Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2001, Side 29
Manngildiskenning Helmuts Thielicke
ans verði seint full sönnuð, þá sé það vissa þeirra í hans hópi sem taka þá
kenningu gilda að þeir þurfi ekki að óttast neitt sem genamengisáætlunin,
HGP, hafi að geyma. Aðrir sem taka í sama streng benda þó á, að ekki megi
vanmeta áhrifamátt hinnar nýju þekkingar og tækni þegar litið er til hvaða
óæskilegar félagslegar afleiðingar kunni að fylgja á eftir. Mýtan um genin
bendi á líkur á margvíslegum tengslum á hinum félagslega vettvangi milli
gena, afbrota, stéttaskiptingar, og kynþáttamisréttis.
II
Rannsóknir í líffræði og erfðafræði sem leitt hafa til kortlagningar á gena-
mengi mannsins marka einstök tímamót sem segja má að sé hápunktur þró-
unar er komst á skrið fyrir tuttugu til þrjátíu árum. Á þessu tímabili hefur
tækni á sviði lífvísinda fleygt fram og gert mönnum kleift að ráða betur en
áður við ýmsar þær ógnir sem steðja að lífi manna og heilsu. En tæknivæð-
ingin hefur jafnframt skapað erfið siðferðileg úrlausnarefni; margt af því sem
hægt er að gera orkar tvímælis eða kann að vera beinlínis rangt. Framvinda
þessarar öru þróunar, fyrsta glasabarnið fæddist 1978, hefur opnað nýtt
fræðasvið í siðfræði sem nefnt hefur verið lífsiðfræði (bioethics; bioetik).
Lífsiðfræðin hefur unnið sér fastan sess jafnt í guðfræðilegri siðfræði sem
heimspekilegri. Almennum orðum má segja að þróun í lífvísindum og tækni
hafi verið svo ör að siðfræðin hefur mátt hafa sig alla við til að bregðast við
á málefnalegan hátt.
Ekki alls fyrir löngu vék dálkahöfundur Morgunblaðsins að því hversu
veika stöðu almenn siðfræði mætti búa við í síbreytilegum heimi nýrrar ald-
ar vísinda og tæknvivæðingar. Öðrum vísindum fremur væru það lífvísindin
sem vektu áleitnar spurningar fyrir siðfræðina. Dálkahöfundurinn lét í veðri
vaka að siðfræðin ætti engin svör. Henni væri lagið að efna til gagnrýninnar
umræðu um allt milli himins og jarðar, en sú umræða breytti engu, þar eð sið-
fræðin fengist ekki við staðreyndir, sem einar skiptu máli í hinu upplýsta sam-
félagi nútímans.
í sem skemmstu máli er siðfræðinni ekki brugðið þótt sumir telji að dag-
ar hennar innan vísindanna kunni senn að vera taldir. Siðfræðin spyr á móti
hvort skoðanamótendur og hugmyndasmiðir nútímans kunni til verka, þegar
þeir láta undir höfuð leggjast að spyrja sig sjálfa, hvað verður um manneskj-
una, hvert verður hlutskipti hennar í þeim babelsturni vísinda og tækni sem
reistur skal sem fyrrum til himins.
Það er sammerkt með hinum ýmsu viðfangs- og úrlausnarefnum lífsið-
fræðinnar að þau snerta einstaklinginn oftar en ekki á mjög persónulegan hátt.
27