Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2002, Page 151
Andmæli við doktorsvörn Sigurjóns Arna Eyjólfssonar
vinnulags hans. Þátttaka í námskeiðum og prófum er skylda. Doktorsefnið
verður að gera tillögur að verkefni, færa rök fyrir ýmsum faglegum ályktun-
um og vinnulagi. Hann eða hún verður að sæta faghandleiðslu, vinnustjórn
og lúta aga af ýmsu tagi og sýna færni, frumleika og fagmennsku. Eftir að
doktorsefnið hefur lagt fram rit sitt verður það að bregðast við ábendingum
tveggja eða jafnvel fleiri yfirlesara og gagnrýnenda og síðan athugasemdum
hóps háskólakennara eða sérfræðinga.
Þetta doktorsferli er annað og lýtur öðrum lögmálum en það sem Sigur-
jón Árni hefur búið við. Hann hefur að mestu verið einn, átt aðeins stuðning
ástvina og félaga við vinnu framlagðrar ritgerðar. Hann naut um tíma aðstoð-
armanns, en var lengstum einn á fræðimannsgöngunni, einn um angist upp-
sláttarvinnu, burðarþolsútreikninga og byggingarhátt - og einn um að ákveða
til hverra hann leitaði og naut aðstoðar hjá. Síðan þarf hann við leiðarlok að
lúta gamalli akademískri prófaðferð sem er eiginlega skyldust burtreiðum.
Þessi gamla disputasíuhefð kemur mér fýrir sjónir, sem dálítið sérkennileg-
ar lyktir á langri göngu. Doktorsefnið verður að setja sig í varnarstöðu og
bregða upp skýlum eða vopnum í samræmi við árársir. Það er sá böggull sem
fylgir skammrifi einfarans og er eiginlega akademískur óþarfi og jafnvel ó-
sæmilegur einnig.
Vísindaleg vinnubrögð ogfrumlegt framlag
s /
I 69. grein reglna fyrir Háskóla Islands segir:
Doktorspróf er fólgið í samningu ritgerðar eða ritgerða, munnlegri vörn,
og enn fremur geta einstakar deildir með samþykki háskólaráðs áskilið að
doktorsefni flytji fyrirlestur um fræðileg efni, einn eða fleiri. Til doktors-
ritgerðar eru gerðar kröfur um vísindaleg vinnubrögð og frumlegt fram-
lag doktorsefnisins til viðkomandi vísindagreinar. Ritgerðin skal dæmd
og varin samkvæmt reglum háskólans um doktorsritgerðir og dokt-
orsvörn.
Guðfræðideild HÍ hefur ekki gert þá sérstöku kröfu til Sigurjóns Árna að
hann haldi opinbera fyrirlestra, enda maðurinn kunnur af ítarlegum og fræði-
lega undirbyggðum fyrirlestrum, fyrir guðfræðinema, almenning og ýmsa
faghópa. Þá er ljóst að Sigurjón Árni hefur hlotið ágæta akademíska þjálfun
í þýsku háskólaumhverfi, þegar hann ritaði íyrri doktorsritgerð sína. Hann
þekkir því vel gryQur ritgerðasmíða, hvað þarf til, efnismeðferð, heimilda-
notkun, byggingarhætti, röklegt samhengi og frágang. Hann hefur þegar ver-
ið reyndur að því að kunna til verka með því að fýrri ritgerð hans var rýnd
og síðan samþykkt til varnar. Hann er fræðimaður að mótun og kunnáttu.
149