðist skáldsagan vera öllu heil-
agari,“ segir Valgerður Þóroddsdóttir, annar
stofnandi Meðgönguljóða. „Okkar markmið er
að gefa þeim bókmenntum pláss sem komast
ekki að annars staðar, en eru samt svo já-
kvæð innspýting í bókmenntalífið.“
Meðgönguljóð hafa kynnt til leiks þrettán
ljóðskáld frá fyrstu útgáfu á vordögum 2012.
Nú hyggst Valgerður færa út kvíarnar með
nýju forlagi, Partus, sem mun auk ljóðlistar
sinna útgáfu smásagna, í ritröðinni Meðgöng-
umál, og fræðilegra texta, í ritröðinni Með-
göngufræ.
Eins aðgengileg og kaffi
Hvaða þýðingu hefur „meðganga“ í öllum
þessum titlum?
„Hugmyndin bak við Meðgönguljóð var
meðal annars að gera ljóð aðgengilegt list-
form og ódýrt. Í raun eins aðgengilegt og
kaffibolla,“ segir Valgerður. „Sagan segir að
maður hafi komið inn á kaffihús og pantað
„meðgöngubolla“, og hefur þá verið að hugsa
sér „take away“-bolla eða kaffi til að taka
með sér. Við viljum gefa út ljóðabækur sem
fólk getur tekið með sér eins léttilega og
kaffibolla.
Maður getur líka snúið þessu við og hugsað
sér að skáldið, sem hlúir að ljóðunum og finn-
ur þau vaxa inni í sér, sé að ganga í gegnum
eins konar meðgöngu.“
Boltinn rúllar og rúllar
En er ekki mikil menning fyrir ljóðlist á Ís-
landi?
„Jú, vissulega, en nýjum skáldum er sjald-
an gert hátt undir höfði, þótt það sé mjög
virk ljóðlistarsena í gangi. Það virðist stund-
um eins og það sé ætlast til þess að maður sé
búinn að skapa sér sess í menningarheiminum
áður en maður fær tækifæri til þess að gefa
út.
Stóru forlögin leggja ekki heldur mikla
áherslu á að uppgötva nýjar raddir. Því miður
virðist takmarkað rými í bókmenntaheiminum
fyrir ljóð, smásögur eða almennt önnur rit-
verk en skáldsögur. Eins eru fræðilegir
textar oftast bundnir við tímarit í tengslum
við háskóla en ganga ekki beint manna á
milli, eins og við viljum gjarnan sjá.“
Hvernig kom serían Meðgönguljóð til á sín-
um tíma?
„Við byrjuðum á því að prufa okkur áfram,
útpældara var það ekki. Við vorum þrjú til að
byrja með, Kári Tulinius, Sveinbjörg Bjarna-
dóttir og ég. Í grunninn fannst okkur nútíma-
ljóðlist ekki nógu aðgengileg, jafnvel þeim
sem hafa virkilegan áhuga á henni. Okkur
fannst vanta einhvers konar brú milli til-
raunastarfsemi ungskálda og útgáfuheimsins.
Við ákváðum því að framleiða bækur sem
væru ódýrar en jafnframt eigulegar í von um
að gefa nýjum röddum olnbogarými. Við byrj-
uðum á að gefa út verk sem við Kári höfðum
verið að vinna að hjá forlaginu Stellu, sem
Sveinbjörg sér um, og móttökurnar voru slík-
ar að við ákváðum að stofna nýtt forlag í
kringum starfsemina og fá fleiri skáld til liðs
við okkur. Síðan þá hefur þetta verið eins og
snjóbolti sem stækkar og stækkar eftir því
sem hann rúllar áfram.“
Hvernig veljið þið hvaða skáld þið gefið út?
„Hver sem er getur sent okkur handrit. Við
tökum allt til greina sem til okkar berst og
kappkostum að hafa hópinn sem fjölbreytt-
astan. Þessi þrettán skáld sem hafa gefið út
hjá okkur hingað til eru með mjög fjöl-
breyttan stíl, sem ég fagna.“
Hvaða skáld er nýjast af nálinni?
„Elías Knörr er næstur í röðinni.
Hann er mjög spennandi skáld, ekki síst
vegna þess hve nýja og ferska nálgun hann
hefur á tungumálið. Hann kemur að málinu á
eigin forsendum og úr verður einstaklega fal-
leg ljóðlist sem kemur sífellt á óvart. Hann er
núna að ganga í gegnum ákveðið ferli með
ritstjóra, eins og öll skáldin gera, og bókin
hans kemur út í haust.
Síðast gáfum við út í mars á þessu ári, en
það voru þau Þórður Sævar Jónsson, Krista
Alexandersdóttir og Soffía Bjarnadóttir. Það
eru enn til nokkur eintök af þeirra bókum í
bókabúðum.“
Haltu kjafti og skrifaðu
Hvað fleira hefur drifið á daga Meðgöngu-
ljóða?
„Við höfum staðið fyrir upplestrum af ýms-
um toga hér og þar í bænum og stöndum nú
reglulega fyrir viðburði sem við köllum
„Haltu kjafti og skrifaðu“, þar sem fólk kem-
ur einfaldlega saman, þegir og skrifar.
Stemningin er mjög óformleg og fólk þarf
ekki að lesa upp það sem það skrifar frekar
en það vill. Mér finnst þessi viðburður vera
svo táknrænn og setja ákveðinn tón sem er
fullkomlega í anda Meðgönguljóða: það að
koma hlutum í verk. Við erum ekki að þessu
til þess að virðast vera eitthvað. Það snýst
ekki allt um að láta sjá sig og sjá aðra, eins
og sagt er, eða að mæta á viðburði og skála í
rauðvíni. Þó við gerum það vissulega líka. Sé
ætlunin á annað borð að endast í þessum
bransa þarf mikla æfingu og vandvirkni. Mað-
ur þarf að þora og gera. Þá fara hlutir fyrst
að gerast.“
Valgerður Þóroddsdóttir er frumkvöðull í íslenskri útgáfustarfsemi og var ein þeirra sem stofnuðu forlagið Meðgönguljóð. Þrettán skáld hafa gefið út bók hjá forlaginu síðan það hóf göngu sína árið 2012.
Morgunblaðið/Eggert
ÓLÍKUM BIRTINGARMYNDUM BÓKMENNTA GEFIÐ OLNBOGARÝMI
Næst eru það smásögurnar
MEÐGÖNGULJÓÐ ERU FORLAG SEM SÉRHÆFIR SIG Í ÚTGÁFU UPPRENNANDI LJÓÐSKÁLDA. VALGERÐUR ÞÓRODDSDÓTTIR, EINN STOFNENDA
OG NÚVERANDI FRAMKVÆMDASTJÓRI MEÐGÖNGULJÓÐA, SEGIR TÍMA TIL KOMINN AÐ FÆRA ÚT KVÍARNAR, EN NÚ ER Í BÍGERÐ AÐ STOFNA
TVÆR NÝJAR RITRAÐIR, MEÐGÖNGUFRÆ OG MEÐGÖNGUMÁL, OG BEINA ÞANNIG SVIÐSLJÓSINU EINNIG AÐ FRÆÐITEXTUM OG SMÁSÖGUM.
Matthías Tryggvi Haraldsson mth@mbl.is
* Stundum er eins og maður eigi aðskapa sér sess áður en
maður fær að gefa út.
Áhugasamir um Meðgönguljóð geta mætt á við-
burðinn „ljóðabíó“ í Bíó Paradís kl. 17:00 fimmtu-
daginn 9. júlí, en þar verður að sögn Valgerðar
hægt að fá góða yfirsýn yfir þá fjölbreyttu flóru
ljóða sem forlagið hefur gefið út undanfarin ár.