Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1987, Blaðsíða 160
158
MÚLAÞING
miklu fljótari að hugsa þetta en eg nú hef verið að skrifa það. Eg sneri
mér svo að fundarritaranum, sagði honum að bóka hina pöntuðu vinnu
og á eftir, að eg tæki það sem á vantaði hvort sem það yrði meira eða
minna. Þar með voru vandræðin leyst. Eg skal geta þess hér, að sumar-
plægingin varð 95 dagsláttur og að í minn hluta komu 34. Samþykkt
var ráðning plógmannsins, og loks ráðunaut falið að leita uppi og kaupa
til plæginganna sex stórvaxna og þrekmikla hesta á aldrinum 8-12
vetra, og að þeim væri skilað til Sambandsins þegar jörð yrði plógþíð
um vorið. Þar með var undirbúningi plæginganna lokið.
Plægingar þessar hófust, eins og ætlað var, þegar jörð var plógþíð
orðin. Tamning hestanna gekk fljótt og vel og plægingin svo að eg
hygg einsdæmi yfir allt land bæði fyrr og síðar. Orsakir þess voru að
mínu áliti þrjár: 1. Dugnaður og lagni mannsins. 2. Nægur hestkraftur,
þar sem aldrei voru settir fyrir plóginn færri en þrír hestar og sömu
hestar aldrei látnir vinna lengur á dag en hálfan vinnutíma plógmanns.
Og 3. Hestakaupin höfðu tekizt vel. Að hafa svo mikinn hestkraft fyrir
plógnum hafði eg lært af Elliðaplægingunni, enda aldrei þekkt það né
heyrt þess getið. í Ólafsdal og vestra þar var aldrei beitt fleiri en
tveimur hestum fyrir plóg og sama hafði eg gert við sléttun Vallanes-
túnsins. En nú hafði eg séð og skilið, hve miklu þyngri var plæging
graslendis en ofanafristuflaga. Eg var jafnan óbágur á að brjóta venjur,
ef eg sá eða hugði annað betur fara. Og við stofnun þessara plæginga
setti eg það skilyrði, að hestatalan yrði þessi og að vinnutími þeirra
yrði aðeins hálfur dagur. Vinnudagar plógmanns urðu um sumarið 84,
plæging alls 85385 ferfaðmar á 22 bæjum og jafnaðarplæging á dag
1016,5 ferfaðmar. Kostnaður við plægingarnar varð: Vinnulaun plóg-
manns og hesta (vextir af verði þeirra og fóður) kr. 6,57, en að viðbættu
fríu fæði plógmanns reiknuðu 1 kr. á dag varð kostnaður plægjenda
alls á dagsláttu kr. 6,70. Þótti það ódýrt samanborið við plægingar
Elliða, er kostað höfðu kr. 20 - 25 á dagsláttu. Sá mismunur stafaði
nokkru af því, að Pétur var betri plógmaður en Elliði, en að mestu af
hinu, að nú urðu ekki tafir af vantandi krafti fyrir plógnum. Sumarið
1913 fóru aftur fram plægingar á sama hátt og með sama manni. Vinnu-
dagar voru jafnmargir, plægingar 1500 ferföðmum minni og kostnaður
á dagsláttu kr. 1,90 meiri. Stafar þessi munur af því, að þá voru plægj-
endur 38 í stað 22 fyrra árið og fór því meiri tími í milliferðir. Nú brá
líka svo við, að talsvert meira var pantað af plægingum en komizt var
yfir, og urðu það verkefnisfyrningar til næsta árs. Það var m. ö. o.
komið fram, sem glettnisandinn hafði hvíslað í eyra mér vorið 1912.