Tölvumál - 01.11.2009, Page 34
3 4 | T Ö L V U M Á L
Ríkisstofnanir og aðrir opinberir aðilar safna
gríðarlegu magni af gögnum. Söfnun gagna er
beinlínis meginhlutverk sumra stofnana, svo sem
Hagstofunnar. Aðrar stofnanir hafa þetta meðal
fleiri markmiða sinna og hjá nær öllum stofnunum
safnast upp gögn af einhverju tagi, svo að segja sem
aukaafurð af annarri starfsemi.
Í gögnum felast verðmæti
Í þessari grein er einkum átt við formföst gögn (e. structured data), þ.e.
tölfræði, gagnagrunna, spjaldskrár og þess háttar. Í stuttu máli allt sem
eðlilegt gæti talist að birta í töflu. Þetta innifelur margvísleg gögn, allt frá
fjárlögum og mannfjöldatölum til orðabókarupplýsinga, veðurathugana og
hnattstöðu eftir heimilisföngum - svo einhver dæmi séu tekin.
Í þessum gögnum eru fólgin mikil verðmæti. Gögn sem safnað hefur verið
í áraraðir, jafnvel aldir (eins og í tilfelli mannfjöldatalna) eru fjársjóður
efnahags- og samfélagslegra upplýsinga. Það fyrirkomulag sem ríkir um
þessi gögn, gerir það samt að verkum að þessi miklu verðmæti eru aðeins
nýtt að litlu leyti.
Skortur á aðgengi er hindrun
Meginástæðan þess að einungis er hægt að nýta gögn að hluta er sú að
aðgangi að þessum gögnum er stórlega ábótavant. Í fyrsta lagi getur verið
erfitt að finna gögnin, eða yfir höfuð komast að því hvaða gögn eru til.
Engin miðlæg skrá er til yfir gagnasöfn á vegum opinberra aðila og margar
stofnanir birta ekki einu sinni upplýsingar um gagnasöfn sín, hvorki á
vefnum né annarsstaðar.
Alvarlegra vandamál er að ýmsar hindranir standa í vegi fyrir aðgangi að
þessum gögnum. Sumar þessara hindrana eru óviljaverk, aðrar stafa af
skorti á fjármagni og enn öðrum er jafnvel komið á viljandi. Meðal þeirra
síðastnefndu eru leyfisgjöld, lokuð eða óhentug skráarsnið og margskonar
óþarfar lagaflækjur.
Einkum er sú sértekjukrafa sem sett er á margar stofnanir hér skaðleg.
Stofnanirnar reyna að ná þessum sértekjum af gagnasöfnum sínum með
gjaldtöku. Helstu áhrif hennar verða þau að ríkisstofnanir borga hver
annarri fyrir notkunina, en aðrir hverfa frá vegna kostnaðar. Engar nýjar
tekjur verða til hjá ríkinu og engin verðmætasköpun verður í einkageiranum
eða háskólunum.
Opin gögn
Á vefsíðunni opingogn.net má finna ítarlega skilgreiningu á opnum gögnum.
Í fáum orðum er hægt að skilgreina að opin gögn eru gögn sem eru laus við
Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri
DataMarket
Opinber gögn
- vannýtt
auðlind
Gögn sem safnað hefur verið í áraraðir,
jafnvel aldir eru fjársjóður efnahags- og
samfélagslegra upplýsinga