Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2002, Blaðsíða 70
Arnfríður Guðmundsdóttir
einnig um stíl að taka tillit til breiðs lesendahóps, notkunar í helgihaldi og
íslenskrar biblíuhefðar.3
Ný biblíuþýðing er Biblía nýrrar aldar og í ljósi þess að hér er um svo
kallaða „kirkjubiblíu“ að ræða, eins og áréttað er í erindisbréfi þýðingar-
nefndar Gamla testamentisins, mun hún eiga eftir að gegna veigamiklu
hlutverki í helgihaldi komandi kynslóða. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að
það velti á því hvort tekið verði tillit til jafnréttissjónarhornsins við lokafrá-
gang textans eða ekki, hvort þessi biblíuþýðing verður sú kirkjubiblía sem
henni er ætlað að verða. Ástæðan er sú að það verður nú æ algengara að fólk
(bæði konur og karlar) sem notar Biblíuna frá 1981 (sem samanstendur að
stærstum hluta af þýðingunni frá 1912) í helgihaldi, sér sig nú knúið til að
færa texta hennar á málfar beggja kynja. Sé ég ekkert í erindisbréfinu sem
mælir gegn því að fylgt sé hugmyndinni um málfar beggja kynja við þýðing-
arstarfið, þvert á móti. Hins vegar þykir mér miður að ekki sé fjallað sérstak-
lega um kynjasjónarhornið í þessu erindisbréfi. Ef ný þýðing verður lítið
sem ekkert frábrugðin gömlu þýðingunni hvað kynjað málfar snertir, þá spái
ég því að áfram fjölgi þeim sem telja óhjákvæmilegt að víkja frá ríkjandi
biblíuþýðingu. Það liggur í augum uppi að þetta er sérstaklega mikilvægt
hvað varðar texta sem tilheyra textaröðum íslensku þjóðkirkjunnar og
prédikað er út frá í kirkjum landsins hvern sunnudag, sem og þá texta aðra
sem prentaðir eru í handbók íslensku þjóðkirkjunnar og notaðir eru við hinar
ýmsu kirkjulegu athafnir, svo sem skírnir, fermingar, hjónavígslur og útfarir.
Þegar handbókin, sem nú er í gildi innan þjóðkirkjunnar, kom út árið
1981 voru ritningartextarnir sem birtust í henni teknir úr nýrri biblíuútgáfú.
Þetta var gert samkvæmt samþykkt kirkjuþings frá 1980. Ég tel óhugsandi
að slíkt verði aftur gert þegar ný handbók kemur út, nema í nýrri biblíuþý-
ingu sé tekið tillit til óska um endurskoðun á kynjuðu málfari Biblíunnar. Ég
vil í þessu sambandi leyfa mér að vitna í bréf sem undirrituð, í hlutverki for-
manns jafnréttisnefndar kirkjunnar, ritaði þýðingarnefnd Gamla testament-
isins í byrjun maímánaðar árið 2000. í bréfinu segir meðal annars:
Jafnréttisnefnd kirkjunnar vill hér með fara þess á leit við þýðingarnefnd
Hins íslenska Biblíufélags að við þýðingu Gamla testamentisins, sem nú
er unnið að, verði tekið tillit til ákvæða jafnréttisáætlunar kirkjunnar um
endurskoðun málfars út frá jafnréttissjónarmiði ...
í framhaldinu eru nefnd nokkur dæmi, bæði úr Gamla og Nýja testamentinu,
í þeim tilgangi að varpa ljósi á málefnið. Síðan segir í niðurlagi bréfsins:
3 Erindisbréfið birtist í heild sinni í Ritröð Guðfrœðistofnunar 4. hefti, 1990, bls. 8.
68