Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2002, Blaðsíða 28
Haraldur Ólafsson
um flesta hluti inn á ótroðnar slóðir. Og það varð ekki hjá því komist að
kynna sér hvað franski stærðfræðingurinn og trúvarnarmaðurinn Blaise
Pascal hafði að segja á öld hins mikla endurmats.
Ég þekkti nokkuð til tveggja helstu verka hans og átti heildarútgáfu á
verkum hans í einu bindi. Þegar ég fór svo fyrir allnokkru að lesa rækilegar
rit hans til varnar Port Royal hreyfingunni og útleggingum Jansens biskups
í Ypres á kenningum heilags Ágústínusar um náð og útvalningu og svo
Hugsanirnar, Pensées, þá datt mér undarlega ofit í hug Hallgrímur Pétursson.
Og ég fór að velta fyrir mér þessari spurningu: Hvað veldur því að séra
Hallgrímur kemur mér í hug við að lesa rit Pascals? Var það eitthvað í ritum
Pascals sem minnti á skáldverk prestsins í Saurbæ? Nálguðust þeir trúna á
svipaðan hátt svo gripið sé til nútímalegs orðalags?
Þessir tveir menn uxu úr ákaflega ólíkum jarðvegi. Pascal var af velstæðri
ætt embættismanna og ólst upp á heimili þar sem faðir hans og vinir hans
ræddu um stærðfræði og vísindi síns tíma. Faðir hans hafði mikinn áhuga á
stærðfræði og og var í vinfengi við helstu stærðfræðinga Frakklands. Blaise
Pascal lærði latínu og grísku hjá föður sínum en sagan segir að hann hafi
uppgötvað stærðfræðina tilsagnarlaust, og innan við tvítugt hafði hann
skipað sér á bekk með fremstu stærðfræðingum Frakklands. Hann lagði
margt merkilegt af mörkum í flatarmálsfræði og rúmfræði, fann upp
reiknivél og skipulagði fyrstur manna strætisvagnaferðir um Parísarborg.
Hann átti einnig þátt í að móta líkindareikninginn.
Allt þetta hefði nægt til að halda nafni hans á lofti, en þó er það reynsla
hans aðfaranótt 24. nóvember árið 1654 sem mestu réði um að hans er jafn-
an minnst sem eins af merkilegustu persónuleikum sautjándu aldarinnar. Á
þeirri nóttu varð hann gagntekinn af návist hins guðlega og fylltist bjargfastri
vissu um sannindi trúarinnar og tilveru Guðs almáttugs sem Jesús Kristur
hafði boðað. Hann ákvað að verja lífi sínu til að hlýðnast boðum Guðs og
semja rit til varnar kristindómnum, rit sem jafnframt skyldi sannfæra skyn-
sama og menntaða menn um hve mikilvægt væri að játast undir boðskap
Krists.
Hallgrímur Pétursson ólst upp í grennd við biskupsstól Norðlendinga að
Hólum, dvaldist um hríð í Kaupmannahöfn, nam járnsmíði, gekk að eiga
konu komna úr herleiðingu til Norður-Afríku, konu sem vissi ekki einu sinni
fyrir víst hvort fyrri maður hennar væri látinn þegar hún tók saman við
Hallgrím. Það kom þó í ljós þegar þau komu til Islands að maður hennar var
fallinn frá. Eftir hokur og ýmsa armæðu var Hallgrímur loks vígður til
Hvalsnesprestakalls og fékk síðar Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann var
skáld gott og orti jöfnum höndum veraldleg kvæði, tækifærisljóð og lausa-
26