Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2002, Side 31
Séra Hallgrímur og Pascal
reiknivélina og strætisvagnaferðirnar í París, sérfræðingar í frönskum bók-
menntum hefðu skrifað um stílinn á Sveitabréfunum en hann hefði vart verið
settur á stall með helstu huguðum sautjándu aldarinnar ef miðarnir með
Hugsunum hefðu ekki fundist að honum látnum. Líf hans og afrek taka mið
af þessu ófullgerða verki. Ástæðan er sú hve frumlegar hugsanir hans eru og
hvernig hann setur þær fram. Hann verður ekki aðeins fyrir trúarlegri reynslu
sem beinir hugsun hans inn á nýjar brautir. Hann réði yfir hæfileika til þess
að gera þessa reynslu að uppistöðu í vörn fyrir kristindóminn, vörn sem
byggðist á því að sýna fram á sannindi hans og mikilvægi fyrir hvert einasta
mannsbarn. Þrátt fyrir efasemdir um að allir séu útvaldir, þá er það skylda
hvers kristins manns að lifa eftir þeim boðum sem Jesús flutti mannkyni.
Því er ekki ólíkt farið með Hallgrím Pétursson. Andlegur og veraldlegur
kveðskapur hans nægir meira en vel til að telja hann meðal höfuðskálda
íslendinga á sautjándu öld. Sálmurinn um dauðans óvissan tíma nægir einn
til að hann vantar ekki í neitt úrvalsrit íslensks skáldskapar. Fyrir nokkrum
árum var hér um hríð sænskur bókmenntamaður, sjálfur skáld og rithöfund-
ur. Hann las íslensku að nokkru ráði en vildi gjarnan lesa Passíusálmana og
bað mig að skýra fyrir sér ýmis atriði. Ég benti honum þá á sálminn Allt eins
og blómstrið eina. Þegar við höfðum farið nokkrum sinnum yfir sálminn og
hann taldi sig skilja orð og hugmyndir þá kvaðst hann heillaður af skáld-
skapnum, samiíkingunum og hljómi setninganna. Þetta var í hans huga stór-
fenglegur skáldskapur. En með Passíusálmunum settist Hallgrímur á fremsta
bekk meðal helstu skálda þjóðarinnar fyrr og síðar.
Ég hef nú sagt sitthvað um þessa tvo menn. Mér er ljóst að þetta eru ekki
annað en lauslegar hugleiðingar sprottnar úr vangaveltum um allt annað en
hvort þeir ættu eitthvað sameiginlegt. Trúna eiga þeir vissulega sameigin-
lega, hinn lúterski prestur og hinn katólski vísindamaður. Lengra nær það
ekki. Báðir eru þeir þekktir fyrir að hafa sett saman höfuðrit á sinni tungu.
Þó er þar munur á. Varla lesa aðrir verk Pascals en svokallaðir menntamenn.
Það er næsta ótrúlegt að alþýða manna þekki til verka hans né hafi brot úr
þeim á hraðbergi í daglegu máli.
Öðru máli gegnir um séra Hallgrím. Um þriggja alda skeið hefur almenn-
ingur þekkt til skáldskapar hans og vitnað til orða hans við alls konar tæki-
færi. Þjóðin kunni ákvæðavísur honum kenndar, skopkvæði og meinleg svör
í vísum, heilræðavísurnar, útfararsálminn mikla, og í Passíusálmunum var
ekki einungis píslarsagan sögð heldur er þar að finna vísdóm af ýmsu tagi,
að ógleymdum bænaversum sem farið hefur verið með kvölds og morgna um
langan aldur af þorra almennings í landinu. Ef nokkurt skáld íslenskt hefur
orðið þjóðareign þá er það séra Hallgrímur.
29